Þegar ég bjó í París fylgdist ég grannt með loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem þar var haldin árið 2015. Fátt varð eftirminnilegt í ræðum fulltrúanna, maður fékk á tilfinninguna að allt talið væri bara eitthvert orðagjálfur sem myndi litlu breyta. Það var samt meiri alvara og þungi í umræðunni en áður hafði heyrst. Þarna heyrði ég til dæmis fyrst hið ógnvekjandi orð, hamfarahlýnun. Það sem festist best í minni mínu var listgjörningur Ólafs Elíassonar á Panthéon-torginu í París: tólf brot úr ísjökum, ættuð úr Nuuk-firði á Grænlandi. Þarna stóðu þessir íshnullungar og bráðnuðu hægt og rólega fyrir allra augum; sýndu jöklana sem eru að bráðna og óðum hverfa með tilheyrandi afleiðingum. Ég man eftir fólki á leið á ráðstefnuna sem stóð þarna þögult og starði á ísinn bráðna. Hamfarahlýnunin var þarna bráðlifandi komin.
Listin leiðir okkur saman, hjálpar okkur að tengjast og víkka skilgreininguna á VIÐ – tengir saman heiminn – sagði Ólafur við þetta tilefni.
Þrátt fyrir að við séum í sífellu að horfa á þætti og hlusta á fréttir um loftslagsbreytingar þá eru þær samt á vissan hátt fjarlægar, ekki hér og nú. Við erum uppteknari af að hugsa um vinnuna og hvað við eigum að kaupa í matinn. Við vitum alveg hvað er að gerast – en við skiljum það samt kannski ekki alveg.
Þegar ég horfði á ísjakana bráðna fyrir framan mig í París fann ég og skildi, á einhvern sérstakan hátt, hvað raunverulega var að gerast. Listaverk geta hjálpað okkur að skilja heiminn, fá einhvern botn í tilveruna, taka afstöðu, jafnvel breytast. Ég fór líka að velta fyrir mér kolefnisspori listaverksins – að brenna eldsneyti til þess að flytja alla þessa ísjaka yfir Atlantshafið, svo maður tali nú ekki um alla gestina á ráðstefnunni sem stóðu þarna líka, búnir að fljúga þvers og kruss yfir allan heiminn til þess að ræða loftslagsvandann, íbyggnir á svip. Ég stóð þarna blautur í lappirnar og hausinn á mér fór á flug.
Listin breytir heiminum
Listamenn og skapandi fólk er að bregðast við loftslagsbreytingum, þessu stærsta og mikilvægasta verkefni mannkyns fyrr og síðar. Kannski hafa listamenn aldrei verið jafn mikilvægir og einmitt núna þegar við þurfum að skilja á áþreifanlegan hátt hvað er að gerast og bregðast hratt við. Listaverk geta og hafa breytt heiminum: Guernica eftir Picasso, eitt þekktasta málverk sögunnar, sýndi heiminum örvæntingu og grimmdaræði styrjaldar, örvæntingu fórnarlambanna, á allt annan hátt en ljósmynd gat gert. Hún vakti allan heiminn til vitundar um hrylling borgarastyrjaldarinnar á Spáni. Og fólk brást við.
Anatómíu-myndir Da Vinci höfðu áhrif á framþróun læknavísinda; verk Andy Warhol sýna okkur heim fjöldaframleiðslu, frægðar, vörumerkja og áhrifavalda. Listamenn hafa, með góðum og mikilvægum verkum, áhrif á hvernig við hugsum og hegðum okkar.
Frjó og skapandi hugsun
Innleiðing hringrásarhagkerfis kallar á miklar breytingar, vistvænar samgöngur og lífsvenjur. En við erum íhaldssöm í eðli okkar og breytingar fara illa í okkur. Samt lifum við tíma þar sem breytingar eru orðnar hið stöðuga ástand. Við lærðum í Covid að við getum brugðist hratt við og breytt lífsháttum okkar. Við vorum fljót að aðlagast og á óraskömmum tíma urðu miklar og mikilvægar framfarir í lyfjavísindum og tæki með þróun nýrra bóluefna og dreifingu þeirra um heiminn.
Með innleiðingu hringrásarhagkerfis þurfum við að endurhanna allt: Hvernig við hönnum hús, samgöngukerfi, vörur, umbúðir, föt, húsgögn, raftæki; og gæta þess að við lok líftímans fári varan eitthvert annað notagildi, þannig nýtum við auðlindirnar betur. Við þurfum að búa til vörur sem er hægt að nota aftur og aftur og halda dýrmætum auðlindum inni í hagkerfinu. Allt þetta kallar á frjóa og skapandi hugsun sem við getum nært með bókum, tónlist, leiklist, myndlist, dansi og öðrum listum.
Hinir gæfustu lifa af
Hringrásarhagkerfi er eins og náttúran sjálf; allt tengist hvert öðru, nærir hvert annað. Laufblað sem fellur að hausti nærir örverur, sveppi; breytist svo í mold. Allt þetta nærir síðan tré sem framleiðir svo ný laufblöð að vori. Af moldu ertu komin, að moldu skaltu aftur verða, af moldu skaltu aftur upp rísa. Þessi sígildu orð fela í sér kjarna hringrásarhagkerfisins. Það eru ekki endilega hinir hæfustu sem lifa af, heldur hinu gæfustu – eins og rithöfundurinn Sverrir Norland hefur komist að orði. Það eru lífverurnar sem vinna saman sem lifa af, en ekki endilega þau stóru og sterkustu. Risaeðlurnar dóu út á meðan litlu, snjöllu spendýrin lifðu.
Sköpunargáfan er frumkraftur mannkynsins
Sköpunargáfan er frumkraftur mannkynsins; á bak við allar tækniframfarir, mikilvægar samfélagsbreytingar og nýsköpun er skapandi hugsun, og þar geta listamenn leitt okkur áfram. Listin snýst um að hugsa hlutina upp á nýtt, sjá og búa eitthvað til sem ekki hefur verið til áður. Stærsta áskorunin er að breyta hugarfari okkar og hugsun, daglegum venjum og gildismati. Til þess að hreyfa við fólki og knýja fram breytingar duga ekki línurit og ræður, við verðum að dansa, syngja, horfa, og hrífast til þess að sannfærast – og taka stökkið.
Athugasemdir