Listakonan Elísabet Kristín Jökulsdóttir býr í litlu húsi á Framnesveginum í gamla Vesturbænum. Húsið var keypt fyrir ljóðabækur fyrir 25 árum síðan og hefur í gegnum tíðina hlotið nafnbótina Töfrahúsið.
Elísabet Kristín, stundum kölluð Ella Stína, situr á tröppunum fyrir utan húsið þegar blaðamann og ljósmyndara ber að garði. Húsið samanstendur af nokkrum litlum rýmum og hver krókur og kimi er í senn persónulegur og á stundum kaótískur.
Garpur og JökullÞrátt fyrir tíðar breytingar á heimilinu eru sumir hlutir rótgrónir. Þar á meðal þessar fígúrur sem prýða annan stofugluggann. „Sonur minn Jökull bjó til þennan íþróttamann og Garpur bjó til fanga og þetta er kannski ég í miðjunni, einhver skrítin galdrakerling á einum fæti í engum kjól.“
Mynd: Vera Pálsdóttir
Ákveðið stjórnleysi Víða á veggjum má finna stutt skilaboð sem Elísabet hefur skrifað til sjálfrar sín. Hún segist oft fá þörf til að koma hugsunum sínum frá sér, en þær komist ekki alltaf fyrir í bók. Þá er gott að eiga laust pláss á veggjunum. „Þetta er ákveðið stjórnleysi, sem er líka nauðsynlegt,“ útskýrir hún.
Mynd: Vera Pálsdóttir
GullfossÞetta skilti, merkt Gullfossi, er í miklu uppáhaldi hjá Elísabetu en það fann hún falið og rykfallið á vinnustofu sem hún fékk afnot af um tíma.
Mynd: Vera Pálsdóttir
„Þetta er töfrahús,“ segir Elísabet á meðan hún hellir upp á kaffi fyrir gestina og notar til þess hraðsuðuketil og pressukönnu. Hún útskýrir orð sín og segir krakkana í hverfinu gjarnan kalla þetta Töfrahúsið, sem ræðst væntanlega af töfraþráhyggju húsráðanda. Stíll heimilisins er að sögn Elísabetar svokallaður sagnastíll. Hún hefur unun af því að breyta og endurraða og í hvert skipti sem hlutirnir fá nýjan stað verður til ný saga.
Athugasemdir