Veiðigjöld verða hækkuð. Hvernig framtíðarfyrirkomulag greiðslu þeirra verður og hversu miklum viðbótartekjum þau muni skila í ríkissjóð er þó enn óljóst og á eftir að útfærast nákvæmlega. Þetta kom fram í kynningu á vinnu „Auðlindarinnar okkar“, verkefnis sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti af stað í maí í fyrra. Hóparnir sem féllu undir verkefnið skiluðu sameiginlegri lokaskýrslu í dag.
Raunar eru ekki ný tíðindi að veiðigjöld muni hækka. Ríkisstjórnin boðaði þá hækkun í fjármálaáætlun sinni fyrir árin 2024 til 2028 sem birt var í mars síðastliðnum. Þar kom fram að veiðigjaldið yrði hækkað á stærri samþættar útgerðir en á móti yrði frítekjumark hækkað til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Áætlað var að þessar breytingar myndu skila auknum tekjum í ríkissjóð frá og með árinu 2025. Hvernig þetta yrði gert var ekki útfært frekar í áætluninni en fyrir lá að hækkunin yrði á grundvelli niðurstöðu „Auðlindarinnar okkar“.
Í skýrslunni sem birt var í dag leggur starfshópurinn sem falið var að skoða þetta til að ný og einfaldari leið verði farin við álagningu og innheimtu veiðigjalda, að gjaldið verði lagt á aflaverðmæti hverrar veiðiferðar og þannig gjaldfært í rauntíma.
Tillaga hópsins samkvæmt skýrslunni er sú að veiðigjaldið verði í samræmi við metna auðlindarentu af fiskveiðum. Starfshópurinn telur að ekki séu vísbendingar um að álagt veiðigjald víki að verulegu marki frá því sem lagt er upp með í lögum um það, en þar segir að gjaldið eigi að vera um 33 prósent af metinni auðlindarentu af fiskveiðum.
Einnig kæmi til greina að mati starfshópsins að viðhalda núverandi kerfi veiðigjalda en meta reiknistofn veiðigjalds í því skyni að hann endurspegli sem best auðlindarentu. Þar þyrfti sérstaklega að horfa til áhrifa fjármagnskostnaðar, aukafyrninga og milliverðlagningar.
Þorri þjóðarinnar segir að gjöldin eigi að vera hærri
Í lögum um veiðigjald eru sett fram skýr markmið. Þeir fjármunir sem innheimtast vegna veiðigjalda eiga að „mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“
Mat matvælaráðuneytisins, sem sett er fram í skýrslunni, er að kostnaður við þjónustu ríkisins við sjávarútveg sé um átta milljarðar króna á ári. Því er ljóst að veiðigjaldið þarf að ná að minnsta kosti inn þeirri tölu og til viðbótar að „tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.“
Miklar deilur hafa verið um þessi mál – hvernig eigi að skipta afkomunni af fiskveiðum milli útgerða annars vegar og almennings, eigenda auðlindarinnar, hins vegar – áratugum saman. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir matvælaráðuneytið í tengslum við vinnu við „Auðlindina okkar“ kom fram að rúmlega 83 prósent aðspurðra töldu að auðlindagjöld sem leggjast á geirann ættu að vera hærri. Þar af töldu 57,3 prósent að þau hættu að vera mun hærri. Einungis kjósendur eins flokks á Íslandi, Sjálfstæðisflokks, eru að meirihluta sátt við fiskveiðistjórnunarkerfið.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) birti greiningu í febrúar síðastliðnum þar sem sagði að auðlindarenta í sjávarútvegi hefði verið 56 milljarðar króna á árinu 2021. Með auðlindarentu er átt við þá arðsemi sem verður til vegna þess að stjórnvöld hafa takmarkað aðgengi að auðlindinni, með úthlutun aflaheimilda. Veiðigjald ársins 2021 var hins vegar 7,9 milljarðar króna, eða um 14 prósent af auðlindarentunni, og þar með langt frá 33 prósent viðmiðinu.
Það var þó umtalsvert meira en útgerðirnar greiddu í veiðigjald árið 2020, þegar það var einungis 4,8 milljarðar króna, en umtalsvert minna en árið 2018, þegar það var 11,3 milljarðar króna. Í fyrra var gjaldið 7,9 milljarðar króna og á fyrri hluta yfirstandandi árs greiddu útgerðirnar 5,6 milljarða króna í veiðigjald.
Gríðarlegur hagnaður á síðustu árum
Frá árinu 2009 og út árið 2021 högnuðust sjávarútvegsfyrirtæki landsins um 533 milljarða króna, samkvæmt gagnagrunni sem Deloitte heldur úti um geirann. Mestur var hagnaðurinn í krónum talið á tímabilinu á síðastnefnda árinu, þegar geirinn hagnaðist um 65 milljarða króna. Hann jókst um 124 prósent á milli ára og var 36 milljörðum krónum meiri þá en árið 2020.
Á sama tímabili, frá 2009 og út árið 2021, hefur sjávarútvegurinn greitt 219,3 milljarða króna í opinber gjöld, þar af 85,9 milljarða króna í veiðigjöld. Auk þess er um að ræða tekjuskatt og tryggingagjald. Sú tala dregst frá áður en hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja er reiknaður auk þess sem búið er að taka tillit til fjárfestingar í geiranum, sem býr til eign.
Opinberu gjöldin voru 22,3 milljarðar króna árið 2021, sem var 28 prósent meira en árið 2020. Á sama tíma og hagnaðurinn sem sat eftir hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum jókst um 36 milljarða króna milli ára jukust opinberu gjöldin um 4,9 milljarða króna.
Hagnaður geirans áður en hann greiddi veiðigjöld, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð var samtals 752,3 milljarðar króna frá 2009 og út árið 2021. Af þessum hagnaði sat tæplega 71 prósent eftir hjá útgerðum landsins en rétt um 29 prósent fór í opinber gjöld.
Athugasemdir