Lakagígar „Lakagígar eru stórkostlegt náttúruundur. Sögusvið náttúruhamfara sem nærri þurrkuðu íslenska þjóð út og langvinn áhrif þeirra breyttu gangi sögunnar á heimsvísu. Holl áminning um kraft og eyðingarmátt náttúrunnar.“ - Páll Ásgeir Ásgeirsson Mynd: Páll Ásgeir
Hesteyri „Hornstrandir og Jökulfirðir eru staðir sem færa mann aftur í tímann. Sumarið kemur á spretthlaupi eftir að snjóa leysir og blómin og gróðurinn sprettur upp jafnharðan og snjóskaflarnir hverfa. Sumarið er stutt en algerlega einstakt. Það er erfitt að benda á einn stað, en Hesteyri hefur eitthvað sem erfitt er að lýsa. Þetta er dásamlegur staður og nauðsynlegt að lesa um fólkið sem bjó þar og hvernig lífið var allt þar til búsetu var hætt til að skynja allar hliðar á staðnum.“- Einar Skúlason Mynd: Einar Skúlason
Hrolleifsborg „Hrolleifsborg í Drangajökli er eitt af tignarlegustu bæjarfjöllum landsins. Í baksýn er Reykjarfjörður, bestur áfangastaða á Hornströndum. Þegar maður morrar þar í sjóðheitri laug og horfir til Hrolleifsborgar eftir að hafa staðið á toppi hennar upplifir maður djúpa vellíðan sem erfitt er að kalla fram með öðrum hætti.“ - Páll Ásgeir Ásgeirsson Mynd: Páll Ásgeir
Krossneslaugin „Það er magnað að vera á Vestfjörðum og fara þar um og staðirnir eru í tugatali sem eru ógleymanlegir. Rauðisandur og Látrabjarg, Arnarfjörðurinn allur eða Ísafjarðardjúpið. Þetta er allt saman stórkostlegt. Svo má ekki gleyma Ströndunum og má til dæmis nefna tilfinninguna að liggja í Krossneslauginni í Árneshreppi á Ströndum og horfa út yfir hafflötinn. Það er eins og að maður renni saman við sjóinn og þetta verður hver maður að upplifa að minnsta kosti einu sinni.“ - Einar Skúlason Mynd: Erik-Jan Vens/Flickr
Látrabjarg „Það ættu allir að fara að Látrabjargi í það minnsta einu sinni á ævinni. Þetta er stærsta sjávarbjarg Íslands og Evrópu og það er hrikalegt að ganga með því, horfa yfir hafið og sjá fuglana í björgunum. Algerlega ógleymanleg upplifun. Svo er líka auðvelt að komast þangað með alla fjölskylduna og nýta tækifærið í leiðinni til að koma við á Rauðasandi, Hænuvík og fleiri fallegum stöðum á sunnanverðum Vestfjörðum.“ - Lára Ómarsdóttir Mynd: Shutterstock
Herðubreið „Í þrígang hef ég reynt við drottninguna. Og þrisvar hefur hún hafnað mér. Hið fyrsta sinni huldi hún sig slæðum þoku og hríms og gaf þar með engin færi á sér. Annað sinnið gerði slíkar rigningar um hana alla að tæpt var uppgöngu sakir leysinga. Þriðja skiptið var langsamlega líklegast og hvorki veður né vindar virtust getað hindrað þá helgu för ... nema náttúrlega eldgos og aflokun svæðis af sjálfum Almannavörnum ríkisins sem hlýða ber hiklaust.“ - Sigmundur Ernir Rúnarsson Mynd: Shutterstock
Skráðu þig inn til að lesa
Þú færð tvær fríar áskriftargreinar í mánuði. Þú hefur síðan val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði, frá aðeins
3.990 krónum á mánuði.
Athugasemdir