Greina má aukinn kvíða hjá barnshafandi konum og aðstandendum þeirra vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn og hertar sóttvarnarreglur hafa haft á fæðingarþjónustu. Engu að síður hefur ekki þurft að taka fyrir að aðstandendur fái að vera viðstaddir fæðingar og vonandi kemur ekki til þess.
Þetta sagði Hulda Hjartardótti, yfirlæknir fæðingarþjónustu Landspítala, á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hún var þar gestur fundarins en á fundinum voru einnig Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sem fóru yfir stöðu Covid-19-faraldursins hér á landi. Sjá má upptöku af fundinum í spilaranum hér að ofan.
Fimtíu konur hafa smitast af Covid-19 á meðan á meðgöngu stendur í faraldrinum frá upphafi, á landinu öllu. Hulda greindi einnig frá því að konur hafi þurft að fæða börn sín veikar af Covid-19. Það sé vissulega mikið álag fyrir verðandi mæðurnar, fyrir aðstandendur sem hafa ekki fengið að vera viðstaddir og fyrir starfsfólk fæðingardeilda en engu að síður séu það bara úrlausnarefni sem séu leyst eins og í annarri umönnun og heilbrigðisþjónustu. Hún brýndi konur mjög eindregið til að leita til heilbrigðisstarfsfólk greini þær veikindi hjá sér á meðgöngu og alls ekki forðast það með neinum hætti. Það sé afar brýnt.
Athugasemdir