„Er brostið aftur á,“ segir fullorðinn maður um leið og hann opnar dyrnar á Aðalbakaríinu á Siglufirði, hallar sér fram í norðanbálið og hverfur út í sortann. „Þetta er orðið fínt, er orðinn ansi þreyttur á þessu óveðri, þetta er níundi dagurinn í röð,“ segir Hallgrímur Helgason rithöfundur, þar sem hann horfir á eftir manninum hverfa út í kófið með fangið fullt af ástarpungum.
Siglufjörður og Ólafsfjörður eru tveir nyrstu bæir Tröllaskaga og mynda Fjallabyggð, 2.000 manna samfélag þar sem veturnir eru vályndir. Stórhríðir, skafrenningur og snjóflóðahætta gera það að verkum að vegirnir báðum megin frá lokast og íbúar byggðanna verða innlyksa dögum saman vegna ófærðar. Síðastliðinn vetur var vegunum lokað í um fimmtíu daga, að sögn Elíasar Péturssonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar. „Það er bara ein lausn, tvenn jarðgöng, annars vegar frá Siglufirði yfir í Fljót, og hin frá Ólafsfirði suður til Dalvíkur. Atvinnulífið hér á svæðinu, sérstaklega sjávarútvegurinn, þarf góðar …
Athugasemdir