Margir kenna alþjóðavæðingunni um kórónuveirufaraldurinn og segja sem svo að leiðin til að koma í veg fyrir fleiri slíkar skelfingar sé að snúa af þeirri braut. Byggjum múra, hindrum ferðalög, drögum úr verslun. En þótt sóttkví til skamms tíma sé nauðsynleg til að stöðva slíka faraldra mun einangrunarstefna til lengri tíma einungis leiða til efnahagshruns en þó ekki hafa í för með sér neina raunverulega vörn gegn smitandi sjúkdómum. Hið raunverulega mótefni gegn faröldrum er ekki aðskilnaður heldur samvinna.
Faraldrar drápu milljónir manna löngu áður en núverandi alþjóðavæðing hófst. Á 14. öld þekktust hvorki flugvélar né skemmtiferðaskip en samt breiddist svarti dauði frá Austur-Asíu til Vestur-Evrópu á rétt rúmlega áratug. Sjúkdómurinn drap einhvers staðar á milli 75 og 200 milljónir manna - meira en fjórðung af öllum íbúum Evrasíu. Á Englandi dóu fjórir af hverjum tíu. Í borginni Flórens á Ítalíu týndu 50.000 manns lífi af 100.000 íbúum.
[Þegar farsóttin gekk um Ísland í byrjun 15. aldar dóu líklega einnig 50.000 manns, jafnvel meira, af kannski 100.000 íbúum. Samgöngur milli landshluta voru þó strjálar. Ath. þýðanda.]
Einn maður með bólusótt
Í mars 1520 steig einn maður með bólusótt - Francisco de Eguía - á land í Mexíkó. Í Mið-Ameríku voru þá engar lestir, engin strætisvagnar, ekki einu sinni asnar. Í desember hafði bólusóttin þó náð að fara hamförum um alla Mið-Ameríku og drepa að því er sumir telja allt að þriðjungi íbúa.
Árið 1918 tókst sérlega skæðri sort af inflúensu að breiðast út í jafnvel fjarlægustu kima jarðar. Hálfur milljarður manna smitaðist - meira en fjórðungur af öllu mannkyni. Talið er að þessi flensa hafi drepið 5 prósent íbúa á Indlandi. Á eyjunni Tahiti dóu 14 prósent. Á Samoa í Kyrrahafinu 20 prósent. Flensufaraldurinn drap alls tugi milljóna - og kannski allt að 100 milljónir - á innan við einu ári. Það voru fleiri en höfðu látið lífið í fjögurra ára hrannvígum fyrri heimsstyrjaldar.
Í helvíti smitsjúkdóma?
Á þeirri öld sem liðin er síðan 1918 hefur mannkynið orðið æ viðkvæmara fyrir farsóttum. Þar segja til sín bæði meiri mannfjöldi og betri samgöngur. Risaborgir nútímans eins og Tókíó eða Mexico City eru fyrir sóttkveikjur miklu vænlegri veiðilendur en Flórens á miðöldum og samgöngunet nútímans nær mun fyrr um víða veröld en 1918. Veira kemst frá París til Tókíó og Mexico City á innan við sólarhring.
Því hefði mátt búast við að við byggjum nú í helvíti smitsjúkdóma og þyrftum að eiga við hverja banvænu pláguna af annarri.
Raunin er hins vegar sú að þvert á móti hafa tíðni og áhrif farsótta minnkað mjög verulega. Þrátt fyrir hræðilegar sóttir eins og AIDS og Ebola drepa farsóttir mun lægra hlutfall mannkynsins en nokkurn tíma síðan á steinöld.
Heil hersveit í einum vatnsdropa
Ástæðan er sú að bestu varnir mannsins gegn sóttkveikjum eru ekki einangrun, heldur upplýsingar. Mannkynið hefur verið sigursælt í stríðinu við faraldrana vegna þess að í vopnakapphlaupi sóttkveikjanna og læknavísindanna treysta sóttkveikjurnar á stökkbreytingar út í óvissuna en læknar reiða sig á vísindalega greiningu upplýsinga.
Þegar svarti dauði lét til skarar skríða á 14. öld hafði fólk ekki hugmynd um hvað olli sjúkdómnum né hvernig væri hægt að verjast honum. Fram undir það síðasta kenndi fólk venjulega reiðum guðum um sjúkdóma, eða illkvittnum drýsildjöflum eða fúlu lofti, og hafði ekki minnstu hugmynd um tilvist baktería og veira. Fólk trúði á engla og huldufólk en gat ekki einu sinni ímyndað sér að í einum vatnsdropa gæti leynst heil hersveit af bráðdrepandi illþýði.
Skyggnst í leiðbeiningabæklinginn
Þegar svarta dauða eða bólusótt bar að dyrum gátu yfirvöldin því ekki látið sér detta neitt skárra í hug en að skipuleggja fjöldabænir til alls konar guða og dýrlinga. Ekkert gagn var í því. Þvert á móti olli það mjög auknu smiti þegar fólk safnaðist saman til bænahalds.
Á síðustu öld lögðu vísindamenn, læknar og hjúkrunarfræðingar um allan heim saman í púkk og tókst í sameiningu bæði að átta sig á hvernig faraldrar haga sér og hvernig mætti verjast þeim. Þróunarkenningin útskýrði hvernig og hvers vegna nýjar farsóttir koma fram á sjónarsviðið og hvers vegna gamalkunnir sjúkdómar urðu allt í einu skæðari en áður.
Erfðafræði gerði vísindamönnum kleift að skyggnast inn í sjálfan leiðbeiningabækling sóttkveikjunnar. Fólkið á miðöldum áttaði sig aldrei á orsökinni að baki svarta dauða en það tók vísindamenn nútímans aðeins tvær vikur að finna sökudólg veirufaraldursins núna, greina erfðamengi hans og þróa áreiðanlegt próf til að finna smitaða einstaklinga.
Bólusótt útrýmt með samvinnu
Strax og vísindamenn áttuðu sig á því hvað olli farsóttum varð mun auðveldara að berjast gegn þeim. Bólusetningar, sýklalyf, bætt hreinlæti og miklu betra heilbrigðiskerfi, allt þetta gerði mannkyninu kleift að ná undirtökunum í baráttunni gegn hinum ósýnilegu óvinum. Árið 1967 smitaði bólusótt enn 15 milljónir manna og tvær milljónir dóu.
Næsta áratuginn fór fram svo vel heppnuð bólusetningarherferð gegn þessari sótt að árið 1979 gat Alþjóðheilbrigðisstofnunin WHO tilkynnt að mannkynið hefði sigrað og bólusótt hefði verið gersamlega útrýmt. Árið 2019 var ekki ein einasta mannvera á jörðinni sýkt af bólusótt, hvað þá að sóttin hafi dregið einhvern til dauða.
(Framhald neðar)
Viljum við fara aftur á steinöld?
Hvað kennir sagan okkur um þann faraldur kórónaveirunnar sem nú geisar?
Í fyrsta lagi gefur hún til kynna að fólk getur ekki varið sig með því að loka landamærum til frambúðar. Ekki gleyma því að farsóttir breiddust út með miklum hraða á miðöldum, löngu fyrir tíma alþjóðavæðingar. Jafnvel þótt við drægjum svo úr alþjóðasamskiptum að við værum í raun komin aftur til ársins 1348, þá myndi það ekki duga.
Til að einangrun komi að gagni sem vopn er ekki nóg að líta til miðalda. Við yrðum að fara aftur á steinöld.
Til að einangrun komi að gagni sem vopn er ekki nóg að líta til miðalda. Við yrðum að fara aftur á steinöld. Viljum við það?
Í öðru lagi kennir sagan okkur að raunverulegar varnir felast í að deila áreiðanlegri vísindalegri þekkingu og í alþjóðlegri samstöðu. Þegar tiltekið land verður fyrir faraldri ætti það að vera fúst til að deila af fullum heiðarleika öllum upplýsingum um faraldurinn án þess að óttast efnahagslegar ófarir - og önnur lönd ættu að geta treyst þeim sömu upplýsingum og ættu að vera fús til að rétta hjálparhönd fremur en að útiloka fórnarlambið. Þessa dagana hefur Kína margt að kenna öðrum þjóðum um kórónaveiruna en þær lexíur krefjast mikils alþjóðlegs trausts og samvinnu.
Sitja í súpunni?
Alþjóðasamvinna er líka nauðsynleg svo sóttkví komi að tilætluðu gagni. Sóttkvíar og lokanir eru nauðsynlegar til að stöðva útbreiðslu faraldra. En þegar ríki vantreysta hvert öðru og hverju þeirra finnst það standa eitt, þá hika ríkisstjórnir við að taka svo róttækar ákvarðanir. Ef maður finnur 100 kórónaveirutilfelli í landi þínu, myndirðu þá um leið loka heilu borgunum og héruðunum?
Að verulegu leyti veltur ákvörðunin á því við hverju má búast af hendi annarra ríkja. Að skella borgum þínum í lás gæti leitt til efnahagshruns. Sá sem telur víst að hann muni síðan eiga kost á aðstoð annarra ríkja er líklegur til að taka svo afdrifaríka ákvörðun. En sá sem býst við að önnur ríki láti hann sitja í súpunni mun sennilega hika þar til það er orðið of seint.
Veira með trilljónir lottómiða
Kannski er það mikilvægasta sem fólk þarf að gera sér grein fyrir um svona faraldra að útbreiðsla farsóttar í einu landi hefur í för með sér hættu fyrir allt mannkynið. Ástæðan er sú að veirur þróast. Veirur eins og kórónaveiran eru upprunnar í dýrum eins og leðurblökum. Þegar veirurnar stökkva svo yfir í manninn eiga þær í byrjun erfitt með að fóta sig í mannslíkamanum. En nái þær yfirleitt að fjölga sér verða öðru hvoru í þeim stökkbreytingar.
Flestar stökkbreytingarnar skipta engu máli. En stöku sinnum verður stökkbreyting sem gerir veiruna meira smitandi eða eykur varnir hennar gegn ónæmiskerfi mannsins - og þessi stökkbreytta gerð veirunnar mun svo breiðast á miklum hraða milli manna.
Hver einasta manneskja getur borið með sér trilljónir og aftur trilljónir af veiruögnum sem endurnýjast í sífellu og hver smituð manneskja gefur veirunni því trilljónir tækifæri til að aðlagast mannslíkamanum betur. Sérhver smitaður einstaklingur er eins og spilakassi sem dælir úr sér trilljónum lottómiða til veirunnar - og veiran þarf ekki nema einn vinningsmiða til að springa út.
Ein stökkbreyting í einum erfðavísi einnar veiru
Þetta segi ég ekki út í loftið. Bókin „Crisis in the Red Zone“ eftir Richard Preston lýsir einmitt slíkri atburðarás meðan á Ebolafaraldrinum 2014 stóð. Hann hófst þegar nokkrar Ebolaveirur stukku úr leðurblöku í menn. Veirurnar gerðu manneskjurnar fárveikar en þær voru samt ennþá sniðnar til að búa í leðurblökum fremur en mönnum. Það sem umbreytti Ebola úr fremur sjaldgæfum sjúkdómi í æðandi faraldur var ein stökkbreyting í einum erfðavísi einnar veiru sem síðan smitaði eina manneskju eins og á Makonasvæðinu í Vestur-Afríku. Þessi stökkbreyting gerði hinum breytta Ebola-legg veirunnar - sem kallaður er Makona-leggurinn - kleift að hengja sig á kólestrólferjur (flutningssameindir) í frumum manna. Ferjurnar fluttu nú ekki lengur kólestról inn í frumurnar heldur Ebola-veiruna. Þessi nýi Makona-leggur var fjórum sinnum meira smitandi fyrir menn en sá eldri.
Þurfum að verja hverja einustu manneskju
Núna, meðan þú ert að lesa þessar línur, er samskonar stökkbreyting kannski að eiga sér stað í einum erfðavísi í kórónaveiru sem hefur smitað einhvern í Tehran, Mílanó eða Wuhan. Ef það er að gerast þá er það ekki aðeins ógn við Írani, Ítali eða Kínverja, heldur við þitt líf líka. Fólk um allan heim hefur hagsmuni beinlínis upp á líf og dauða að gefa kórónaveirunni ekki slíkt tækifæri. Og það þýðir að við þurfum að verja hverja manneskju í hverju einasta landi.
... meðan þú ert að lesa þessar línur, er samskonar stökkbreyting kannski að eiga sér stað
Á áttunda áratugnum tókst mannkyni að sigra bólusóttarveiruna af því hver einasta manneskja í hverju einasta landi var bólusett. Ef bara eitt land hefði skorast undan að bólusetja sitt fólk hefði allt mannkynið verið í hættu því svo lengi sem bólusóttarveiran hefði verið til og haldið áfram að þróast, þá hefði hún alltaf haft tækifæri til að breiðast út hvert sem er.
Vaktir á múrnum milli mannheima og veiruveraldar
Í baráttunni gegn veirum verður mannkynið vissulega að setja varðstöðvar við öll landamæri. En ekki landamæri milli landa. Það þarf hins vegar að gæta vandlega landamæranna milli mannheima og veiruheimsins. Jörðin er iðandi af óteljandi veirum og nýjar veirur eru sífellt að verða til vegna stökkbreytinga á erfðavísum þeirra. Landamærin milli þessara tveggja heima liggja um líkama hvers einasta manns. Ef hættulegri veiru tekst að brjótast yfir landamærin bara einhvers staðar á jörðinni, þá er allt mannkynið í hættu.
Síðustu öldina hefur mannkynið víggirt þessi landamæri sem aldrei fyrr. Heilbrigðiskerfi nútímans standa sem múr á landamærunum og hjúkrunarfræðingar, læknar og vísindamenn ganga vaktir eftir múrnum og hrinda í sífelldu innrásum.
Langir kaflar berskjaldaðir
En því miður eru langir kaflar á þessum landamærum ansi berskjaldaðir. Hundruð milljóna manna búa ekki við almennilega heilsugæslu. Það setur ekki aðeins þá einstaklinga í hættu, heldur okkur öll. Hér áður fyrr hugsuðum við um heilsugæslu út frá hagsmunum einstakra þjóða, en í raun er það svo að með því að bæta heilsugæslu Írana og Kínverja, þá frelsum við líka fólk í Ísrael og Bandaríkjunum undan farsóttum. Þessi einfaldi sannleikur ætti að vera augljós öllum, en því miður er jafnvel sumt af valdamesta fólki heimsins blint fyrir þessari staðreynd.
Þessa dagana stendur mannkynið frammi fyrir stórhættu, ekki aðeins vegna kórónaveirunnar, heldur líka vegna þess hve lítið traust ríkir milli manna. Til að sigrast á þessum faraldri verður fólk að treysta sérfræðingum vísindanna, borgarar þurfa að geta treyst yfirvöldum sínum og ríkið þurfa að treysta hvert öðru.
Bandaríkin hafa sagt sig frá forystuhlutverki sínu
Á síðustu árum hafa óábyrgir stjórnmálamenn vísvitandi grafið undan trausti á vísindum, stjórnvöldum og alþjóðasamvinnu. Afleiðingin er sú að við þurfum nú að horfast í augu við þessa vá án nokkurra leiðtoga sem geta blásið okkur baráttuanda í brjóst, og skipulagt og fjármagnað viðbrögð um víða veröld.
Meðan Ebola-faraldurinn stóð yfir 2014 voru Bandaríkin slíkur leiðtogi. Bandaríkin gegndu líka svipaðri stöðu í fjármálahruninu 2008 þegar þau hópuðu að baki sér nógu mörgum löndum til að hindra algjört efnahagshrun um allan heim. En á síðustu árum hafa Bandaríkin sagt sig frá forystuhlutverki sínu í heiminum. Núverandi stjórn Bandaríkjanna skar niður framlög til alþjóðastofnana eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO, og hefur gert umheiminum alveg ljóst að Bandaríkin eiga ekki lengur neina vini - þau hafa bara hagsmuni.
Foringi sem segir: „Ég fyrst“
Þegar kórónuveirusóttin braust út héldu Bandaríkin sig til hlés og hafa hingað til ekki gert sig líkleg til að taka að sér forystuhlutverk í baráttunni. Og jafnvel þótt þau reyni á endanum að taka að sér forystuna hefur traust á núverandi stjórn Bandaríkjanna fúnað svo að fá ríki munu vilja lúta þeirri forystu. Mundir þú fylgja foringja sem hefur kjörorðið: „Ég fyrst“?
Tómið sem Bandaríkin hafa skilið eftir sig hefur enginn annar náð að fylla. Þvert á móti. Útlendingaandúð, einangrunarhyggja og vantraust einkenna nú alþjóðasamskipti. Án trausts og alþjóðlegrar samvinnu munum við ekki geta stöðvað kórónaveirufaraldurinn, og þá er stórum líklegra að við þurfum að upplifa fleiri slíkar farsóttir í framtíðinni. En sérhvert hættuástand felur einnig í sér möguleika. Vonandi er að faraldurinn nú muni hjálpa mannkyni að átta sig á þeirri miklu hættu sem stafar af alþjóðlegum illindum.
Stærsti sigur veirunnar?
Svo ég taki eitt augljóst dæmi, þá gæti faraldurinn haft í för með sér gullið tækifæri fyrir Evrópusambandið til að ná aftur þeim stuðningi meðal almennings sem það hefur glatað á undanförnum áratug. Ef lánsamari ríkin innan ESB sýna stórhug og örlæti og senda strax peninga, hjálpargögn og hjúkrunarfólk til að hjálpa þeim félögum sínum sem verða harðast úti þá gæti það styrkt Evrópuhugsjónina betur en nokkur ræðuhöld. En ef ríkin þurfa að berjast hvert fyrir sig gæti jarðarfararklukkan farið að glymja þessu bandalagi.
Á þessari ögurstund fer aðalbaráttan fram milli mannkynsins innbyrðis. Ef þessi faraldur hefur þær afleiðingar að togstreita og vantraust milli manna eykst þá verður það stærsti sigur veirunnar.
En ef faraldurinn leiðir á hinn bóginn til aukinnar alþjóðlegrar samvinnu verður það ekki aðeins sigur á kórónaveirunni heldur og öllum sóttkveikjum sem skjóta upp kollinum í framtíðinni.
Birt með góðfúslegu leyfi frá Time og Yuval Noah Harari.
Þýðing: Illugi Jökulsson
Athugasemdir