Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Halli á ríkissjóði 46 milljarðar á næsta ári og hlutur í Íslandsbanka seldur

Út­gjöld rík­is­sjóðs munu aukast um 7,2 pró­sent milli ára sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu. Tekj­ur hans hafa stór­auk­ist und­an­far­in ár og á næsta ári mun gistinátta­skatt­ur verða end­ur­vak­inn, helm­ing­ur af eft­ir­stand­andi hlut í Ís­lands­banka verða seld­ur og ný gjald­taka af öku­tækj­um inn­leidd. Heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs í árs­lok 2024 eru áætl­að­ar 1.699 millj­arð­ar króna.

Áætlaður halli ríkissjóðs á næsta ári er 46,3 milljarðar króna. Heildartekjur eru áætlaðar 1.348,5 milljarðar króna en útgjöld 1.394,8 milljarðar króna.  Samkvæmt þessu munu tekjur ríkisins aukast um 134,9 milljarða króna á næsta ári en útgjöld þess 93,8 milljarða króna, eða um 7,2 prósent. 

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun. 

Þar er einnig hægt að sjá að hallinn í ár er nú áætlaður mun minni en hann var áður, eða 41,1 milljarður króna. Þrátt fyrir að ríkissjóður sé enn rekinn í halla, og safni þar af leiðandi skuldum, er staðan mun skaplegri en hún var á árunum 2021 og 2022. Afkoma ríkissjóðs á þeim tveimur árum var samanlagt neikvæð um 305,1 milljarð króna. 

Nýir tekjustofnar og banki seldur

Í fjárlagafrumvarpinu er þó gert ráð fyrir því að ríkið haldi áfram að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka á næsta ári og fái alls 48,3 milljarða króna vegna þeirrar eignasölu á árinu 2024. Þa er gert ráð fyrir að ríkið selji 21,25 prósent, eða helming þess sem það heldur enn á í bankanum.

Í fjárlagafrumvarpinu er svo einnig gert ráð fyrir að eftirstandandi hlutur, hinn 21,25 prósentin í Íslandsbanka, verði seldur á árinu 2025. Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar er alls ekki eining innan ríkisstjórnarinnar um að ráðast í sölu á hlutum í Íslandsbanka með þessum hætti sem lagt er upp með í fjárlagafrumvarpi næsta árs. 

Þá er gert ráð fyrir því að veiðigjöld verði 12,2 milljarðar króna á næsta ári en þar af eru 2,1 milljarður króna tilkominn vegna verðmætagjalds af fiskeldi. Bankaskattur á að skila 6,5 milljörðum króna í ríkiskassann á árinu 2025. 

Þá á gistináttaskattur, sem var felldur niður tímabundið á tímum kórónuveirufaraldursins, að taka gildi aftur um áramót og leggjast líka á skemmtiferðaskip. Hann á að skila tekjum upp á tæplega 4,2 milljarða króna á næsta ári. 

Þá boðar ráðherra fyrsta skrefið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári. Innleitt verður nýtt kerfi þar sem greiðslur eru í auknum mæli „tengdar notkun svo hægt verði að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi vegakerfisins.“ Í fjárlagafrumvarpinu segir að tekjur af ökutækjum og eldsneyti séu áætlaðar 63,3 milljarðar króna á næsta ári og þar af séu 7,5 milljarðar króna vegna fyrstu skrefa í innleiðingu nýja kerfisins. 

Sérstaklega er þó tekið fram að krónutölugjöld, utan bifreiðagjalda, verða ekki látin fylgja verðlagi, ólíkt fyrra ári þar sem þau héldust í við verðlagsforsendur. Þannig munu þau aðeins uppfærast um 3,5 prósent um áramót en með því eru skattarnir um þremur milljörðum krónum lægri en ef þeir hefðu fylgt verðlagi.

Enn yfir skuldareglu

Samkvæmt skuldareglu mega heild­ar­skuldir rík­is­sjóðs, að frá­töldum líf­eyr­is­skuld­bind­ingum og við­skipta­skuldum og að frá­dregnum sjóðum og bankainn­stæð­um, ekki fara yfir 30 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla, sem sett er fram í lögum um opinber fjármál, tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019, þegar hún var 22 prósent. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður engin breyting á þeirri stöðu að ríkissjóður verði yfir 30 prósent markinu á næsta ári, en skuldahlutfallið í lok þess árs er áætlað 30,8 prósent. 

Skuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 1.702 milljarðar króna í lok þessa árs og þær eiga að lækka um þrjá milljarða króna á því næsta samkvæmt frumvarpinu, niður í 1.699 milljarða króna. Af þessum skuldum er áætlað að ríkið greiði 110.7 milljarða króna í vaxtagjöld á árinu 2024.


Fyrirsögn greiningarinnar var uppfærð eftir að ábending barst frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um að samkvæmt staðlinum sem notaður er við uppgjör ríkissjóðs þá hefur söluandvirði Íslandsbanka ekki bein áhrif á afkomu ríkissjóðs.
Kjósa
13
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár