Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Sú ákvörðun sem kona tekur fyrir sig, er næsta góða ákvörðun í hennar ferli“

Auk­ið rými hef­ur skap­ast fyr­ir kon­ur til að taka stjórn á eig­in lík­ama eft­ir sam­fé­lagsum­ræðu síð­ustu ára og finn­ur ljós­móð­ir fæð­ing­ar­heim­il­is­ins Bjark­ar­inn­ar fyr­ir auk­inni vald­efl­ingu kvenna í sínu starfi. Tótla I. Sæ­munds­dótt­ir, fræðslu­stýra Sam­tak­anna '78, seg­ir kon­ur vera mis­mun­andi en reynsla fjög­urra við­mæl­enda Heim­ild­ar­inn­ar stað­fest­ir að svo sé.

Hvað er að vera kona? Það fer eftir því hverja þú spyrð. Konur eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Á sama tíma og svarið veltur á hverri og einni, er óhjákvæmilegt að horfast í augu við þá staðreynd að samfélagslegur þrýstingur um atferli og útlit veitir konum takmarkað svigrúm til að stíga fyrir utan hið hefðbundna form kvenleika. Krafan um að vera glæsilega kraftmikil en á sama tíma blíð, náttúruleg og góð getur verið yfirþyrmandi.

Sumar konur gefa skít í þessar kröfur og fara sínar eigin leiðir, brjóta glerþök og grisja áður óyfirstíganlegan og alltof háan arfa karlmennskunnar. Flestar eru líklega einhvers staðar í miðjunni, falla inn í normið en neita að gangast við því að fullu. Fyrir sumar er kvenleikinn tengdur líkamlegum atburðum og hormónastarfsemi, þær verða konur þegar þeim blæðir í fyrsta sinn, kynnast tíðahring sínum eða eignast barn. Aðrar uppgötva kvenleika sinn í gegnum félagslegar aðstæður og innri skynjun. Engin ein leið er í átt að kynvitund. 

Sjálfstæð og fjölhæf

Rosanne Kats frá Ísrael sólar sig í miðbæ Reykjavíkur en hún er á ferðalagi um landið. „Að vera kona fyrir mér merkir að vera sjálfstæð og fjölhæf. Það er getan til þess að vera móðir, maki, vinkona og á atvinnumarkaði. Að njóta lífsins samkvæm sjálfri þér ásamt því að upplifa heilan skala af styrkleikum og tilfinningum,“ segir Rosanne. Hún nýtur samverustunda með vinum, áhugamálum og að sinna vinnu sinni. Þannig öðlast hún kraft og orku til að takast á við lífið. Rosanne finnur ekki fyrir þrýstingi frá samfélaginu vegna þess „að í nútímasamfélagi get ég valið hver ég er og það er rétt, satt og lögmætt val“. 

Rosanne KatsLeggur mikið upp úr sjálfstæði.

Yrsa Þöll Gylfadóttir situr í sólinni á Austurvelli og skrifar í bók. Hún segist ekki lifa mikið öðruvísi lífi en maðurinn hennar. Þegar hún heyrir orðið kona hugsar hún um að það sé helmingur mannkyns þó að orðinu fylgi „alls konar merkingarauki sem er klisjukenndur“. Samfélagsþrýstingur birtist í útlitskröfum að hennar mati „þó maður reyni að streitast á móti mörgum þeirra, að þá eru þær auðvitað til staðar. Ég finn meira og meira fyrir því núna þegar ég sé að elsta barnið mitt er að sigla inn í unglingsárin. Það er alveg ótrúlega merkilegt hvað maður tekur eftir því hjá þeim hvað síast inn. Alls konar kröfur um að vera falleg og að taka þátt í að skreyta sig.“ Aðspurð segist hún ekki velta sér mikið upp úr hormónastarfsemi líkamans. „Ég hef annaðhvort verið í afneitun gagnvart þeim eða verið treg að pikka upp einhver merki.“ 

Yrsa Þöll GylfadóttirSegir kröfurnar um að vera falleg byrja snemma.

Leitar svara við kyni sínu

Þegar Hilke Lina Ilse Jakob er beðin um að nefna þær tilfinningar sem hún tengir við orðið kona segir hún: „Þá er ég bara ég. Get ekki sagt neitt annað.“ Hilke Lina kannast ekki við samfélagsþrýsting vegna þess að hún er kona. „Nei, ekki neitt. Ég er að vinna sem leiðsögumaður og þetta gengur bara allt sinn lifandi gang.“ Fyrir hana skipta hormón ekki máli. „Ég bara kíki ekki á þetta. Ég borða það sem mér finnst gott og labba. Það er aðalmálið.“ 

Hilke Line Iilse JakobSegist ekki upplifa samfélagsþrýsting.

„Ég er enn þá svolítið að fikra mig áfram um kynmeðvitund hjá mér. Þannig að ég sé mig meira bara sem einstakling,“ segir Margrét Ósk Arnardóttir og bætir við að hún sé „ekki alveg komin með svar við því“ hvernig við finnum út úr því hver við erum. Margrét segir þrýsting vera til staðar frá samfélaginu um að svara spurningunni og skilgreina sig samkvæmt kyni. „Já, það er mikil pressa að falla inn og vera á ákveðinn hátt. Ef maður er ekki á ákveðinn hátt er maður óöruggur með sig. Það getur verið mjög óþægilegt.“ Sjálf hefur Margrét upplifað það að vera óörugg í eigin skinni og tengir orðið kona við að þurfa að „vera á einhvern ákveðinn hátt og að maður sé ekki nóg til þess að ná því“.

Margrét Ósk ArnarsdóttirEr enn að finna út úr því hver hún er.

„Það er partur af mér sem ég væri sátt við ef það væri ekki ætlunin að vera kvenleg. Ef maður er kvenlegur þá þarf maður að vera á ákveðinn hátt og ef maður er það ekki þá er maður óöruggari með þá parta heldur en ef þú værir bara einstaklingur sem er alls konar.“ Margréti finnst hún hafa meiri tilfinningar en fólk í kringum sig og lítur á það sem „gott en það getur verið svolítið einangrandi af því að fólk er ekki voða duglegt að sýna sínar eigin tilfinningar. Þá er maður svolítið einn í því.“

Að finna kynvitund sína er blanda af innri og ytri þáttum segir Margrét og nefnir að það sé þrýstingur á að vera ákveðin týpa af konu. „Ég er alveg sátt við líkamann minn og mér finnst hann fínn eins og hann er, hvað hann gerir og hvernig honum líður. En þegar ég set það í kassann í að vera kvenleg að þá kemur óöryggi. En ef hann má bara vera eins og hann er þá er hann góður.“ 

Mismunandi konur

„Ég held að við séum allar mjög mismunandi konur,“ segir Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78. „Það sem er talað um að sé hinseginleiki er allt sem er utan við þessar stöðluðu félagslegu hugmyndir um  kynvitund, kyneinkenni, kynhneigð og kyntjáningu. Í fyrsta lagi er það kynvitundin, sem er hvernig við upplifum kyn inni í okkur. Í öðru lagi  kyneinkenni sem er þetta líffræðilega kyn, hvernig líkaminn og líffræðin virka. Í þriðja lagi er það kynhneigð, hverjum maður laðast að og í fjórða lagi er það kyntjáning, hvernig við tjáum kyn út á við.“ 

Tótla I. SæmundsdóttirSegir orðræðu á samfélagsmiðlum áhyggjuefni fyrir hinsegin fólk.

Tótla segir mikilvægt að fólk beri virðingu fyrir hvort öðru og sýni skilning, en á undanförnum árum hefur verið afturför er varðar viðhorf ungmenna til hinsegin fólks. Þar spilar margt inn í, til dæmis fordómafullt efni á samfélagsmiðlum og takmörkuð lagaleg réttindi hinsegin fólks hjá öðrum Vesturlandaþjóðum. Þetta stuðlar að upplýsingaóreiðu sem Samtökin '78 eyða miklu púðri í að sporna gegn. „Við erum að sjá mótstöðu og fordóma gagnvart transfólki aukast mjög hratt. Ég held að það sé af því að við erum að sjá fyrstu kynslóðina alast upp opið og frjálst. Þetta er eitthvert viðbragð við því. Með auknum sýnileika og réttindum kemur aukin mótstaða.“ 

Unnið hefur verið að fræðslu hjá þjónustustofnunum í samvinnu við Samtökin '78 til að koma í veg fyrir að hinsegin skjólstæðingar lendi í óheppilegum aðstæðum sökum vanþekkingar. Áskoranir líkt og að mökum hinsegin fólks sé vísað í burtu vegna þess að gert er ráð fyrir að um sé að ræða vinkonur eða systur. Þetta er ekki endilega sprottið upp af illgirni eða vondum tilfinningum heldur þekkingarleysi og ekki gert ráð fyrir hinsegin fólki í kerfinu. 

Hjá Samtökunum '78 er hægt að sækja gjaldfrjálsa ráðgjöf og leggur Tótla áherslu á að allir geti leitað sér aðstoðar og að næg þekking sé til staðar á málaflokknum. „Það sem er flókið við þetta er að það treysta ekki allir kerfinu og þarna þarf að vera rými þar sem fólk veit að það er þekking til staðar á þeirra málaflokki og þeim verður tekið opnum örmum.“ 

Kvenleiki í aðalhlutverki

Á síðustu árum hefur jafnrétti kynja og valdefling kvenna verið nokkuð áberandi, til að mynda með #metoo, #freethenipple og fjölbreytileikaumræðu. Sunna María Schram, ljósmóðir á fæðingarheimilinu Björkinni, segist finna fyrir áhrifum þessarar umræðu á óléttar konur. Í Björkinni býðst þeim konum sem ganga eðlilega lengd meðgöngu með eitt barn að upplifa valdeflandi fæðingu. 

 „Konur eru að eignast fæðingarnar sínar aftur. Það hefur svolítið verið lenskan síðustu ár að læknisfræðilega módelið hefur verið að taka fæðingar út úr höndum kvenna og segja þeim að þær séu ekki nógu vel hannaðar til að ganga með börn. En þetta er að snúast við. Konur eru orðnar meðvitaðri um að þetta er engin tilviljun hvernig meðgangan og fæðingin eru, að þær hljóti bara að vera hluti af okkar eðlilega ferli.“ 

Sunna María SchramFinnur fyrir valdeflingu óléttra kvenna í kjölfar samfélagsumræðu síðustu ára.

Að sögn Sunnu Maríu snýst valdeflandi fæðing um val, að sá aðili sem gangi með barnið sæki sér vald í gegnum valið um það hvernig fæðingin fari fram. „Þær sjá fyrir sér að þetta sé eðlilegt ferli,“ segir Sunna María um þær konur sem velja að fæða hjá Björkinni. Hún telur flestar konur þar tilheyra einum af tveimur hópum. Annar hópurinn samanstendur af vel upplýstum konum sem hafa kynnt sér starfsemi kvenlíkamans og ferli fæðingar vel. „Þess vegna velja þær að koma hingað, til að hafa meira um það að segja hvernig fæðingin þeirra er. Svo er það hinn hópurinn, konur sem eru fjölbyrjur, hafa fætt áður og eru með erfiða fæðingarreynslu innan kerfisins. Þær eru þar af leiðandi að velja að stíga út fyrir kerfið til þess að upplifa meiri stjórn og aukið vald.“ 

Valdið sem Sunna María á við kemur fyrst og fremst frá konunni sjálfri og fyrir margar er það feminísk afstaða að treysta eigin líkama í ferlinu, sé það möguleiki. Í grunninn gengur hugmyndafræði Bjarkarinnar út á að sú ákvörðun sem kona tekur fyrir sig, er næsta góða ákvörðun í hennar ferli. Ef hún vill færa sig yfir á spítala er það góð ákvörðun. „Það er aldrei þannig að konan hafi hent inn handklæðinu og henni mistekist, heldur er þetta næsta góða ákvörðun í hennar ferli. Það er aldrei ávinningur fyrir okkur að berjast fyrir hugsjón ef hún er farin að stangast á við það sem konan hefur val um eða þörf fyrir,“ segir Sunna María. 

Baðkar BjarkarinnarHugmyndafræðin gengur út á að hver og ein velji hvað er best fyrir sig.

Áður starfaði Sunna María sem listakona og stundaði meistaranám í myndlist en þegar að hún fæddi sín eigin börn breyttist eitthvað innra með henni. Fæðingarferlið og hlutverk ljósmæðra í því heillaði listakonuna sem skráði sig í kjölfarið í hjúkrunarfræði og svo ljósmóðurfræði. Þann dag sem Heimildin hitti Sunnu Maríu var hún á bakvakt ef fæðing skyldi fara af stað og lýsti ljósmóðurhlutverkinu sem einstöku. „Það er algjörlega magnað og það eru forréttindi að fá að sjá hráleikann í fólki. Það er ekki rými fyrir fordóma eða skoðanir. Það er einstakt að komast svona nálægt fólki og að fá að vera stuðningur. Í hvert skipti sem maður fer í gegnum fæðingu kemur kippur í hjartað.“ 

„Það er aldrei ávinningur fyrir okkur að berjast fyrir hugsjón ef hún er farin að stangast á við það sem konan hefur val um eða þörf fyrir“
Sunna María Schram

Einfalda málið

Áhersla er lögð á að kynnast konunni í ferlinu með samfelldri þjónustu hjá Björkinni. Aðspurð segir Sunna María að oft opnist nýr heimur fyrir ungum mæðrum á fyrstu meðgöngu þegar þær átta sig á hvað er í vændum en algengt er að þær sem leiti í Björkina hafi áhuga á málefnum kvenna. „Við erum oft að hitta konur í kringum viku 20. Þá eru þær búnar að vera í fimm mánuði að meðtaka það sem er að gerast og breytinguna í vændum,“ segir Sunna María. 

Nú erum við að flestu leyti í lífinu að horfa aftur til einfaldleikans. Hvað eru náttúran og líkaminn að segja okkur?“ Sunna María segir aukningu í rannsóknum á náttúrulegum fæðingum sem veita upplýsingar um hvað það er gagnlegt fyrir líkamann að fá öryggi og rými í fæðingu styðja við hugmyndafræði Bjarkarinnar. „Fæðingarhormónin eru rosalega flókin og það getur verið truflandi að fara inn á stofnun.“ 

„Fæðingarhormónin eru rosalega flókin og það getur verið truflandi að fara inn á stofnun“

„Því meira sem við sleppum tökunum af þessu ferli, sitjum á höndunum okkar og leyfum því að flæða, því betur gengur það ef allt er eðlilegt. Við erum að reyna að skapa heimilislegar aðstæður fyrir konur,“ segir Sunna María en fæðst hafa 422 börn á fæðingarheimilinu frá því að það var opnað í maí 2017, þar að auki hafa ljósmæðurnar sem þar vinna tekið á móti 298 börnum í heimafæðingum. 

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu