Túnfífillinn er mættur aftur, nú er hans tími til að blómstra. Ef að túnfífillinn væri persóna í bíómynd væri nú að koma í ljós að það sem þú taldir í fyrri hluta myndarinnar að væri illmennið er í raun hetjan í sögunni.
Á Chelsea-blómasýningu ársins í Bretlandi er túnfífillinn ásamt öðrum áður skilgreindu illgresi nú skilgreindur sem hetja. Þriðjungur skrautgarða sýningarinnar munu nú innihalda illgresi.
Hvað gerir túnfífilinn að hetju?
Túnfífillinn með sínar djúpu stólparætur dregur upp á yfirborðið mikilvæg næringarefni eins og kalk. Sem svo losnar ofan í efsta hluta jarðvegsins þegar plantan brotnar niður.
„Hvað getur þú gert fyrir hetjurnar í garðinum?“
Að ógleymdu hlutverki sínu við að fæða humlur og aðrar flugur snemma sumars. Humlurnar treysta mjög á hve fljótt fífiltegundir blómstra. Fífillinn losar einnig um jarðveginn.
Hvað getur þú gert fyrir hetjurnar í garðinum?
Draga úr grasslætti
Eins mikið og þú ræður við. Augu þín munu ekki springa þó grasinu og blómunum sé aðeins leyft að vaxa meira. Það er óþarfi að stunda garðyrkju eins og franskt kóngafólk á endurreisnartímum. Erlendis er víða verið að hvetja til þess að ekkert sé slegið í maí. Hérlendis þyrfti að færa marklínuna aftar. Meira yfir í miðjan júní eða byrjun júlí.
Skilgreina svæði sem eru villtari
Í vistrækt (e. permaculture) eru svæði skilgreind eftir hve mikið þau eru notuð. Svæði sem eru þá fjær húsi eru villtari og náttúrulegri. Garðinum er lagskipt frá 1 upp í 5. Svæði 1 gæti þá t.d. verið pallurinn. Svæði 2 grasflöt fyrir börnin. Svæði 3 grænmetisgarðurinn. Svæði 4 og 5 villtari beð og grassvæði út í enda. Þannig getum við tekið bæði tillit til mannlegra þarfa og þarfa vistkerfisins.
Passa að ramminn utan um villta svæðið sjáist
Ein leið til þess að fá villtari svæði í garði til að líta betur út er að hafa rammann utan um svæðið í ákveðnu formi. Með því að slá í kring og móta greinileg form á villtu svæði eða ef það eru beð að passa að þau hafi augljósan ramma.
Hugarfar í garðyrkju er að breytast
Hugarfarsbreyting hefur verið að eiga sér stað í garðyrkju og landnotkun víða um heim síðustu ár. Margt sem áður þótti ósnyrtilegt eða bera merki um leti er nú orðið viðurkennt að er mun betra fyrir umhverfið og vistkerfið. Í náttúrunni er engu sóað og lífræn efni eru hluti af hringrás. Það ætti því að vera partur af sjálfbærnistefnu fyrirtækja og stofnana að draga úr grasslætti og huga betur að vistkerfinu í nærumhverfinu.
Höfundur er áhugamaður um ræktun og hefur lokið BS-námi í landslagsarkitektúr.
Athugasemdir (1)