Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs segir af sér

Lauf­ey Helga Guð­munds­dótt­ir, skip­að­ur stjórn­ar­formað­ur Úr­vinnslu­sjóðs af um­hverf­is­ráð­herra, hef­ur sagt af sér. Al­þingi ósk­aði eft­ir því að rík­is­end­ur­skoð­un rann­sak­aði starf­semi sjóðs­ins. Sjóð­ur­inn velt­ir millj­örð­um króna á ári hverju.

Stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs segir af sér

Laufey Helga Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Úrvinnslusjóðs, hefur sagt af sér. Þetta staðfestir hún í samtali við Stundina. Stundin hefur ítrekað óskað eftir viðtali við hana vegna starfsemi sjóðsins, en sjóðurinn veltir milljörðum króna árlega. Í byrjun október sagðist hún ekki geta veitt viðtal vegna anna. Var viðtalsbeiðnin ítrekuð í byrjun nóvember, en ekkert svar barst frá henni.

Í samtali við Stundina segir Laufey Helga að hún hafi látið af störfum sem formaður stjórnar Úrvinnslusjóðs og að nýr formaður stjórnar verði kynntur í dag. Hann verður skipaður af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfisráðherra. Laufey vildi ekki svara neinum spurningum blaðamanns og tjáði blaðamanni að hún myndi heldur ekki svara neinum skriflegum spurningum vegna Úrvinnslusjóðs. Benti hún ítrekað á að ræða ætti við framkvæmdastjóra sjóðsins, Ólaf Kjartansson.

Laufey var skipuð þann 20. ágúst 2019 til fjögurra ára af umhverfisráðherra, átti hún því um helming skipunartíma eftir í starfi. Hún starfar einnig sem lögmaður á lagaskrifstofu Alþingis, en skrifstofan er meðal annars ráðgefandi við lagasetningu um stofnanir Alþingis, fyrir umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðanda, en sú stofnun er einmitt að rannsaka sjálfan sjóðinn.

Guðmundur Ingi GuðbrandssonUmhverfisráðherra skipaði formann stjórnar Úrvinnslusjóðs 2019 og þarf núna að skipa nýjan eftir að helmingur skipunartímans er liðinn.

Alþingi óskaði eftir rannsókn á Úrvinnslusjóði

Þann 31. maí síðastliðinn samþykkti Alþingi Íslands að Ríkisendurskoðun skyldi gera rannsókn á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram beiðnina fyrir Alþingi og var hún samþykkt með 57 atkvæðum. Rannsóknarbeiðnin er ítarleg og er meðal annars krafist svara um hvers vegna ríkisstofnun, sem árlega veltir milljörðum króna, hafi ekki skilað ársskýrslum í yfir fimm ár. 

Í skýrslubeiðninni kemur fram að meðal annars eigi að fjalla um eftirfarandi: „Ársskýrslur sjóðsins síðustu fimm ár, hvar megi nálgast þær og hvers vegna þær hafi ekki verið gerðar opinberar, hvaða reglur gildi um greiðslur úr sjóðnum og hvaða annað mat fari fram við ákvörðun um hvert greiða skuli úr sjóðnum?“

Forsvarsmenn Úrvinnslusjóðs mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis þann 21. maí. Tíu dögum seinna var farið fram á beiðnina um rannsókn á sjóðnum.

Þá er einnig krafist svara um hvort Úrvinnslusjóður hafi í raun og veru athugað hvort úrgangur, sem sjóðurinn greiddi íslenskum endurvinnslufyrirtækjum fyrir að endurvinna, hafi í raun og veru verið endurunninn: „... Hvort Úrvinnslusjóður gangi úr skugga um það hjá viðtakendum greiðslna hvert efnin fari sem greiddur er kostnaður fyrir og hvort við taki vottuð endurvinnsluferli, raunveruleg endurvinnsla eða önnur viðurkennd ferli áður en greitt er úr sjóðnum. Hvort Úrvinnslusjóður fylgi því eftir með öðrum hætti að allar greiðslur úr sjóðnum hafi verið í samræmi við ráðstöfun og þau lögmætu markmið sem að er stefnt, með það að markmiði að koma í veg fyrir ofgreiðslur úr sjóðnum.“

Jón GunnarssonÞingmaður Sjálfstæðisflokksins þrýsti á rannsókn á Úrvinnslusjóði.

Segjast fagna rannsókn Ríkisendurskoðunar

Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs birtist frétt, 18. júní síðastliðinn, þess efnis að stjórn sjóðsins fagni rannsókn Ríkisendurskoðunar. Þá kemur þar einnig fram að rannsóknin sé kjörið tækifæri um hvort megi gera betur heldur en það kerfi sem sett upp hefur verið af sjóðnum.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að stjórn Úrvinnslusjóðs fagnar fyrirhugaðri úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi sjóðsins og lýsir sig reiðubúna að vinna með stofnuninni að verkefninu. Að mati stjórnarinnar gefst þar kjörið tækifæri til að koma sjónarmiðum um bætta úrvinnslu úrgangs á framfæri og fá úttekt óháðs aðila á því hvað megi gera betur til þess að bæta núgildandi kerfi. Komi fram athugasemdir af hálfu ríkisendurskoðenda mun sjóðurinn að sjálfsögðu leggja sig fram um að vinna að úrbótum,“ segir í frétt á heimasíðu Úrvinnslusjóðs.

Segja að brestir séu í starfsemi Úrvinnslusjóðs

Í lokin á skýrslubeiðninni taka flutningsmenn hennar fram að þeir voni að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað það er sem valdi þeim brestum sem virðast vera á starfsemi Úrvinnslusjóðs. Samkvæmt heimildum Stundarinnar er mikill titringur innan stjórnar sjóðsins vegna rannsóknar ríkisendurskoðanda á starfsemi sjóðsins.

„Flutningsmenn telja að nauðsynlegt sé að fela ríkisendurskoðanda, sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár, að taka saman skýrslu um málið með hliðsjón af 6. gr. a laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Flutningsmenn binda vonir við að skýrsla ríkisendurskoðanda muni varpa ljósi á hvað veldur þeim brestum sem virðast vera á starfsemi Úrvinnslusjóðs og hvað megi gera til þess að bæta núgildandi kerfi svo opinberum fjármunum sjóðsins sé varið í þá umhverfisvænu ferla og endurvinnslu sem að er stefnt.“

Tölur sjóðsins ekki réttar

Stundin greindi frá því á síðasta ári að tölur sem Úrvinnslusjóður hafi skilað af sér ættu enga stoð í raunveruleikanum. Samkvæmt tölum sjóðsins var um 50% af öllu plasti sem safnað var á Íslandi endurunnið. Í raun var hlutfallið í kringum 19%, samkvæmt rannsókn norska skilakerfisins Gröne punkt. Upp komst að sænska plastendurvinnslufyrirtæki Swerec hefði til langs tíma logið til um endurvinnslutölur. Meðal fyrirtækja sem sendu plast til Swerec eru Sorpa, Terra og Íslenska gámafélagið. Þurfti fyrirtækið að greiða skaðabætur bæði í Noregi og Svíþjóð vegna svindlsins, en engar skaðabætur voru greiddar til Íslands þar sem Úrvinnslusjóður sóttist ekki eftir því, þrátt fyrir að hafa vitað af svindlinu. 

Blaðamaður Stundarinnar spurði Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, hvort tölur hefðu verið lagaðar hjá Úrvinnslusjóði eftir að upp komst um svindlið hjá Swerec. „Swerec-svindlið þarna, ég veit ekki alveg nákvæmlega hvernig það var, þannig ég ætla svo sem ekki alveg að úttala mig um það,“ svaraði hann.

„Því vissi ég af, að þeir voru að fabúlera einhverjar tölur þarna.“
Ólafur Kjartansson
Framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs um afdrif plasts frá Íslandi.

Aðspurður hvort Úrvinnslusjóður hefði vitað um svindlið játar Ólafur því. „Því vissi ég af, að þeir voru að fabúlera einhverjar tölur þarna.“ Hann segir að ekki hafi verið brugðist við og tölfræðin ekki leiðrétt. „Nei, það gerðum við ekki,“ segir Ólafur. „Á þessum tíma reikna ég með að við höfum verið að horfa á að um 50% hafi verið að fara í endurvinnslu.“ Eins og kom fram hér að ofan var sú tala mun lægri og samkvæmt rannsókn norska skilakerfisins kom í ljós að eingöngu um 19% af öllu plasti sem sent var til Swerec var í raun endurunnið, afgangurinn var brenndur eða sendur til annarra landa.


Vafasöm slóð plasts frá Íslandi

Strandbærinn Jurmala í Lettlandi var einn vinsælasti ferðamannastaður fyrir háttsetta leiðtoga Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Meðal þeirra sem eyddu sumarfríum sínum þar voru Leoníd Bresnjev og Nikita Krústsjov, en báðir voru þeir aðalritarar Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Hvítu sandstrandir Jurmala ásamt gífurlegri náttúrufegurð laða að sér hundruð þúsunda gesti árlega. En það eru ekki vinsældir þessa ferðamannastaðar sem komu Jurmala í umræðuna í Svíþjóð. Því ferðamannasumarið 2017 fylltist heiðskír himinninn af þykkum svörtum reyk.

Upptök reykjarins mátti rekja til lóðar sem tvö af plastendurvinnslufyrirtækjum Lettlands áttu. Á lóðinni voru um 23 þúsund tonn af plasti sem voru að brenna. Slökkvilið frá öllum nágrannasveitarfélögum voru kölluð á vettvang til að reyna að slökkva eld á 31.500 fermetra svæði. En þau réðu lítið við eldinn og stóð bruninn yfir í meira en 12 klukkustundir, spúandi kolsvörtum reyk og eiturgufum yfir íbúa og ferðamenn á svæðinu. Var eldurinn svo mikill að lettneski herinn var kallaður út til að aðstoða við slökkvistarfið. Þá leiðbeindu yfirvöld bændum á svæðinu í kring að neyta ekki grænmetis sem ræktað var á svæðinu vegna þess gífurlega mikla magns eiturefna sem mátti finna í sótsvörtum reyknum.

Bruninn í Lettlandi

Lettnesk lögregluyfirvöld ásamt umhverfisstofnun Lettlands hófu um leið rannsókn á málinu. Stundin hefur undir höndum gögn frá lettneskum lögregluyfirvöldum, ásamt lettnesku umhverfisstofnuninni. Sýna þau að fjórum dögum fyrir brunann var búið að tilkynna forsvarsmönnum fyrirtækjanna tveggja sem geymdu plast á lóðinni að þeir yrðu að fjarlægja allt plast sem var á staðnum. Þá leiddi rannsóknin einnig í ljós að fyrirtækin hefðu ekki haft tilsvarandi leyfi til að geyma svo mikið plast á staðnum. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að augljóst var að um íkveikju væri að ræða, en forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja neituðu að hafa átt þátt í brunanum.

Umhverfisstofnun Lettlands kallaði brunann eitt af verstu umhverfisslysum í sögu landsins. Mikil mengun varð á grunnvatni á svæðinu sem mun hafa áhrif á íbúa svæðisins. Hreinsunarstörf hófust stuttu eftir að búið var að slökkva eldinn, en kostnaður vegna hreinsunarstarfsins var um 170 milljónir íslenskra króna samkvæmt umhverfisstofnun Lettlands. Samkvæmt niðurstöðu lögreglurannsóknar lettneskra stjórnvalda kom í ljós að plast frá sænska endurvinnslufyrirtækinu Swerec var að finna á lóðinni. Stjórnvöld í Lettlandi óskuðu eftir aðstoð sænskra lögregluyfirvalda við rannsókn málsins ásamt sænsku umhverfisstofnuninni. Sænska lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum Swerec og lagði hald á tölvur fyrirtækisins ásamt því að starfsmenn Swerec voru yfirheyrðir. Í ljós kom að af þeim 23 þúsundum tonna af plasti sem brunnu í Jurmala voru um 11 þúsund tonn frá Swerec. Þá kom í ljós að pappírar voru falsaðir um hver var raunverulegur móttökuaðili á plasti frá Swerec.

Í samtali við Ólaf Kjartansson, framkvæmdastjóra Úrvinnslusjóðs, hafði hann enga vitneskju um þetta atvik hjá einum stærsta móttökuaðilanum á íslensku plasti. Aðspurður hvort þetta hefði getað haft einhver áhrif á samþykki Úrvinnslusjóðs á Swerec sem samþykktum úrvinnsluaðila gat Ólafur ekki svarað því, en sagðist ætla að ræða við Swerec um málið.

Íslenskt plast dreifist um sænskar sveitir

Um 1.300 tonn af plasti, sem var að stórum hluta frá Íslandi, voru send frá Swerec til nýstofnaðs endurvinnslufyrirtækis í Påryd árið 2017. Bærinn er í Suður-Svíþjóð rétt austan við Kalmar. Eigandi hins nýstofnaða fyrirtækis ætlaði sér að endurvinna plastið með því að búa til olíu úr því og selja. Saga stofnanda fyrirtækisins er ansi skrautleg. Árið 2014 var hann dæmdur fyrir bókhaldsbrot. Það sama ár var hann ákærður fyrir að kúga fé út úr eldri mönnum sem höfðu halað niður klámmyndum.

Eigandinn hafði enga reynslu af rekstri endurvinnslufyrirtækja, en hafði komið að rekstri annarra félaga í fortíðinni sem öll höfðu farið í þrot. Þrátt fyrir að fyrirtækið hefði enga reynslu og engin tæki til að endurvinna úrganginn sendi Swerec þeim 1.300 tonn af plasti, sem var að stórum hluta íslenskt. Peter Håkansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Swerec, sagði í samtali við Dagens Nyheter á sínum tíma að plastið hefði verið sent til fyrirtækisins í Påryd í gegnum millilið. Þá sagði hann að hann hafi ekki vitað um fortíð eiganda fyrirtækisins. 

„Við vissum ekkert um fortíð þessa manns,“ sagði Peter.

Árið 2018 fór fyrirtækið í Påryd í þrot, en það skildi eftir allt plastið, þar sem það situr enn. Plastið fauk um nágrennið og kvörtuðu nágrannar ítrekað undan þeim óþrifnaði sem var vegna þess. Þá kvörtuðu íbúar í nágrenninu einnig vegna mikils rottugangs sem fylgdi plastruslinu. 

Í svari til Stundarinnar segir sveitarfélagið Kalmar að plastið sé enn á staðnum, tæplega þremur árum eftir að Swerec sendi það þangað. Sveitarfélagið segir að það sé að vísu búið að færa það inn í skemmu sem er á svæðinu, til þess að það mengi ekki frekar út frá sér. Nýr eigandi er nú að lóðinni þar sem plastið er og hafði hann frest til að losa sig við það fyrir sumarið 2020. Sá frestur hefur nú verið framlengdur til sumarsins 2021 vegna þess ástands sem Covid-19 hefur valdið. Íslenska plastið mun því sitja lengur í sænska bænum, en það mun þá hafa setið þar í yfir fjögur ár. Sveitarfélagið staðfestir að plastið verði aldrei endurunnið heldur muni það allt verða sent í orkuvinnslu. Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, segir í samtali við Stundina að hann hafi ekki vitað af þessu íslenska plasti í Påryd sem Swerec sendi þangað.

Endurvinnslutölurnar eru ekki raunverulegar

Öllum sorpfyrirtækjum á Íslandi, sem sjá um að þjónusta sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklinga, ber að skila tölum um úrgang til Úrvinnslusjóðs. Ekki er bara um tilkynningarskyldu að ræða, heldur skipta þessar tölur máli þegar kemur að því að fá greitt úr Úrvinnslusjóði. Samkvæmt verðskrá Úrvinnslusjóðs fær fyrirtæki, sem endurvinnur plast, 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið. Ákveði hins vegar fyrirtæki að senda plastið í brennslu, til orkuvinnslu, fær fyrirtækið 35 krónur. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar kemur fram að árið 2019 hafi 56% af öllu plasti sem var safnað verið sent til endurvinnslu.

Íslenskt plast

En því miður er það ekki reyndin og árangurinn mun minni. Umhverfisstofnun byggir tölfræði sína á tölum frá fyrrnefndum Úrvinnslusjóði. Í samtali við Stundina segir Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs, að hans eigin tölur stemmi ekki og einhver villa hljóti að vera þarna. Svo virðist vera að tölur allt til ársins 2011 séu að gefa ranga mynd af því hversu vel við Íslendingar erum að standa okkur í endurvinnslu á plasti. 

„Þær eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum“

Í ljós hefur komið að villan var einföld. Samkvæmt skilgreiningu Úrvinnslusjóðs er búið að endurvinna plast um leið og það er sent úr landi til úrvinnsluaðila erlendis. Skiptir þar engu máli hversu mikið af plasti útlendi úrvinnsluaðilinn nær að endurvinna. Til dæmis ef íslenskt fyrirtæki sendir 100 tonn af plasti til erlends úrvinnsluaðila teljast öll 100 tonnin af plasti vera endurunnin, þrátt fyrir að öll 100 tonnin séu svo á endanum send í brennslu eða jafnvel til þriðja heims ríkja. Ólafur segir að Úrvinnslusjóður sé að vinna í því að laga þetta og krefja íslensk fyrirtæki, sem senda plast út úr landi, um að fá að vita nákvæmlega hversu mikið er endurunnið og hversu mikið sé brennt til orkuvinnslu.

Samkvæmt verðskrám Úrvinnslusjóðs fengu íslensk fyrirtæki 65 krónur á hvert kíló af plasti sem er endurunnið en eingöngu 35 krónur fyrir hvert kíló af plasti sem sent er í orkuvinnslu. Vegna þessa fá íslensk fyrirtæki, meðal annars Sorpa, Terra og Íslenska gámafélagið, alltaf greitt fyrir að senda plastið í endurvinnslu þrátt fyrir að langstærstur hluti plastsins rati aldrei í endurvinnslu.

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að þessar endurvinnslutölur séu ekki raunverulegar. „Þær eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Birgitta hreint út.

Í samtali við Stundina staðfestir Umhverfisstofnun að engin tilkynning hafi borist frá Úrvinnslusjóði vegna svindlsins, en þeir bera ábyrgð á að skila inn réttum tölum til Umhverfisstofnunar.

Kerfið hvetur til útflutnings á plasti

Í greinargerð sem fylgdi beiðninni kemur fram að kerfi, sem Úrvinnslusjóður hefur sett upp hvetji ekki til endurvinnslu á plasti hér á landi, heldur sé það sett upp til að hvetja til útflutnings á plasti. Um 99% af plasti, sem Íslendingar flokka samviskusamlega, er fluttur úr landi.

„Mikilvægi endurvinnslu er mikið rætt í nútímasamfélagi og umhverfismál verða sífellt fyrirferðarmeiri í umræðunni. Síðustu misseri hefur verið talsvert fjallað um endurvinnslu á íslensku sorpi, ekki síst plasti. Stór hluti þess plasts sem fellur til hér á landi er sendur úr landi til endurvinnslu, sem sætir furðu margra. Bent hefur verið á að núgildandi lagaumhverfi og kerfi sem þessum málum eru búin hér á landi hvetji ekki til endurvinnslu innan lands heldur til þess að plast sé flutt til útlanda með tilheyrandi kolefnisspori.“

Segja að íslenskt plast endi í Malasíu

Í greinargerðinni með rannsóknarbeiðninni kemur einnig fram að íslenskt plast fari í langt og mikið ferðalag. Ferðalagið hefjist með skipasiglingu til plastmiðlara í Hollandi. Þaðan er það svo sent til Malasíu, þar sem ferðalag íslensks plasts endar.

„Plastið á langan veg fyrir höndum þar sem það hefur viðkomu hjá plastmiðlurum í Hollandi, en er svo sent áfram til Malasíu þar sem alls óvíst er um vottaðar umhverfisvænar endurvinnsluaðferðir eða viðurkennda ferla.“ 

Heng Kiah Chun starfar fyrir náttúruverndarsamtökin Greenpeace í Malasíu. Í samtali við Stundina segir hann að eftir að Kína lokaði fyrir langstærstan innflutning á plastúrgangi frá Vesturlöndum, hafi endurvinnslufyrirtæki sprottið upp víðs vegar um Suðaustur-Asíu. „Þetta hefur þýtt að gífurlegt magn af plasti hefur verið flutt hingað til Malasíu, til fyrirtækja sem bera enga virðingu fyrir lögum og reglum, hvað þá til umhverfisins.“ 

Umhverfisráðherra Malasíu haldandi á plasti sem er óhæft til endurvinnslu

Heng segir að einhver endurvinnslufyrirtæki séu að gera hlutina rétt, en langstærstur hluti þeirra sé bara að leita að skyndigróða. 

„Eftir að Kína lokaði skapaðist gullgrafaraæði í Malasíu. Hér er nóg af landsvæði, slakt eftirlit og ódýrt vinnuafl. Langstærstur hluti endurvinnslufyrirtækjanna  í Malasíu var stofnaður rétt fyrir og eftir lokun Kínverja. Eftirlit yfirvalda er ekki mikið, í raun sorglega lítið, en með því litla eftirliti hafa yfirvöld hér lokað yfir 150 plastendurvinnslufyrirtækjum. En það eru mörg hundruð fyrirtæki hérna sem eru enn að störfum og eru að menga landið okkar með rusli frá Vesturlöndum.“ 

Náttúruverndarsamtökin Greenpeace gerðu ítarlega skýrslu um plastendurvinnsluiðnaðinn í Malasíu í nóvember 2018. Þar kemur meðal annars fram að plastið sem sent hefur verið til landsins hefur verulega neikvæð áhrif á náttúruna í Malasíu. Magn eiturefna er gífurlegt á þeim svæðum sem plastendurvinnslufyrirtækin hafa losað sig við plast eða brennt plastið á. Þar má finna mikið magn af þungamálmum ásamt öðrum eiturefnum, sem hafa drepið stóran part af lífríkinu í nokkrum vötnum – og eru önnur svæði með mjög hátt hlutfall eiturefna – hlutfall sem er beintengt mengun frá plastúrgangi. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að sænsk endurvinnslufyrirtæki sendu rúmlega 2.500 tonn af plastúrgangi til Malasíu árið 2018.

„Við vitum að endurvinnslufyrirtæki í Svíþjóð eru að senda plastúrgang hingað til Malasíu,“ segir Heng. „Ef þið Íslendingar eruð að senda ykkar plast þangað þá eru miklar líkur á því að eitthvað af íslenska plastinu sé að koma hingað, miðað við það magn sem við erum að fá.“ 

Heng biður alla Vesturlandabúa um að hætta að senda vandamálin sín til annarra landa.

„Við erum orðin þreytt á því að þurfa að þrífa upp eftir ykkar eigin neyslu“
Heng Kiah Chun

„Þið verðið að fara að hætta að senda vandamálin ykkar til okkar, við eigum nóg með okkur sjálf. Þið eruð mun ríkari en við, en af einhverri ástæðu finnst ykkur sniðug hugmynd að senda plastúrganginn frá ykkar heimalandi til okkar. Næst þegar þið standið yfir endurvinnslutunnunni ykkar með plastið í höndunum, spyrjið ykkur sjálf, hvar endar þetta? Spyrjið líka fyrirtækin á Íslandi sem eru að endurvinna plastið ykkar hvar plastið endar og krefjist svara – því við erum orðin þreytt á því að þurfa að þrífa upp eftir ykkar eigin neyslu.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (8)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Gísli Sváfnisson skrifaði
  Er baraa ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut í stjórnsýslu þessa lands á eðlilegan og siðferðilega réttan hátt? Þessi greining er afhjúpandi!
  0
 • Góð grein Bjartmar verður umhverfisráðherra ekki bara að friða þetta verður þá
  ekki alt í lagi?
  0
 • Karlott Gunnhildarson skrifaði
  Flott grein og mikilvæg. Svona þarf að skrifa um og taka á til að spilltir stjórnarhættir gefi sig og heiðarlegra samfélag vaxi. Takk fyrir ítarlega og vel skrifaða grein.
  0
 • Árni Þorsteinsson skrifaði
  Þvílík glæpamennska.
  0
 • Þorsteinn V. Sigurðsson skrifaði
  Algjōr della og sóum best væri ð brenna allt sorp Heima í háhitabrennsluofnum og leggja úrvinnlusjóð niður
  0
 • ÁHG
  Árni Hafþór Guðnýjarson skrifaði
  Það bar helst til tíðinda að Jón nokkur Gunarsson kom að gagni, og óskaði eftir úttekt á Úrvinslusjóði, Jón þessi hafði frekar verið þektur af undirferli og ganga grímulaus til verka í þjónkun við Auðvaldii þó sérstaklega Sægreifana en lítið gert til gagns fyrir land og þjóð.
  0
 • HBS
  Hulda Björg Sigurðardóttir skrifaði
  Plastið! Örlagavaldur mannkyns?
  0
 • Þorsteinn Ásgeirsson skrifaði
  Getur einhver bent mér á eitthvað sem virkar í Íslenskri stjórnsýslu eða innviðum okkar ?
  0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Endurvinnsla á Íslandi

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár