Fátt er jafn dásamlegt og íslenska sumarið, að ferðast um landið og njóta alls þess sem það hefur upp á að bjóða. Í dag er hægt að sækja bæjarhátíðir vítt og breitt um landið, nánast hverja helgi, en verslunarmannahelgin sker sig auðvitað úr varðandi fjölda útihátíða og stærð þeirra.
Fyrir marga er verslunarmannahelgin síðasta tækifæri sumarsins til að fara í útilegu og sleppa aðeins fram af sér beislinu áður en rútína hversdagsins tekur aftur við. Þessi skemmtilegi siður að safnast saman, skemmta sér, njóta tónlistar og annarrar afþreyingar þegar sumri fer að halla, býður upp á frábært tækifæri til að skapa minningar með vinum og kynnast nýju fólki. Því miður er ekki hægt að horfa fram hjá því að þetta umhverfi, þar sem þúsundir safnast saman, skemmta sér fram á nótt og áfengi gjarnan haft við hönd, eykur líkurnar á ofbeldisbrotum, þar með talið kynferðisbrotum.
Kynferðisbrot geta verið margvísleg og falist meðal annars í orðum, óvelkomnum snertingum og áreiti, ásamt nauðgun. Ýmsir þættir geta útskýrt aukna áhættu á slíkum brotum á útihátíðum, meðal annars nafnleysið sem felst í mannfjöldanum og stuðlar að því að gerandi getur auðveldlega látið sig hverfa inn í mannþröngina. Eins dregur neysla áfengis og vímuefna úr hömlum og hefur áhrif á dómgreind þeirra sem neyta.
Mikil umræða hefur oft skapast á undanförnum árum í kringum verslunarmannahelgi varðandi kynferðisbrot, því miður oft í kjölfar þess að slík brot koma upp. Einhverjum kann að finnast nóg komið af slíkri umræðu en á margan hátt er slík umfjöllun forvörn og því full ástæða til að minna á þessa dekkri hlið útihátíða og velta því upp hvað gæti stuðlað að öruggara umhverfi þar sem við getum öll skemmt okkur saman án þess einhver verði fyrir skaða:
Skýr skilaboð gegn ofbeldi frá þeim sem standa að hátíðum:
Þeir sem standa fyrir slíkum útihátíðum eru flestir vel meðvitaðir um aukna áhættu á kynferðisbrotum og hafa gert margt gott til að reyna að draga úr þeirri áhættu, og vera til staðar ef skaðinn er skeður. Má í því sambandi nefna þjóðhátíð í Eyjum, stærstu útihátíð ársins, þar hafa aðstandendur tekið skýra afstöðu gegn ofbeldi og hvatt þjóðhátíðargesti til að vera vakandi og passa upp á hvert annað. Slík skilaboð gefa til kynna að ofbeldi verði ekki liðið og ætlast sé til þess að fólk komi fram við hvað annað af virðingu.
Verum vakandi:
Þetta eru afar mikilvæg skilaboð, að fá leyfi til að skipta okkur af fólki sem við þekkjum ekki, sem okkur finnst oft óþægilegt. En í allri umræðunni um kynferðisbrot þá hefur þetta viðhorf verið að breytast, ef við verðum vör við eitthvað sem okkur finnst á einhvern hátt einkennilegt, þá má grípa inn í, það er allt í lagi að passa upp á hvert annað. Að því sögðu þá er rétt að benda á að það er aðeins einn sem ber ábyrgð á kynferðisbroti, það er gerandinn.
Fáum samþykki:
Við berum ábyrgð á því að ganga úr skugga um að manneskjan sem við erum í samskiptum við hafi samþykkt það sem er að gerast, hvort sem það er snerting, faðmlag, kossar eða eitthvað annað. Þá er líka mikilvægt að hafa í huga hvort manneskjan er í því ástandi að geta yfir höfuð tekið ákvarðanir eins og að samþykkja snertingar. Fólk sem er sofandi eða ofurölvi getur ekki gefið slíkt samþykki.
Sýnilegir viðbragðsaðilar:
Skilaboðum um að ofbeldi verði ekki liðið þarf að fylgja eftir. Skipulögð og sýnilega öryggisgæsla (mönnuð og öryggismyndavélar) er mikilvæg og auðvitað að þeir sem sinna slíkri gæslu hafi fengið viðeigandi þjálfun til að koma auga á möguleg brot og hvernig bregðast skuli við.
Gott aðgengi að öruggum svæðum:
Eins er mikilvægt að fólki sem finnst því ógnað á einhvern hátt eða hefur orðið fyrir skaða, viti hvert það getur leitað. Allir hátíðargestir ættu að fá upplýsingar um hvert sé hægt að leita og slík svæði ættu að vera vel merkt.
Það er óhætt að segja að mikil vitundarvakning hafi átt sér stað á undanförnum árum varðandi kynferðisbrot og útihátíðir og er það vel. Áframhaldandi umræða er mikilvæg og passa að sofna ekki á verðinum.
Að því sögðu óska ég ykkur góðrar og öruggrar skemmtunar um verslunarmannahelgina.
Athugasemdir