***
Allar spurningar dagsins snúast um erlendar borgir.
Fyrri aukaspurning: Í hvaða borg má finna styttuna sem sést á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Osló er fjölmennasta borg Noregs. Hver er sú næstfjölmennasta?
2. Oscar Niemeyer var arkitekt sem fékk það draumaverkefni að hanna fjölda stórhýsa og opinberra bygginga í alveg splunkunýrri borg sem segja má að hafi verið reist upp úr engu á síðari hluta 20. aldar. Þar búa nú þrjár milljónir manna. Hvaða borg er þetta?
3. Borg ein hét lengi Serdica eftir þjóð sem bjó þar. Á 14. öld var hins vegar farið að nefna borgina eftir kirkju einni sem þar stóð. Nafn kirkjunnar — og þar með borgarinnar — hljómar eins og hún hafi verið nefnd eftir kvendýrlingi, en raunin mun þó vera sú að með nafninu sé vísað til sjálfrar viskunnar. Hvað hefur borgin altso heitið síðan á 14. öld?
4. New York er fjölmennasta borg Bandaríkjanna og ég skal trúa ykkur fyrir því að sú næststærsta er Los Angeles. En hvaða borg er í þriðja sæti þar í landi?
5. Dublin heitir höfuðborg og langfjölmennasta borg Írlands. Hvað heitir sú næststærsta þar í landi? Athugið að hér er eingöngu átt við lýðveldið Írland, en Norður-Írland telst ekki með.
6. Hvaða borg hét Byzantium þar til á fjórðu öld eftir Krist?
7. Hver er fjölmennasta borg Kína?
8. Catal Huyuk er talin hafa verið ein af elstu borgum heims. Fyrir níu þúsund árum bjuggu þar líklega hátt í tíu þúsund manns. Í hvaða núverandi ríki er Catal Huyuk?
9. Hvaða tvær evrópsku höfuðborgir eru næstar hvor annarri? Og já, þið þurfið að nefna báðar.
10. Hvað heitir fjölmennasta borgin í Kanada?
***
Seinni aukaspurning:
Í hvaða borg er þessi mynd tekin?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Björgvin.
2. Brasilia í Brasilíu.
3. Sofia í Búlgaríu.
4. Chicago.
5. Cork.
6. Mikligarður, Konstantínópel, Istanbul.
7. Sjanghæ.
8. Tyrklandi.
9. Rómaborg og Vatíkanið.
10. Toronto.
***
Aukaspurningasvör:
Nautið er í New York.
Seinni myndin er tekin við annan enda Karlsbrúarinnar frægu í Prag.
***
Athugasemdir