Aðeins börn fædd 2015 og síðar verða undanskilin grímuskyldu, fjöldatakmörkunum og fjarlægðarmörkum. Fjöldatakmarkanir verða færðar úr 20 manns og niður í 10, grímuskylda verður aukin, áfram verða tveggja metra fjarlægðartakmaranir í gildi og íþróttastarf mun leggjast af. Þá verða sviðslistir óheimilar. Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um hertar aðgerðir vegna kórónaveirufaraldursins nú fyrir skemmstu. Hertar aðgerðir taka gildi á morgun, laugardaginn 31. október.
Í matvöruverslunum og apótekum munu gilda rýmri fjöldatakmarkanir, 50 manns, umræddur 10 manna fjöldi gildir hins vegar í öðrum verslunum. Krár og skemmtistaðir verða áfram lokuð, veitingahúsum skal loka klukkan 21:00 á kvöldin. Aðgerðirnar munu gilda um allt land.
„Þetta er besti kosturinn í erfiðri og flókinni stöðu. Það er ekki tími til að bíða og sjá til og vona það besta,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Það væri von hennar að með aðgerðunum yrði hægt að ná tökum á faraldrinum á tveimur vikum. Undir það tóku aðrir fundarmenn og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir einnig í viðtali eftir fundinn.
Í tilkynningu um aðgerðirnar kemur fram að fjöldatakmarkanir gildi ekki um störf ríkisstjórnarinnar, ríkisráðs, Alþingis og dómstóla. Þá gilda fjöldatakmarkanir ekki um almenningassamgöngur, hópferðabifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
Í einu tilfelli var brugðið út frá tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra. Sóttvarnarlæknir lagði til að fjöldatakmarkanir í útförum miðuðust við 20 manns en heilbrigðisráðherra ákvað að miða skyldi við 30 manns. Þó verður miðað við 10 manna hámarksfjölda í erfidrykkjum.
Þá greindi Katrín frá því að á fundi ríkisstjórnarinnar hefði verið unnið að því að útfæra frekari efnahagslegan stuðning vegna afleiðinga faraldursins og yrðu þær tillögur kynntar síðar í dag.
Spurð hvort ríkisstjórnin sé að hvetja fólk til að halda sig heima svaraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra því til að reglurnar væru skýrar en fólk væri hvatt til að njóta útiveru og náttúrunnar. Katrín hvatti börn til að halda sig heima við og fara ekki í nammileiðangra nú á hrekkjavökunni. Þá minnti hún á að aðventan væri fram undan og jólin. Vissulega væri það dimmasti tími ársins en síðan færi daginn að lengja og hún væri þess fullviss um að þær aðgerðir sem grípa ætti til núna yrðu til þess að hægt yrði að njóta aðventunnar og jólanna. Svandís tók undir þetta með forsætisráðherra. „Ef við tökum á þessu af samstöðu og afli getum leyft okkur að hlakka til jóla, vissulega óhefðbundinna jóla.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði að annað hefði ekki verið í stöðunni. „Við stóðum frammi fyrir því að hafa reglurnar óbreyttar, sem ekki var að virka, og hefði staðið í lengri tíma, eða fara í hertar aðgerðir til skemmri tíma.“ Hún þakkaði jafnframt landsmönnum fyrir þolgæði og hvernig það hefði tekið því hversu hert hefði verið að daglegu lífi, það væri ekki sjálfsagt. Sömuleiðis minnti hún á að hlúð væri að börnum en daglegt líf þeirra myndi verða fyrir verulega raski með aðgerðunum.
Athugasemdir