Þessi grein birtist fyrir rúmlega 2 mánuðum.

Þrjár 19 ára stelpur stofnuðu eitt efnilegasta fótboltalið landsins

„Við höfð­um ekki eft­ir neinu að bíða,“ seg­ir knatt­spyrnu­kon­an og lög­fræð­ing­ur­inn Jór­unn María Bachmann Þor­steins­dótt­ir, ein þeirra ungu kvenna sem krafð­ist þess að stofn­að­ur yrði meist­ara­flokk­ur kvenna í fót­bolta hjá Gróttu. Lið­ið keppti ný­ver­ið í úr­slita­leik um sæti í Bestu deild kvenna, að­eins átta ár­um eft­ir stofn­un.

Þrjár 19 ára stelpur stofnuðu eitt efnilegasta fótboltalið landsins
Fyrsta æfingin Hópur þeirra stelpna sem mættu á fyrstu æfingu meistaraflokks fyrir átta árum síðan. Mynd: Aðsend

Þrjár 19 ára stelpur, uppaldar á Seltjarnarnesi, tóku höndum saman veturinn 2015 og óskuðu eftir fundi með stjórn knattspyrnudeildar Gróttu þar sem þær lögðu til að stofnaður yrði meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu. Í dag, átta árum síðar, er liðið eitt það efnilegasta á Íslandi.

Jórunn María Bachmann ÞorsteinsdóttirSamhliða því að æfa með meistaraflokki þjálfaði Jórunn María yngri flokka Gróttu í 12 ár.

Stelpurnar þrjár, í dag ungar konur, eru Jórunn María Bachmann Þorsteinsdóttir, Karen Sif Magnúsdóttir og Tinna Bjarkar Jónsdóttir. 

„Við kláruðum annan flokk haustið 2015. Þá var ekki til neinn meistaraflokkur en okkur langaði ekki að hætta að æfa fótbolta,“ segir Jórunn María. Vinkonurnar eru allar með stórt Gróttuhjarta og tóku ekki annað í mál en að spila fyrir uppeldisfélagið. 

Mættu mótlæti

Jórunn María, Karen Sif og Tinna skrifuðu niður nöfn á fyrrverandi fótboltastelpum sem þeim datt í hug að gætu haft áhuga á að æfa með meistaraflokki, ef hann yrði stofnaður. „Við fórum með þennan lista og reyndum að sannfæra stjórnina um að það væri kominn tími á að stofna meistaraflokk kvenna, og við værum með nægilega stóran hóp til að gera það.“

Formaður stjórnar knattpyrnudeildar Gróttu, Hilmar Sigurðsson, átti dóttur í öðrum flokki og sitjandi gjaldkeri var faðir Karenar, Magnús Gunnarsson. „Það hjálpaði til að þeir höfðu hagsmuna að gæta,“ segir Jórunn María og rifjar upp hvernig þeir hjálpuðu stelpunum að sækja um fjármagnsstyrki svo hægt væri að fara af stað með æfingar.

Þrátt fyrir stuðninginn frá þeim innan stjórnar Gróttu fundu stelpurnar fyrir mótlæti. „Sumum fannst ekki tímabært að stofna meistaraflokk kvenna, það voru einhverjir sem vildu bíða í nokkur ár eftir að það kæmu fleiri stelpur upp. En við höfðum ekki eftir neinu að bíða,“ segir Jórunn María.

Meistaraflokkur Gróttu árið 2016Liðið sitt fyrsta keppnissumar ásamt þjálfurum og stjórnarmeðlimum.

Heppin með pabba

Þóra Kristín Jónsdóttir er fædd 1994 og situr nú í meistaraflokksráði kvenna hjá Gróttu en hún spilaði sjálf með liðinu í þónokkur ár.

Þóra Kristín JónsdóttirSpilaði með meistaraflokki Gróttu og situr í dag í meistaraflokksráði.

Þóra Kristín man vel eftir því þegar enginn fótbolti var í boði fyrir stelpur á Seltjarnarnesi en áhugi hennar á íþróttinni vaknaði snemma. Hún segist hafa verið heppin að eiga föður sem sat í stjórn Gróttu og gat hjálpað dóttur sinni að komast inn í fótboltann með því að leggja til að stofnaður yrði kvennafótbolti hjá félaginu. 

„Eitt sumarið var ákveðið að í fyrsta skipti fengju stelpur að æfa. Þá voru liðsmenn úr meistaraflokki karla eða meistaraflokki kvenna hjá KR fengin til að þjálfa okkur. Þannig að á sumrin spiluðum við stelpurnar fótbolta en á veturna var ég oft bara ein með strákunum,“ útskýrir Þóra Kristín. 

Jórunn María á minningu úr grunnskóla þegar knattspyrnustarfið var að byrja. „Bróðir vinkonu okkar, Atli Freyr Sveinsson, gekk í bekki þegar við vorum að klára 6. bekk og hvatti okkur til að mæta á æfingar, því að hann langaði að litla systir sín myndi byrja að æfa fótbolta. Hann þjálfaði okkur það sumar og blessunarlega skellti ég mér á æfingu. Mig grunaði ekki þá hvað sú ákvörðun yrði afdrifarík.“ 

Faðir Þóru Kristínar átti þátt í stofnun kvennastarfsins og þakkar dóttirin fyrir að hafa átt ákveðinn pabba sem gat komið ferlinu af stað. „Ég er bara frek og heppin með pabba sem var með einhvers konar völd þarna inni og gat sett þetta á laggirnar. Við vorum tvær, ég fædd 1994 og önnur fædd 1996, sem vorum báðar með pabba í stjórn. Þeir voru í rauninni í stjórn út af strákunum sínum en þeir ákváðu að stofna fótboltaflokka fyrir okkur líka.“ 

„Þeir voru í rauninni í stjórn út af strákunum sínum en þeir ákváðu að stofna fótboltaflokka fyrir okkur líka“
Þóra Kristín Jónsdóttir

Fyrir komandi kynslóðir

Þegar Þóra Kristín frétti af því að Jórunn María og fleiri stelpur vildu stofna meistaraflokk Gróttu árið 2015 var ákvörðunin um hvort hún ætti að vera með ekki flókin. Hún var að sjálfsögðu til í slaginn.

Til að byrja með hittust stelpurnar einu sinni í viku, fengu bolta lánaða hjá strákunum og vesti hjá yngri flokkunum. Eftir nokkra leit fannst loksins þjálfari sem hafði trú á liðinu og vildi leggja sitt af mörkum til að þær næðu árangri.

„Ég var náttúrlega búinn að vera að þjálfa heillengi, átti stráka í Gróttu og spilaði sjálfur þarna í nokkur ár þannig að mér var ekkert alveg sama um þetta verkefni,“ segir Guðjón Kristinsson, fyrsti þjálfari liðsins. „Eftir að það var talað við mig sló ég til. Mig langaði að hjálpa stelpunum af stað og koma á grunni sem hægt væri að byggja á fyrir komandi kynslóðir.“ 

Guðjón þjálfaði liðið í þrjú ár. Hann lýsir áskoruninni sem þolinmæðisverkefni enda var að mörgu að huga til þess að geta búið til gott lið. „Maður þurfti að vera með raunhæf og skýr markmið. Það var ekki að fara að gerast yfir nótt að við yrðum snillingar í fótbolta.“ Fyrir Guðjóni skipti máli að koma formi á liðið, búa til menningu í kringum það og útlista hvað þyrfti að gerast svo hægt væri að ná árangri. 

Jórunn María rifjar upp eftirminnilegar myndir sem voru teknar af liðinu fyrstu æfinguna í desember 2015 og á fyrstu æfingunni með Guðjóni sem var 15. janúar 2016. „Það er ótrúlega fyndið að horfa til baka á þessa myndir, þetta er svo tilviljunarkenndur hópur og það voru alls ekki allar sem héldu áfram.“

Fyrsta æfing liðsinsMeistaraflokkur Gróttu á sinni fyrstu æfingu.

Fyrsta keppnissumar liðsins reyndist erfitt hvað fótboltann varðar. Stelpurnar töpuðu leikjum yfirleitt með 10 eða 12 mörkum og voru fáar á æfingum. Þóra Kristín segir liðsheildina þrátt fyrir það hafa verið góða, enda stelpurnar ánægðar með að fá að spila fótbolta. Jórunn María tekur undir það og segir það skemmtilega minningu þegar liðið tapaði 3-2 fyrir Tindastóli í bikarleik og fagnaði þeim úrslitum mjög. 

Grótta - TindastóllStelpurnar töpuðu 3-2 á móti Tindastóli í bikarleik en voru ánægðar með úrslitin.

Það var ástríðan fyrir fótboltanum og uppeldisfélaginu sem veitti stelpunum þann drifkraft sem þurfti til að halda áfram að spila. Jórunn María segir það líka hafa verið ákveðið jafnréttissjónarmið að berjast fyrir tilurð og árangri meistaraflokksins. „Af hverju ættu strákarnir að fá að halda áfram að spila en ekki við?“ 

„Af hverju ættu strákarnir að fá að halda áfram að spila en ekki við?“
Jórunn María Bachmann Þorsteinsdóttir

Boltinn fer að rúlla

Með hverju árinu sem leið varð alvaran meiri, umgjörðin betri og stuðningurinn við liðið jókst. 

Þóra Kristín rifjar upp hvernig tilfinning það var að fara allt í einu að vinna leiki í stað þess að tapa þeim með 10 marka mun. „Þá fór maður að taka þessu af meiri alvöru og mæta á æfingar á laugardagsmorgnum. Við fengum líka meira fjármagn frá Seltjarnarnesbæ og vorum heppnar með að formaður knattspyrnudeildar Gróttu varð líka í rauninni formaður meistaraflokks kvenna. Hann og gjaldkeri knattspyrnudeildarinnar voru báðir með dætur í meistaraflokknum þannig að þeir voru tveir pabbar og stjórnarmenn sem voru okkur til halds og trausts,“ segir Þóra Kristín og á þar við Hilmar Sigurðsson og Magnús Gunnarsson. 

Jórunn María man eftir því að tímabilið 2018, aðeins tveimur árum eftir að þær byrjuðu að æfa, var fólk farið að ræða hvort það ætti ekki að setja enn þá meira púður í liðið. Guðjón hafði lokið sínum þremur árum eftir tímabilið og við tók Magnús Örn Helgason. „Gaui var búinn að gera frábæra hluti með liðið og Maggi tók við verkefninu þarna um haustið 2018. Með Magga komu ýmsar nýjungar eins og hlaupamælar og hlutirnir urðu ansi pró. Það voru líka efnilegar stelpur að koma upp úr yngri flokkunum á sama tíma sem hjálpuðu liðinu mikið,“ segir Jórunn María.

SigurGróttustelpur ásamt starfsfólki liðsins sumarið 2019.

Sumarið 2019 komst Grótta upp í Lengjudeild en féll aftur niður tveimur árum seinna. Liðið stóð þá á tímamótum því að næsta verkefni hjá Magnúsi Erni var að taka við þjálfun U16 landsliðs kvenna. Pétur Rögnvaldsson hafði verið aðalþjálfari ásamt Magnúsi Erni og sá um liðið næstu tvö ár. Hann lýkur störfum eftir tímabilið 2023.

Fyrirmyndir og framtíðin

Í dag spilar meistaraflokkur kvenna Gróttu í Lengjudeildinni og er þar í 4. sæti deildarinnar. Nú í sumar settu stelpurnar sér markmið um að vera í efri hluta deildarinnar. Þann 9. september síðastliðinn spiluðu þær svo úrslitaleik við Fylki um sæti í Bestu deild. Leikurinn fór 3-2 fyrir Fylki sem skoruðu sigurmarkið á 84. mínútu.

Jórunn María, sem hefur verið með liðinu frá upphafi, finnur vel fyrir þeirri breytingu sem hefur orðið á liðinu og umgjörðinni í kringum það. „Þegar við byrjuðum voru þetta stelpur sem langaði að æfa fótbolta, hafa gaman, hitta vinkonur og keppa. En núna er þetta orðið alvöru meistaraflokkslið. Leikmenn mæta hálftíma fyrir æfingar, æfa í eins æfingafötum og eru með fótboltann í fyrsta sæti. Umgjörðin er líka fyrsta flokks.“

Aðspurð út í leikinn á móti Fylki segir Jórunn María: „Við fórum allar inn í þennan leik með það hugarfar að við myndum vinna, komast upp í Bestu deild og skrifa sögu félagsins.“ Þrátt fyrir tapið tekur hún ýmislegt jákvætt út úr leiknum. „Arnfríður Auður Arnarsdóttir og Rebekka Sif Brynjarsdóttir, sem skoruðu okkar mörk, eru 15 ára og 14 ára uppaldar Gróttustelpur. Ég held að liðið hafi svolítið sannað fyrir öllum sem komu að horfa hvað við getum. Það var bæði góð liðsframmistaða og einstaklingsframmistaða hjá mörgum.“

Þóra Kristín hefur sjálf fundið fyrir miklum og vaxandi áhuga meðal stelpna á Seltjarnarnesi á fótbolta. „Eins og oft er venjan hjá Gróttu þá hélt ég einu sinni vinkvennaæfingu þegar ég þjálfaði 5. flokk kvenna. Þá mega stelpur mæta með vinkonur sínar með sér. Það voru 23 stelpur skráðar í flokkinn en mættu 40 á æfinguna. Ég vissi bara ekki hvað ég átti að gera við mig,“ segir hún og hlær léttilega.

Bæði Jórunn María og Þóra Kristín telja meistaraflokk kvenna í Gróttu einnig mikilvægan svo að yngri stelpur eigi sér fyrirmyndir innan félagsins og geti sett sér markmið um að spila með liðinu einn daginn.

LiðiðMeistaraflokkur Gróttu sumarið 2023.

Þóra Kristín segir: „Stelpurnar í þriðja flokki æfa nú með meistaraflokki kvenna, meðal annars til þess að þær sjái að það er eitthvað sem getur tekið við eftir yngri flokkana. Með meistaraflokknum getum við reynt að koma í veg fyrir þetta brottfall sem á sér svo oft stað í kringum annan og þriðja flokk, eða í kringum menntaskólaaldurinn.“ Hún bætir við að liðið sé einnig komið með grjóthart sjálfboðastarfsfólk sem hjálpar til við sjúkrabörurnar, sjoppuna eða miðasöluna. Þetta skiptir allt máli vegna þess að „ef þú hættir í fótbolta þá hættirðu samt ekki að vera Gróttumaður eða Gróttukona“. 

Hvað varðar framtíð liðsins segir Jórunn María stefnuna setta á Bestu deildina. „Ég held að enginn hafi þorað að segja það opinberlega fyrir þetta tímabil en miðað við þessa frammistöðu í sumar þá held ég að stefnan verði klárlega sett á Bestu deildina sumarið 2025.“

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár