Þessa dagana stendur yfir árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York. Í opnunarávarpi Guterres aðalframkvæmdastjóra samtakanna kom fram að ef svo heldur fram sem horfir muni taka 300 ár að koma á jafnrétti kynjanna í heiminum. Við erum að horfa upp á bakslag.
Í allt of mörgum ríkjum heims ráða einræðis- og afturhaldsstjórnir ríkjum. Hræðileg stríðsátök geisa víða og þau bitna ekki síst á konum og börnum. Konur eru sviptar réttindum og þær sem mótmæla eru fangelsaðar og drepnar, m.a. í Íran þar sem svokölluð siðgæðislögregla veður um með offorsi. Það er sannarlega ástæða til að rísa upp og sameinast gegn íhaldsöflunum til að standa vörð um áunnin mannréttindi og sækja fram.
Við sem búum á Íslandi erum forréttindafólk í þeim skilningi að hér ríkir friður, mannréttindi eru almennt virt og sem betur fer eiga flestir í sig og á, þó alls ekki allir. Við teljumst vera fremst þjóða hvað varðar kynjajafnrétti sem ræðst af því að hér hafa konur jafnan rétt og karlar til menntunar, atvinnuþátttaka þeirra er með því mesta sem þekkist, aðgengi kynja að heilbrigðisþjónustu verður að teljast jafnt og pólitísk völd kvenna hafa aukist jafnt og þétt undanfarin 40 ár. Jafnframt hafa mannréttindi þeirra sem áður voru jaðarsettir aukist, til dæmis hinseginfólks en betur má ef duga skal. Gleymum því samt ekki að við sem þjóð erum umhverfissóðar og eyðsluseggir meðan Móðir Jörð hrópar á vægð.
„Feðraveldið sem var óviðbúið sætti stanslausri gagnrýni og aðhaldi“
Þann árangur sem hér hefur náðst má fyrst og fremst þakka baráttu kvenna áratugum saman. Ástandið var sannarlega allt annað fyrir 40 árum þegar hópur kvenna ákvað að grípa til sinna ráða til að ýta við kyrrstöðu og tregðu feðraveldisins sem sannarlega hélt konum niðri á nánast öllum sviðum. Ráðist var til inngöngu í nokkrar af valdastofnunum samfélagsins, fyrst sveitastjórnir, síðan sjálft Alþingi við Austurvöll, þá háborg hins karllæga valds. Spyrja má hvar valdið er mest nú um stundir.
Árangurinn varð eftirtektarverður. Konum stórfjölgaði strax árið 1982 í sveitastjórnum og árið eftir á Alþingi þar sem fjöldi kvenna fór úr þremur í níu! Það sem skipti þó mestu var að horft var á samfélagið með femíniskum gleraugum og málefni kvenna sett á dagskrá. Feðraveldið sem var óviðbúið sætti stanslausri gagnrýni og aðhaldi. Smátt og smátt var lögum breytt, fæðingarorlof lengt, hegningarlögin tóku mið af ofbeldi gegn konum, hvers konar sambúð (og síðar hjónaband) var viðurkennt og gripið til aðgerða til að minnka rótgróið launamisréttið. Inn í stjórnarskrána kom ákvæði um að konur og karla skyldu njóta jafns réttar í hvívetna. Það ákvæði á Kvennalistinn skuldlaust.
Þannig mætti áfram telja en ekki er allt sem sýnist. Hér er engin paradís eins og sumir virðast halda. Launamisrétti er enn til staðar. Hópur kvenna býr við sára fátækt og störf kvenna sem vinna í velferðarþjónustu og við menntun barna eru stórlega vanmetin. Að mínu mati er það eitt allra brýnasta verkefni okkar nú að endurmeta störf umönnunarstéttanna. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn. Ofbeldi gegn konum er ógnvænlegt og fer alls ekki minnkandi að því er séð verður. Þvert á móti tekur það á sig nýjar myndir stafræns ofbeldis þar sem konur sæta hótunum, niðrandi tali og óleyfilegum myndbirtingum. Orðræðan um konur (og ýmsa hópa fólks) getur verið andstyggileg og þarf ekki annað en að minna á Klausturdónana sem urðu sér til ævarandi skammar árið 2018. Enn hallar á konur í menningu og listum þótt þær hafi verulega sótt í sig veðrið. Mikið hefur verið rætt um þriðju vaktina, allt það sem konur sinna í kringum fjölskyldu og ættingja og lítt er tekið eftir, að ekki sé minnst á önnur ólaunuð störf kvenna og þjónustu þeirra við börn og karla inni á heimilunum. Álag á mörgum konum er mikið og ástæða til að beina sjónum að heilsu kvenna, ungra sem aldinna, jafnvel unglinga. Eldri konum er refsað fyrir að hafa tekið hlé á vinnumarkaði til að eignast börn en það kemur niður á lífeyrisgreiðslum til þeirra. Ef horft er út fyrir landsteinana blasa við okkur áðurnefnd átök og ógnir í samfélögum og náttúrunni, sem allt eru mannanna verk.
Það er af nógu að taka og því ákváðum við Kvennalistakonur að bjóða til opins kvennaþings laugardaginn 18. mars kl. 13.00 á Hótel Hilton Nordica (þar var Kvennalistinn stofnaður) í tilefni af 40 ára afmæli samtakanna. Okkur langar að ræða hvar við stöndum nú, hvað brennur á konum og hvernig við getum staðið saman við að breyta heiminum og bæta. Enn gildir hið fornkveðna: samstaðan er sterkasta tækið í baráttunni. Áfram stelpur.
Athugasemdir