Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Auknar fjárfestingar í kvennaboltanum skila sér í velgengni á HM

Kom­ið er að átta liða úr­slit­um á heims­meist­ara­móti kvenna í fót­bolta. Mist Rún­ars­dótt­ir fyrr­um knatt­spyrnu­kona og hlað­varps­stjórn­andi Heima­vall­ar­ins legg­ur áherslu á að auk­ið fjár­magn skili sér í bætt­um ár­angri inn­an kvenna­bolt­ans. „Um leið og það er fjár­fest í íþrótt verð­ur hún aug­ljós­lega betri og leik­menn fá meira svig­rúm til að sinna henni.“

Auknar fjárfestingar í kvennaboltanum skila sér í velgengni á HM
Ljónynjurnar frá Englandi Fagna sigri á Heimsmeistaramótinu í fótbolta.

Níunda heimsmeistaramót kvenna í fótbolta fer nú fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Aðeins ellefu dagar eru í úrslitaleikinn og átta liða berjast enn um heimsmeistaratitilinn. Það eru Spánn, Holland, Japan, Svíþjóð, Ástralía, Frakkland, England og Kólumbía.

Mist RúnarsdóttirSegir umgjörð í kringum kvennaboltann fara batnandi.

Mist Rúnarsdóttir, fyrrum knattspyrnukona, þjálfari og hlaðvarpsstjórnandi Heimavallarins, segir mótið standa undir væntingum þó að sigurstranglegustu þjóðirnar hafi ekki endilega gert það. „Það er allskonar spenna í þessu og óvæntir hlutir búnir að gerast. Það eitt og sér er skemmtilegt fyrir áhorfandann. Persónulega fannst mér mjög gleðilegt að sjá þrjár af fjórum Afríkuþjóðum komast áfram upp úr riðlunum sínum. Það sýnir okkur að það er ýmislegt að gerast í fótboltanum út um allan heim.“ 

„Persónulega fannst mér mjög gleðilegt að sjá þrjár af fjórum Afríkuþjóðum komast áfram upp úr riðlunum sínum.“
Mist Rúnarsdóttir

Meira fjármagn

Úrslit leikjanna í riðlakeppninni og 16 liða úrslitum hafa vakið athygli enda eru sum af bestu fótboltaliðum heims dottin úr leik. Bandaríkin, sem prýða efsta sæti á styrkleikalista FIFA  og unnu síðustu tvö heimsmeistaramót, töpuðu í dramatískri vítaspyrnukeppni fyrir Svíum í 16 liða úrslitum. Bandaríska liðið var að stórum hluta skipað nýliðum sem voru að spila sína fyrstu leiki á heimsmeistaramóti.

Brasilía situr í sjötta sæti styrkleikalista FIFA og komst ekki upp úr riðlakeppninni. Sömuleiðis Þýskalands, næstbesta lið í heimi og Kanada, sjöunda besta lið heims. Þau lið sem komust áfram í 16 liða úrslit eru sum í fertugasta, fimmtugasta eða rúmlega sjötugasta sæti listans eins og Marokkó. Leikmaður Marokkó, Nohaila Benzina, varð einnig fyrsta kona fótboltasögunnar til að klæðast slæðu í leik á heimsmeistaramóti í síðustu viku. 

Nohaila BenzinaEr fyrsta konan til að klæðast slæðu á heimsmeistaramótinu.

Mist segir fleiri þjóðir hafa sett aukin kraft í kvennaboltann og skilar það sér í meiri velgengni. „Ef þú fjárfestir í íþróttinni, þá vex hún. Þróunin hefur verið þannig um allan heim og það er gaman að sjá það svona skýrt á stærsta sviðinu.“

Aldrei áður hafa eins margar þjóðir tekið þátt á mótinu en þær eru 32 talsins. Áður en mótið hófst tilkynnti FIFA að metaðsókn hefði verið í miða á mótið og nú hafa yfir 1,5 milljónir miða selst. Þær fjárhæðir sem leikmenn fá greiddar fyrir þátttöku eru einnig einsdæmi. Fyrir að vinna úrslitaleikinn fær hver leikmaður 30 milljónir íslenskra króna og liðið hálfan milljarð. Til samanburðar fékk argentínska karlaliðið rúman fimm og hálfan milljarð fyrir sigur sinn á HM karla í fyrra og alls seldust tæplega þrjár milljónir miða á mótið. 

Hlutirnir eru að fikrast í rétta átt en gerast of hægt, samkvæmt Mist, sem gerir ráð fyrir að langt sé í jafnræði milli kvenna og karla innan knattspyrnuheimsins. Hún hefur tekið eftir auknum áhuga á kvennaboltanum síðustu ár og því hve mikið getur breyst þegar fyrirtæki setja alvöru metnað og peninga í að byggja upp lið. „Um leið og það er fjárfest í íþrótt verður hún augljóslega betri og leikmenn fá meira svigrúm til að sinna henni. Þá er hægt að bæta aðstæður og umgjörð með því að fá hæfara fólk til að vinna í kringum íþróttina.“

„Ef þú fjárfestir í íþróttinni, þá vex hún.“
Mist Rúnarsdóttir

Fjölmiðlar beri ábyrgð

Mist segir fjölmiðla einnig gegna mikilvægi hlutverki í sambandi við sýnileika kvennaboltans. „Málið snýst ekki um að það vanti áhuga á fótbolta í samfélaginu, heldur er það þannig að ef engin er að tala um kvennafótboltann að þá veistu ekki af honum. En um leið og fjölmiðlar fara að fjalla meira um hann, að þá verður þetta normið í þínu umhverfi og áhuginn eykst. Það skiptir máli að sjá leiki í sjónvarpinu, heyra um þá í útvarpinu eða opna fréttir á vefsíðu.“ 

Sjálf finnur Mist að fleira fólk ræðir Heimsmeistaramótið eða Bestu deild kvenna við hana en áður. Síðustu ár hefur umgjörð í kringum kvennaknattspyrnu batnað til muna, bæði hérlendis og erlendis en það er lykilatriði, samkvæmt fyrrum fótboltakonunni, ef stækka á leikinn og gera hann eftirsóknarverðari. „Þá verður náttúrulega að búa til góða vöru úr þessu. Ef þú ætlar að sýna fótboltaleik með einni myndavél sem er langt frá vellinum þá verður þetta aldrei eins spennandi og eins og ef þú ert með tíu myndavélar í kringum völlin, endursýningar, líf og fjör. Það er líka auðveldara fyrir lýsanda leiksins að ná upp góðri stemmningu ef umgjörðin er góð og betra fyrir áhorfendur að fanga andartakið. Þetta skiptir miklu máli og er hægt og bítandi að batna.“

Á mótinu í ár heldur Mist með Japan, en liðið hefur náð góðum árangri á mótinu  þrátt fyrir að hafa nýlega gengið í gegnum ákveðna endurnýjun vegna kynslóðaskipta. „Þær eru kannski aðeins betri en fólk átti von á því að það hélt að endurnýjunin væri komin skemmra á veg. En þær eru líka bara svo sjarmerandi, jarðtengdar, vel skipulagðar og leikgleðin geislar af þeim. Þær eru flottar fyrirmyndir.“

Japanska landsliðiðMætir Svíum í átta liða úrslitum á HM.

„Það er líka svo skemmtilegt að sjá hvernig íþróttamenningin í kringum hvert lið skilar sér á mótinu, hvort sem það tengist þjóðmenningu eða ekki. Þú sérð ólíkar nálganir, viðmót og orku,“ segir Mist sem fagnar fjölbreytileika á mótinu enda skili það sér í fleiri fyrirmyndum fyrir ungar fótboltastelpur.

Kjósa
8
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár