Undirskriftarsöfnunin fyrir nýju stjórnarskrána gengur svona líka glimrandi vel. Takmarkinu, 25.000 manns, var náð í síðustu viku, löngu fyrir átta ára afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar, 20 október. Talan er táknræn, eða jafn mörg nöfn og nýja stjórnarskráin segir að þurfi til að þjóðin megi leggja fram frumvarp á Alþingi. (Hversu frábær hugmynd er það ekki?)
Talan fer líka hækkandi og verður bara fallegri og fallegri. Ekki gleyma að setja nafnið þitt á listann.
Konur hafa dregið þennan vagn og gangurinn í söfnuninni hefur jafnvel komið þeim á óvart, jafn þrautseigar og bjartsýnar sem þær nú annars eru. Við skulum þakka Samtökum kvenna um nýja stjórnarskrá, einkum hinni óbilandi Katrínu Oddsdóttur, en einnig ungu sprautunum, Ósk Elfarsdóttur og Gunnhildi Fríðu Hallgrímsdóttur, sem halda úti síðunni Nýja stjórnarskráin á Instagram og Facebook. Steiney Skúladóttir og félagar hafa síðan unnið hin peppandi myndbönd sem birst hafa á miðlunum okkar.
„Það er eins og Jóhanna Sigurðardóttir hafi aldrei verið forsætisráðherra og að stjórn hennar hafi aldrei látið skrifa nýja stjórnarskrá“
Allt hefur þetta valdið pirringi hjá ungum og öldnum íhaldsmönnum og öðrum gæslumönnum auðs og valda. Ei má öskum raska, hugsa þau, og gæta vel sinna gullfullu skála.
Það hljóta þó að teljast gæðamerki hverrar baráttu þegar hún laðar jafnvel lötustu þingmenn þjóðarinnar að lyklaborði. Einn þeirra lýsti því yfir að nýja stjórnarskráin hefði verið „skrifuð með rassgatinu“ og þess vegna myndi hann aldrei styðja hana. Kom þetta á óvart, því almennt var talið að rassgatið væri í nokkru uppáhaldi hjá þingmanninum enda hefur hann ekki gert annað á þingi en að sitja á því. Í sjö heil ár.
Allt snýst þetta um þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram árið 2012 og skilaði mjög afgerandi niðurstöðu. Samt sem áður hefur hvorki Alþingi né ríkisstjórn hlítt úrslitum hennar, nú átta árum síðar. Og það sem verra er: Það hefur ekki einu sinni hvarflað að þeim. Og það sem verst er: Þjóðinni hefur verið nánast sama.
Bretar kusu sig út úr Evrópusambandinu 2016 í sams konar þjóðaratkvæðagreiðslu og okkar. Hún var líka ráðgefandi, eða eins og þau segja í London: „legally non-binding“. Samt sem áður efaðist aldrei neinn í Bretlandi um að farið yrði að úrslitunum. Fólk bara gerir ekki svoleiðis í lýðræðisríkjum, það hlítir úrslitum þjóðaratkvæðis.
Nýlega kusu svo Ítalir um það hvort breyta skyldi nokkrum atriðum í stjórnarskrá þeirra, svona eins og við kusum um árið 2012. Kosningaþátttakan þar var aðeins nokkrum prósentum yfir þátttökunni hér heima. Samt sem áður hvarflar ekki að neinum á Ítalíu (óspilltasta landi Evrópu!) að úrslitin verði hunsuð.
Hvers vegna voru þau hunsuð hér heima?
Vegna þess að allt var það EINNAR KONU verk?
Stjórnlagaþingið var sannarlega knúið fram í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta var hennar elsta og heitasta baráttumál. Samstarfsflokkurinn, VG, virtist því miður ekki standa heill með henni í þessu máli, eins og kom í ljós síðar. Á sama hátt sýndi eftirkomandi forysta í Samfylkingunni málinu lítinn áhuga.
Að ýta málinu af stað var því EINNAR KONU verk. Það verður aldrei af Jóhönnu tekið. En síðan komu hundruð manna að því. Þjóðfundur valinn með slembiúrtaki var haldinn og heilt stjórnlagaráð sat síðan sumarlangt yfir verkinu. Hvergi í heiminum hafa jafnmargir og ólíkir hópar komið að ritun stjórnarskrár. Samt sem áður létu andstæðingar verksins eins og þetta væri EINNAR KONU verk og tókst þannig að grafa undan því.
Þau sem setið hafa tvíkynja tíu manna fundi í þessu samfélagi kannast sjálfsagt við þessa stöðu: Kona sem situr við útenda borðsins kveður sér hljóðs og skýtur fram hugmynd. Karlarnir við borðið horfast í augu á meðan eða kíkja á símann sinn. Þegar konan hefur lokið máli sínu er eins og enginn hafi talað. Og það jafnvel þótt hún eigi að heita formaður húsfélagsins. Tíu mínútum síðar tekur einn karlinn til máls og segist hafa fengið hugmynd, endurtekur orð konunnar á fremur flausturslegan og gauralegan hátt og allt borðið kveikir strax: Brilljant hugmynd hjá þér, Gústi!
Allar konur kannast við þetta, allar konur hafa lent í þessu á ferlinum.
Og við sjáum það nú: Í sögulegu ljósi var allt stjórnarskrárferlið, stjórnlagaráðið og þjóðaratkvæðagreiðslan eins og orð konunnar á fundinum. Menn umbáru þetta, horfðu hver á annan, litu í símann sinn, létu þetta hafa sinn gang, en sneru sér að öðru um leið og allt var um garð gengið.
Það er eins og Jóhanna Sigurðardóttir hafi aldrei verið forsætisráðherra og að stjórn hennar hafi aldrei látið skrifa nýja stjórnarskrá. Það er eins og þjóðfundur hafi aldrei verið haldinn og stjórnlagaráð aldrei starfað. Það er eins og nýja stjórnarskráin hafi aldrei verið skrifuð og þjóðaratkvæðagreiðslan aldrei farið fram. Þjóðin (kvenkyns líka) hafði vissulega talað en karlarnir voru ekki að hlusta, þeir voru í símanum eða að kankast á. „Er hún búin?“ Að því loknu var allt óbreytt og öll völd að venju. Áframhaldandi misvægi atkvæða, ekki orð um náttúruvernd, engar auknar lýðræðisheimilidir, fiskveiðiauðlind að erfðum og óskýr ákvæði um forseta Íslands.
Ímyndið ykkur Bretland sem hefði þagað af sér Brexit. Ímyndið ykkur að Ítalía ætli ekki að hlíta úrslitum nýafstaðins þjóðaratkvæðis. Erfitt, ekki satt? En af hverju gerðist þetta þá hér?
Við erum öll samsek um að hafa þolað þessa þögn og tekið þátt í henni, við hinir ofurmeðvirku Ísendingar. Það er ekkert annað en svakalegt af okkur að hafa sætt okkur við þessa hunsun gerða- og orðalaust. Það er heldur ekki furða að baráttan fyrir nýrri stjórnarskrá sé borin uppi af konum og samtökum kvenna.
Nú er staðan þessi:
Í dag situr önnur kona í forsætisráðuneytinu, önnur kona við borðið. Við skorum á hana að virða orð og gjörðir kynsystur hennar, Jóhönnu, sem og hinnar: Þjóðarinnar.
Hún kaus nefnilega árið 2012 um það hvort hún vildi nýja stjórnarskrá. 48,4% greiddu atkvæði. 66,9% kusu já, við viljum „að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“.
Kæra Katrín, þú veist hvernig það er að vera konan við borðið. Þarfu ekki bara að berja í það?
Athugasemdir