Við lifum á þannig tímum að skoðanaskipti eru heft með gaspri á samfélagsmiðlum og á öðrum vettvangi. Það er vel hugsanlegt að í hugum sumra sé ég einn af þessum gösprurum. Mér finnst samt einfaldlega að gagnrýni og skoðanaskipti þurfi að vera til staðar.
Þöggun á gagnrýnisröddum er einfaldlega ekki boðleg í lýðræðisþjóðfélagi. Vel má vera að gagnrýnin þyki óréttmæt og að ekki þurfi að breyta og bæta það sem hefur „alltaf“ verið gert með tilteknu lagi. Þannig er þó bara mál með vexti að ekkert hefur verið óbreytt til langframa. Lýðræðið sem við búum við hefur þróast. Það spratt ekki fram fullmótað og tilbúið til notkunar. Berjast varð fyrir réttindum sem eru nú talin sjálfsögð og enn þarf að berjast fyrir réttindum og verja það sem okkur þykir sjálfsagt og nauðsynlegt.
Hér má skjóta því inn að við Íslendingar búum enn við stjórnarskrá sem konungurinn af Danmörku færði okkur árið 1874. Sú byggir á belgískri stjórnarskrá frá öndverðri 19. öld.
Nægilega miklu var breytt til að mögulegt væri að stofna hér lýðveldi sumarið 1944. Þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á lýðveldisstjórnarskránni síðan þá, er þetta auðvitað ansi skakkt, ekki síst vegna þess að mikil vinna liggur að baki tillögum um nýja stjórnarskrá sem að mínu mati þarf að afgreiða sem fyrst. Þetta er allt liður í því að við þurfum að skoða og endurskoða þá útgáfu af lýðræði sem við búum við, það þarf að gera með reglulegu millibili. Sannarlega er kominn tími til þess einmitt núna.
Breytinga er þörf
Að okkur steðja ógnir sem illa hentar ráðandi öflum að horfast í augu við vegna þess að því sem þarf að breyta, hefur veruleg áhrif á hagi þeirra og okkar allra. Ekki þarf að fara í grafgötur um að breytinga er þörf og þeir sem eiga megnið af auðæfum jarðarinnar verða að gera sér grein fyrir því að skipting eignanna þarf að verða önnur. Auðsöfnunin er fordæmalaus og mun ekki geta haldið áfram vegna þess að upp úr mun sjóða. Þau sem búa við örbirgð munu að lokum rísa upp og krefjast þess sem þeim réttlátlega ber sem ábúenda þessa hnattar.
Ekki er sjálfgefið að þeir sem eiga auðæfin muni áfram halda þeim. Hættan sem fylgir því að láta reka á reiðanum er sú að þegar upp úr sýður fyrir alvöru leiði það af sér upplausn, kaos sem þrýstir okkur enn lengra frá því að geta skapað viðunandi lífsskilyrði hér fyrir alla til frambúðar.
Kenningar kommúnismans fjölluðu mikið um þetta en þeim kenningum var heldur betur snúið á haus í meðförum Leníns, Stalíns og fleiri sem komu að því að stofna Sovétríkin sem alla tíð sögðust berjast fyrir lítilmagnana. Það varð heldur ekki raunin í Kína undir handleiðslu Maós. Milljónir fórust í hungursneyðum, styrjöldum og pólitískum hreinsunum sem áttu sér vissulega stað bæði í Kína og Sovétríkjunum. Aðgerðirnar sem urðu þess valdandi að milljónir létu lífið voru oftast nær reknar af kommúnistaflokkunum og að sögn þeirra til að tryggja hag fjöldans.
Hergagnaframleiðsla er hvati til ófriðar
Mig langar að ræða um efnahag hergagnaframleiðslu en ef ég þekki sjálfan mig rétt mun ég fara um víðan völl í hugmyndum og vangaveltum. Að mörgu leyti er fróðlegt að hugsa þá hugsun til enda að hergagnaiðnaður sé stór þáttur í efnahagsafkomu margra ríkja. Að því sögðu velti ég fyrir mér þeim möguleika hvort hergagnaframleiðslan sjálf hvetji til ófriðar. Auðvitað er staðhæft að hergögn séu framleidd til að verja gildi, landsvæði og auðlindir. Því skal þó haldið til haga að vesturlönd sitja ekki alltaf spök hjá þegar kemur að styrjöldum. Hér eru nokkrar tölulegar staðreyndir sem komu mér á óvart - en samt ekki.
Bandaríkin eru mestu eyðsluklærnar þegar kemur að vígvæðingu en þar á bæ eyddu menn næstum 801 milljarði dala árið 2021 í hergögn.
Til samanburðar má geta þess að Elon Musk tapaði nýverið 200 milljörðum Bandaríkjadala sem er ekki nema einn fjórði af þeim 801 milljörðum sem bandaríska ríkið eyddi í hergögn og annað sem viðkemur hernaði árið 2021. Hann á að vísu langt í land að verða öreigi en tapar enn.
Kína sem kemur næst er ekki einu sinni hálfdrættingur á við Bandaríkin en tekst að eyða 293 milljörðum það árið. Eftir því sem neðar er farið listanum frá Statista kemur Indland næst, Bretland svo, Rússland, Frakkland fylgir á eftir. Þýskaland og Sádí Arabía koma næst og þar á eftir Japan, Suður Kórea, Ítalía, Ástralía, Kanada, Íran og Ísrael. Þetta eru allt herská ríki, misherská þó, sem hafa tekið þátt í styrjöldum síðustu aldar og eru enn að.
Þýskaland var í aðalhlutverki í báðum heimsstyrjöldunum á síðustu öld. Eftir ósigur í þeirri fyrri, 1918, voru þeir neyddir til að skrifa undir niðurlægjandi og verulega fjárhagslega íþyngjandi friðarsamning. Sú niðurlæging er einn þeirra þátta sem leiddi af sér síðari heimsstyrjöld þar sem Þjóðverjar ásamt bandalagsríkjum sínum fóru með ófriði gegn heimbyggðinni allri.
Þegar Hitler, foringi Þjóðverja fyrirfór sér loks undir lok apríl 1945, gáfust Þjóðverjar upp fyrir bandamönnum skilyrðislaust. Þýskalandi var skipt í tvennt fjórum árum eftir stríðslok og austur hluta landsins var stjórnað af leppum Sovétríkjanna. Gömlu höfuðborginni Berlín var stjórnað af Sovétmönnum annars vegar og Frökkum, Bretum og Bandaríkjamönnum hins vegar. Múrinn sem skipti borginni, órjúfanleg táknmynd Kalda stríðsins, var reistur árið 1961 og stóð óhagganlegur í 28 ár.
Vesturhlutinn, Sambandslýðveldið Þýskaland var á áhrifasvæði vesturveldanna og farnaðist efnahagslega mun betur.
Þau fjörutíu og fimm ár sem aðskilnaðurinn varði blómstraði Vestur-Þýskaland og varð að efnahagslegu stórveldi. Alþýðulýðveldið eða Austur-Þýskaland náði sér aldrei fullkomlega eftir að stríðinu lauk. Eftir að í ríkin voru sameinuð að nýju var allt gert svo tryggja mætti að að austurhluti landsins yrði ekki til langframa eftirbátar vestursins.
Þrátt fyrir hræðilegar afleiðingar hernaðar Þjóðverja er nú svo komið að þeir eru lykilríki í NATÓ og í Evrópusambandinu. Nú er kallað eftir því að þýsk stjórnvöld láti Úkraínumönnum öfluga orrustuskriðdreka í té til að auðvelda þeim baráttuna gegn innrásarher Pútíns. Þjóðverjar segjast ekki munu afhenda þau tæki nema Bandaríkjamenn geri slíkt hið sama. Þeir hafa einnig sett þau skilyrði inn í kaupsamninga um vopn að kaupandinn megi ekki ráðstafa þeim til þriðja aðila án samþykkis Þjóðverja.
Tap vegna friðar
Aftur að eyðslu vegna hermála. Enginn hergagnaframleiðandi græðir nokkuð á friðartímum. Ef ekki þykir þörf á að endurnýja vopnabúrin kemst áframhaldandi framleiðsla í uppnám. Hagnaðarsjónarmið ráða för hjá þeim fyrirtækjum sem framleiða hergögn, rétt eins og öðrum fyrirtækjum. Þeirra hagur hlýtur að vera að sprengjur séu sprengdar. Að hergögn séu notuð í átökum þar sem einhver þeirra eyðileggjast. Þegar það gerist er von á pöntunum til að endurnýja það sem ónýtt varð.
Þetta eru auðvitað vélar og tæki en umrædd tæki aka sér ekki sjálf eða er fjarstýrt nema að litlu leyti. Þegar skriðdreki er sprengdur í loft upp eru allar líkur á því að áhöfn hans slasist eða farist jafnvel. Það er nefnilega svo að hernaðartækin fara ekki fet nema hermenn séu til staðar. Það á auðvitað ekki við um flygildi, dróna, eða önnur fjarstýrð tól. Stjórnendur þeirra sitja í öruggu skjóli stjórnherbergja sem eru hvergi nálæg átakasvæðinu sjálfu. Drónar eru draumur þeirra sem framleiða hergögn. Þeim fylgir almennt lítið mannfall í árásarliðinu en oft mikill skaði fyrir skotmarkið. Rússar hafa notað þessa tækni nokkuð í stríðinu í Úkraínu. Úkraínumönnum hefur tekist með hjálp loftvarnarkerfa að granda töluvert mörgum þessara fjarstýrðu flygilda. Það er vel en þó getur það kostað sitt í mannfalli og tjóni þegar brakið fellur til jarðar. Ekkert er fullkomið hér en það er þó skárra en ef flygildinu tækist ætlunarverk sitt sem gerist oft.
Já, við lifum á tímum þar sem stríð er háð í Evrópu. Það er fáheyrt síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk. Borgarastyrjaldir geisuðu á Balkanskaga eftir fall Júgóslavíu á tíunda áratug síðustu aldar. Bandaríkjamenn og NATÓ tóku þátt í hernaðarátökum og enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þeim hildarleik.
Á seinasta ári urðum við hinsvegar vitni að því að Rússland réðist inn í Úkraínu með það að markmiði að sölsa landið undir sig. Í fyrstu, og lengi framan af, kölluðu rússneskir ráðamenn innrásina sérstaka hernaðaraðgerð, ætlaða til bjarga íbúum austurhéraðanna sem ekkert vildu annað en að sameinast Rússlandi aftur. Það hefur fjarað undan þessum áróðri og jafnvel Pútín, núverandi Sarinn af Rúss, hefur kallað þessar aðgerðir stríð þar sem sigur einn kemur til greina.
Ég er hvorki sérfróður um sögu þessa svæðis né þeirra sem það byggja. Hinsvegar er það augljóst að þeir sem nú eru við völd í Rússlandi eru ekki einvörðungu að há þetta stríð til að koma þeim sem þeir telja friðelskandi fyrrum þegna Sovétríkjanna í öruggt skjól undir verndarvæng þeirra sem öllu vilja ráða í Kreml. Úkraínumenn sjálfir eru heldur ekki algerlega saklausir. Þannig háttar nefnilega með átök og stríð að aðdragandinn er oft töluverður og það sem gerist áður en hernaður brýst út vill oft gleymast. Hinsvegar er næsta víst að herforingjar sem eru orðnir leiðir á lognmollu friðarins vilja hafa eitthvað fyrir stafni, senda lið á vígvöllinn og deila heiðursorðum sín á milli fyrir vel unnin störf. Það gerist ekki af sjálfu sér og besta leiðin til að fá medalíu er að ráðast inn í annað land og fórna ungu fólki sem viljugt eða óviljugt lætur líf sitt og limi til að „verja föðurlandið“, sigra í orrustum svo fólkið heima geti um frjálst höfuð strokið – og svo framvegis.
Áróðurinn er alltaf keimlíkur
Nasistar undir handleiðslu Hitlers og hans manna voru fremstir á meðal jafningja í áróðri sem ætlaður var til þess að sannfæra fólk til að gera allt fyrir föðurlandið og flokkinn. Bandarísk stjórnvöld eru orðin ansi glúrin í þessu líka Um tíma ráku Bandaríkjamenn þá stefnu að skipta sér ekki af stríðsrekstri út um allan heim. Bandaríkin komu seint til leiks í fyrri heimsstyrjöld, það ekki fyrr en 1917 sem þeir tóku fullan þátt en átökum lauk 1918.
Þegar seinni heimsstyrjöldin hófst í Evrópu var mikil andstaða við beina þátttöku í átökum innan Bandaríkjanna en eftir að Japanir réðust á bandarísku flotastöðina í Pearl Harbour varð ekkert til að stöðva það. Árið 1941 urðu Bandaríkin þátttakendur í styrjöldinni. Skömmu eftir að friður komst á 1945 hófst Kalda stríðið á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Fræðimenn hafa tekist á um ástæður þess undarlega stríðs áratugum saman.
Hugmyndafræði þessara valdablokka, sem voru bandamenn lengst af í síðari heimsstyrjöld, var mjög ólík. Annars vegar voru Sovétríkin sem þóttust byggja stjórnskipulag sitt á kenningum Marx og Engels, en voru í raun alræðisríki, hikuðu ekki við að murka lífið úr eigin þegnum og kúga nágranna sína til fylgilags.
Hinn póllinn var stefna Bandaríkjanna og frjálshyggjunnar sem okkur á Vesturlöndum hugnaðist flestum betur. Þetta kom af stað kalda stríðinu sem hverfðist um átök milli hugmyndafræði kapítalisma Bandaríkjanna og þess sem Sovétríkin kölluðu kommúnisma. Bandaríkjamenn vildu auðvitað engin átök heima fyrir en tóku þess vegna að taka þátt í átökum annars staðar til að reyna að brjóta á bak aftur ógn alheims kommúnismans. Tilgangurinn var að forða þjóðum heims frá að verða þeirri stefnu að bráð.
Stríðið í Kóreu, 1950 til 1953 var fyrsta stríðið með beinni aðkomu Bandaríkjanna að lokinni síðari heimsstyrjöld. Aðeins er vopnahlé á Kóreuskaga og stríðinu því ekki formlega lokið. Mikil spenna ríkir milli Norður- og Suður-Kóreu, sem hefur áhrif um allt heimssvæðið. Við vitum öll að kerfið sem ríkir í Norður Kóreu á ekkert skylt við kommúnisma heldur er hræðilegt alræði sem eirir engum mótbárum.
Bandaríkjamenn og Sovétríkin skiptu sér af borgarastyrjöldum víða, til dæmis í Laos og Kambódíu. Stórveldin, að Kína meðtöldu og fleiri voldugum ríkjum beggja vegna, áttust áfram óbeint við í Víetnamstríðinu, sem einnig snerti Laos og Kambódíu, og varð mjög kostnaðarsamt fyrir Bandaríkin, hvort sem talið er í mannslífum eða fjármagni. Eftir áralanga baráttu var flúið af hólmi árið 1975. Þá hafði bandarískt herlið verið í landinu með hléum frá 1955.
Það hlýtur að hafa verið magnað að horfa upp á brotthvarf Bandaríkjahers úr þessum átökum sem höfðu þá staðið í hartnær 25 ár með hléum, og jafnvel mun lengur ef allur hernaður á svæðinu er með talinn.
Ég get vel ímyndað mér að forstjórar stórfyrirtækja í hergagnaframleiðslu hafi staðið á efstu hæð skýjakljúfs í einhverri stórborginni í Bandaríkjunum reykjandi Camel filterslausan, Marlborough eða Winston og hugsað þessum andskotans hippum, vinstrisinnum og þessum bölvuðu friðarsinnum þegjandi þörfina. Þeim sem ekkert vita um „bottom line“, eða „EBITDA” og það að ekkert er meira áríðandi í viðskiptum en að græða fullt af peningum. Þó að blómabörnin sem mótmæltu styrjöldum á sjöunda áratug síðustu aldar væru á margan hátt frábært fólk þá urðu þau seinna bráð hinna gríðarlega voldugu markaðsafla og ofur kapítalisma sem nú ríkir.
Það er nokkuð víst að Elon Musk er að velta ýmsu fyrir sér núna og spáir í hvað klikkaði. Hann virðist þó almennt ekkert mjög áhyggjufullur En það er önnur saga og hugsanlega broslegri. Þess virði að henda í tvít eða tvö. Hver veit?
Ég er viss um að þessir í skýjakljúfunum voru auðvitað að stórum hluta karlar sem vildu ekkert vera að reykja neitt „light“ drasl, bara alvöru sígarettur. Fílterar voru svo sem í lagi en ekkert „light“ rusl, hvað þá þetta hippa gras. Það mátti alls ekki snerta, opinberlega hið minnsta. Þeir hugsuðu líkast til með sér að þetta andófsfólk þyrfti að stöðva í eitt skipti fyrir öll en höfðu ekki erindi sem erfiði að sinni. Svo fóru þeir að velta fyrir sér öðrum mögulegum átakasvæðum í reykmettuðu herbergi á 79. hæð skýjakljúfsins. Af nógu var að taka.
Frosthörkur og þýða
Sovétríkin og Bandaríkin héldu áfram að berjast hvert við annað í gegnum þriðja eða jafnvel fjórða aðila. Afríka, Suður-Ameríka, Asía, Miðausturlönd og flest önnur svæði heimsins voru leiksvæði þeirra og vopnaframleiðandanna. Ekkert væri fengið með því að þessi ríki berðust opinskátt á vígvellinum. Kjarnorkuvopnaskak var þá, og er ekki enn, góð leið til að skapa jafnvægi í viðskiptum. Það er að segja ef þau yrðu notuð.
Hugsanlega er skýringin á því hvers vegna oft er talað um Bandaríkjamenn og þeirra stríðsrekstur sú að þeir eyða, eins og var bent á hér að framan, meira en nokkur í hergögn og birtast þar af leiðandi sem mjög herskátt ríki. Sovétríkin sendu herlið til ýmissa nágrannaríkja sem voru með uppsteyt og réðust inn í Afganistan 1979 og háðu þar blóðugt stríð í tíu ár, sem endaði með ósköpum fyrir þá. Talið er að þau átök hafi verið einn þeirra þátta sem urðu til þess að Sovétríkin liðu undir lok með öllum þeim afleiðingum sem það hafði.
Ekki má gleyma átökunum við Persaflóa, innrás hinna viljugu ríkja í Írak og hildarleiknum í Afganistan sem endaði með brotthvarfi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra og valdaráni Talibana í ágúst 2021. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, boðaði brotthvarf herliðsins þegar eftir kosningarnar 2016 og eitt fyrsta verk Joes Biden arftaka hans, var að kalla herliðið heim. Ákvörðunin var mjög gagnrýnd, þótti tilviljanakennd og brotthvarfið illa skipulagt.
Sagan endurtekur sig og segja má að tilraunir stórveldanna til að hemja uppreisnarsveitir í Afganistan hafi ekki farið vel undanfarna áratugi. En þessi átök hljóta að hafa kætt hergagnaframleiðendur mjög.
Snemma á tíunda áratugnum kynntu þeir til leiks allrahanda nýjungar eins og „precission bombing“. Það hugtak var mikið notað hugtak við fréttaflutning af stríðinu í Kúveit veturinn 1991. Þessi tækninýjung átti að beina sprengjum að skotmörkum með mikilli nákvæmni. Eins og oft vill verða var þetta auglýsingabrella og sjúkrahús, skólar og aðrir þeir staðir sem eiga að vera friðhelgir í átökum urðu fyrir sprengjunum sem þurftu að springa til að auka gróða hergagnaframleiðenda.
En stríð borga sig ... eða hvað?
Samt finnst mér óhugnanlegt að hugsa til þess að efnahagslega er mikill ávinningur í þeirri þjáningu, kvöl og dauða sem stríð valda. Hvað er það sem rekur manninn síendurtekið ofan í skotgrafirnar og það að lausn vandamála og deilna felist í því að ráðast inn í land og valda eins miklu tjóni og kostur er á? Þau sem búa á átakasvæðum eru fórnarlömb og græða mjög lítið á átökunum nema hungur og hræðilegan dauðdaga. Hermenn og þau sem eru í fremstu víglínu deyja af sárum sínum og allt er þetta gert í nafni föðurlandsins eða hverrar þeirrar hugmyndafræði sem er í notkun hverju sinni.
Vargöld ríkir um allan heim núna. Til að nefna fáein átakasvæði þá geisa borgarastyrjaldir í Súdan, Sýrlandi og Malí svo örfáar séu nefndar. Annars staðar er skæruhernaður stundaður og jafnvel þjóðarmorð (ethnic cleansing). Í nokkrum ríkjum Norður-, Mið-, og Suður- Ameríku eru háð átök við glæpagengi og eiturlyfjahringi sem oft eru mjög öflugir. Óöld ríkir annars staðar eins og sést á kortinu frá World Population Review.
Flóttamannastraumur liggur frá átakasvæðum og þaðan sem fátækt er landlæg. Áhrifa loftslagsbreytinga er verulega tekið að gæta og sums staðar eru breytingarnar svo miklar að fólki er ekki líft þar sem það bjó áður. Hamfarastormar, skógareldar og flóð setja heldur betur strik í reikninginn víða um veröld.
Þetta gerir það að verkum að mikill fjöldi er á faraldsfæti til að reyna að finna sér lífvænlegri staði til að búa á. Straumurinn liggur eðlilega til þeirra landa þar sem velmegunin er meiri. Flóttafólk sem og annað fólk leitar að betri tækifærum eins og við gerum öll.
Vísast má merkja af þessum skrifum að það sé staðföst trú mín að stríð sé aldrei réttlætanlegt. Það eru stór orð en ég held að fjárhagslegur ávinningur drífi oftast áfram þau öfl, þá valdamenn, sem etja fólki út í það að drepa hvert annað vegna þjóðernishyggju, alls konar málstaðar, trúar og hugmyndafræði sem á að vera æðri annarri.
Stríð hafa verið háð til að tryggja að olía og gas renni um réttar pípur, demantar rati í vasa þeirra sem dýpstu vasana eiga og nú síðast hverfist stríð um kornforðabúr Evrópu og aðrar auðlindir í Úkraínu en ekki velferð fólksins sem þar býr. Einhverjir kunna að segja að þetta sé bull og steypa en það verður þá bara svo að vera.
Niðurstaða mín er að stríð er alltaf tengt eltingaleik við efnahagsleg gæði og almenna græðgi. Það á að vera möguleiki á að semja um öll ágreiningsmál en oft er þeim sem ættu að reyna að semja tamara að beita ofbeldi til að ná vilja sínum fram.
Að þessu sögðu þá er einnig vert að minnast þess að risafyrirtæki eiga allt undir því að þau selji vopnin sem þau framleiða.
Reynt er að setja leikreglur til þess að vígvélar lendi nú ekki í höndunum á þeim sem eru ekki á réttum stað í pólitík en þær leikreglur eru þverbrotnar og stríðsherrar allra landa finna leiðir til að komast yfir vopn – þó að ekki sé til þess ætlast.
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.
Athugasemdir (3)