Hæ. Hér er fyrst hlekkur á þrautina frá í gær.
***
Fyrri aukaspurning:
Á myndinni að ofan má sjá dýrið paraceratherium, stærsta landspendýr sem vitað er um í sögunni, en dýrið var á dögum fyrir 25-30 milljónum ára. Hver er nánasti ættingi dýrsins sem enn skrimtir?
***
Aðalspurningar:
1. Í hvaða landi er höfuðborgin Buenos Aires?
2. Í ágúst 1941 kom mikill stríðsleiðtogi í heimsókn til Íslands. Hver var sá?
3. Þessi ágæti maður staldraði að vísu stutt við, en hann var að koma af fundi með öðrum leiðtoga, sem þá átti að vísu ekki í neinu stríði. Hver var hann eða hún?
4. Bandarísk bíómynd nefnist The Trial of the Chicago 7 og fjallar um menn sem dregnir voru fyrir dóm fyrir meinta aðild sína að óeirðum sem urðu í Chicago árið 1968 þegar flokksþing Demókrata stóð þar yfir. Einna fremstur í flokki þeirra var hippaskörungurinn Abbie Hoffmann. Leikarinn, sem fer með hlutverk hans, er frægur fyrir hlutverk í myndum af allt öðru tagi, en hann hefur fengið heilmikið lof fyrir hlutverk Hoffmans og tilnefndur til Óskarsverðlauna. Hvað heitir leikarinn?
5. Hvað hét eiginkona Ágústusar Rómarkeisara, sem sumir telja að hafi ráðið mjög miklu bak við tjöldin og otað tota skyldmenna sinna mjög við hirðina?
6. Hversu mörg eru íslensku kjördæmin?
7. Hún fæddist árið 1958 í Belgíu. Reyndar er hún þýsk en faðir hennar var starfsmaður Evrópusambandsins (hvað sem það hét nú þá) í Brussel. Hún lærði læknisfræði í Þýskalandi, var sökuð um ritstuld í doktorsritgerð sinni en stóð þær ásakanir af sér. Svo fór hún út í pólitík og er nú aftur komin til Brussel. Hvað heitir hún?
8. Hversu mörg fjöll á Íslandi bera nafnið Fjallið eina?
9. Hver lét aðalhlutverkið í myndinni Sophie's Choice?
10. Finnur Jónsson hét íslenskufræðingur einn og sérfræðingur í fornum bókmenntum sem andaðist 1934. Hann aðhylltist svokallaða sagnfestukenningu varðandi Íslendingasögurnar, en í henni fólst að sögurnar væru meira og minna byggðar á traustum munnlegum heimildum og því „sannar“ í stórum dráttum. Andstæðingar Finns og félaga töldu hins vegar að sögurnar væru meira og minna skáldskapur sem byggði að litlu leyti á munnmælasögum. Þær hefðu verið samdar á bók af ákveðnum höfundum, sem létu nafns síns að vísu ekki getið. Hvað nefndist sú kenning, sem gekk í móti sagnfestukenningunni?
***
Seinni aukaspurning:
Dýrið á myndinni hér að neðan er sprelllifandi. Hvaða dýr er þetta?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Argentínu.
2. Churchill.
3. Franklin D. Roosevelt.
4. Sasha Baron Cohen (öðru nafni Borat, Ali G. o.fl.)
5. Livia.
6. Sex.
7. Ursula von der Leyen.
8. Þrjú.
9. Meryl Streep.
10. Bókfestukenningin.
***
Svör við aukaspurningum:
Paraceratherium er af sömu ætt og nashyrningar.
Dýrið á neðri myndinni er rauðpanda, einnig nefnd kattbjörn.
***
Athugasemdir