Í lífi hverrar manneskju gengur á með skini og skúrum. Stundum rignir af meiri ákafa en við erum tilbúin fyrir, eins og Ella Fitzgerald söng á sínum tíma – „into each life some rain must fall, but too much is falling in mine“. Þegar dimmir yfir er eðlilegt að finna til ótta, við vitum ekki hvers er að vænta, og á sama tíma fyllist hugurinn stundum eftirsjá – bjartari tímar ljóma í minningunni en virðast svo fjarri og fylla hugann söknuði. En hvernig tengjast þessar hræringar hugans, óttinn og eftirsjáin?
I – Geðshræringar
Rétt eins og ást og hatur, kvíði, reiði og væntumþykja, er ótti og eftirsjá það sem heimspekingar kalla „geðshræringar“. Á ensku er gjarnan talað um „emotions“ og gerður greinarmunur á þeim og „feelings“ tilfinningum. Geðshræringar og tilfinningar eru ekki það sama. Ólíkt einberum tilfinningum beinast geðshræringar ævinlega að einhverju, þær hafa eitthvert viðfang. Það er engin leið að reiðast nema reiðast einhverju, engin leið að óttast nema óttast eitthvað, engin leið að elska nema elska eitthvað. Þannig er það ekki með tilfinningar – svengdin sem ég finn til hefur ekkert slíkt viðfang, ekki heldur kláðinn á milli herðablaðanna eða kuldinn í tánum. Og hið sama má segja um vellíðanina sem fer um líkamann þegar ég sest í heitt bað, hlusta á ljúfa tónlist eða borða góðan mat. Tilfinningin sem vaknar hefur ekkert viðfang, hún bara er.
Annað sem einkennir geðshræringar er að inntakið er í ákveðnum skilningi vitsmunalegt. Þótt tilfinningahliðin sé áberandi í geðshræringum, til dæmis þegar maður reiðist einhverjum og blóðið sýður í æðunum, þá getur fólk ekki reiðst nema að baki búi sú skoðun að einhvers konar misrétti hafi átt sér stað. Þegar fólk reiðist er það til marks um að það telji að eitthvað hafi verið gert á hlut þess sjálfs eða einhvers annars. Ef í ljós kemur að um misskilning var að ræða, að manneskjan sem reiðin beindist að hafi í raun verið saklaus, þá rennur fólki líka reiðin. Þannig er vitsmunalegt mat forsenda geðshræringa. Ást veltur á því mati að eitthvað sé elskuvert, ótti veltur á því mati að eitthvað sé óttavert, eftirsjá veltur á því mati að eitthvað sé þess virði að sjá eftir því.
Hið þriðja sem einkennir flestar geðshræringar er að þær geta verið misjafnlega ákafar eða sterkar. Svo við tökum reiðina aftur sem dæmi, þá reiðist fólk misjafnlega. Stundum þykknar aðeins í manni, stundum verður maður alveg bálillur. En þessi stigsmunur eða ákafamunur er líka háður vitsmunalegu mati. Vel getur verið viðeigandi að reiðast einhverjum fyrir að hafa gert eitthvað, en samt ekki að reiðast mjög mikið. Manneskja sem verður brjáluð af litlu tilefni bregst ekki við á viðeigandi hátt. Viðbragðið er ekki hæfilegt. Hið sama má segja um fólk sem reiðist alls ekki, eða ekki nóg, þegar það verður vitni að alvarlegum misgjörðum. Viðbragðið er ekki hæfilegt. Ofsamaðurinn og gufumennið eru þannig undir þá sömu sök seld að reiðast ekki hæfilega; viðbrögð annars einkennast af skefjaleysi en hins af skorti.
Í fjórða lagi skiptir það svo máli að geðshræringum fylgja líkamleg viðbrögð, bæði tilhneigingar til athafna og tilfinningar. Þannig má segja að í geðshræringum birtist manneskjan sem ein heild; tilfinningar og vitsmunir mætast, líka hið andlega og hið líkamlega, sem og hið vitsmunalega og hið verklega. Kannski mætti segja sem svo að í geðshræringunum birtist kjarni mennskunnar, þar sem tilfinningar þrungnar vitsmunum, og vitsmunir innblásnir af tilfinningum móta sjálfsmynd og tilhneigingar til athafna. Siðferðilegur þroski felst í því að finna hæfilegan samhljóm þessara ólíku þátta þannig að reiðin brjótist ekki út í hamslausri bræði, að væntumþykjan leiði ekki til undirgefni og meðvirkni, að ástin verði hvorki blind né bæld.
II – Ótti og eftirsjá
Ótti og eftirsjá eru geðshræringar og því líkt farið og reiðinni sem ég tók dæmi af hér að framan. Í tilteknum kringumstæðum getum við spurt:
(1) Hvert er viðfangið? – Hvað óttast ég? Hverju sé ég eftir?
(2) Hvert er hið vitsmunalega mat? – Hvers konar mat er forsenda ótta? Hvers konar mat er forsenda eftirsjár?
(3) Hvað er hæfilegt? – Eðlilegt getur verið að óttast eitthvað, en er óttinn of mikill, eða of lítill, eða er hann kannski hæfilegur? Er eftirsjáin of mikil eða of lítil, eða er hún kannski hæfileg?
(4) Hvers konar tilfinning fylgir geðshræringunni? – Hvernig líður mér þegar ég óttast eitthvað? Hvernig líður mér þegar ég finn til eftirsjár?
Ótti og eftirsjá eru ólíkar geðshræringar. Ótti beinist jafnan að einhverju í framtíðinni, hann tengist gjarnan óöryggi eða hugmynd um yfirvofandi skaða, og hann leiðir yfirleitt til ákveðinna líkamlegra einkenna eins og örari hjartsláttar.
Eftirsjáin beinist að einhverju sem liggur í fortíðinni, hún tengist hlutum sem einkennast af vissu – við vitum eftir hverju við sjáum – og andlegu viðbrögðin eru gjarnan depurð en á líkamanum slaknar og hann þyngist.
En þótt óttinn og eftirsjáin séu þannig ólík er ekki fráleitt að finna til ótta og eftirsjár á sama tíma, jafnvel geta þessar ólíku geðshræringar sprottið af sama atburði. Þegar fyrsti snjórinn fellur á haustin er ekkert óeðlilegt við að finna til eftirsjár eftir góðu sumri en óttast um leið skammdegi og harðan vetur. Eftirsjáin er þá ekki endilega eftirsjá eftir tilteknum hlutum eða atburðum, heldur eftirsjá eftir tilteknu tímabili sem er nú lokið. Sumarið er liðið. Eftirsjánni fylgir þá söknuður. Óttinn beinist hins vegar fram á við, að komandi árstíð og honum fylgir kannski kvíði fyrir köldum og dimmum vetri. Kveikjan að þessum geðshræringum er ein og söm – fyrsti snjór haustsins hefur fallið – en geðshræringarnar eru gjörólíkar, beinast að ólíkum hlutum og þeim fylgja ólík líkamleg viðbrögð.
III – Eftirsjá, ótti og gott líf
Eftirsjáin getur haft á sér fleiri hliðar en þá sem ég hef þegar nefnt, þ.e. söknuð vegna þess að einhverju sé lokið. Þegar sumrinu lýkur gæti eftirsjáin borið með sér sjálfsásökun um að tíminn hafi ekki verið notaður nógu vel: Ég var ekki nógu duglegur að njóta blíðunnar, njóta birtunnar, tók ekki nógu rösklega til hendinni í garðinum, ferðaðist ekki nógu mikið ... Svona upptalning á sér engan enda, því ávallt er hægt að hugsa sér eitthvað sem ekki var gert en hefði verið hægt að gera meira af eða öðruvísi. Þessari hlið eftirsjárinnar mætti lýsa sem svo að hún setji fortíðina í viðtengingarhátt: Ég hefði nú getað ... Vissulega hefði ég getað gert eitthvað sem ég gerði ekki, og gert það öðruvísi sem ég gerði. En liðið er liðið og því verður ekki breytt.
Manneskja sem reynir að lifa til fulls með því að gera allt sem er eftirsóknarvert svo ekkert tilefni verði til eftirsjár, hún setur nútíðina undir mæliker dómharðrar framtíðar. Hennar „núna“ er ávallt metið frá sjónarhóli ímyndaðrar framtíðar þar sem litið er til baka með augum dómarans sem leggur mælistiku verklegrar fullkomnunar og hámörkunar upplifunar á hið liðna. Og eftir þeirri mælistiku verður matið aldrei nema í slöku meðallagi.
Að lifa til fulls ætti að fela í sér jafnvægi á milli þess að lifa í tengslum við fortíð, nútíð og framtíð. Þarna koma þær saman örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld. Á hverjum tíma er eitthvað að óttast – það mun koma að dögum Skuldar þegar við þurfum að standa reikningsskil gjörða okkar. En við ættum að temja okkur að óttast hæfilega. Manneskja sem óttast ekkert lifir í fífldirfsku og manneskja sem óttast um of lifir undir óbærilegu fargi hræðslu og kvíða.
Á líkan hátt ættum við að lifa í hæfilegri eftirsjá. Ef við hefðum enga eftirsjá, þá værum við líklega sjálfumglöð; við litum ekki gagnrýnum augum á lífið og mætum árstíðaskiptin – hvort heldur í náttúrunni eða okkar eigin lífi – ekki sem skyldi. En ef við festumst í eftirsjá, þá hættir hið liðna – sem eðli málsins samkvæmt er óbreytanlegt – að vera hreyfiafl í núinu og uppspretta fyrir áform um framtíðina. Sé litið heilbrigðum og þó gagnrýnum augum á venjulegt líf manneskju hlýtur hið liðna að sjást bæði í vissum ljóma, eins og sumardagarnir sem við minnumst þegar haustar að, og í krítískri skerpu þegar við óskum þess að sumt hefði verið með öðrum hætti.
Ætli megi ekki segja að hið góða líf einkennist af viðeigandi og hæfilegum ótta og eftirsjá, þar sem Verðandi spinnur þráð reynslunnar inn í ókomna framtíð.
Athugasemdir