Við erum ekki að reyna að vera stærsta eða merkilegasta sjónvarpsstöð í heimi. Við erum að gera það sem við kunnum þokkalega og erum með báða fætur á jörðinni. Ég get ekki annað en verið ánægður. Við náum vel til fólks og erum sterk í hópnum 30 ára og eldri á Reykjavíkursvæðinu. Yfir 20 prósent af þessum hópi fer reglulega inn á Hringbraut. Við finnum fyrir miklum hlýhug og stuðningi með þetta nýja sjónvarp okkar sem gengur út á að vera fræðandi talmálssjónvarp,“ segir Sigmundur Ernir sem lagði út í óvissuna fyrir rúmlega ári þegar hann stofnaði sjónvarpsstöðina Hringbraut ásamt félögum sínum. Hann og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landsbjargar, standa í stafni en stöðin er að langmestu leyti í eigu starfsmanna. Og það ganga allir í þau verk sem til falla.
„Við skiptum með okkur öllum verkum. Stundum tek ég að mér að svara í símann. Á fimmtudögum skúra ég vinnustaðinn með félögum mínum. Saman göngum við í að skipta um leikmynd og gera það sem þarf,“ segir Sigmundur.
Góðar viðtökur
Stöðin hefur fengið góðar viðtökur og þykir vera fagmannleg í hvívetna. Útsendingin er í háskerpu en sökum þess að hluti fólks nær ekki þeirri útsendingu var gripið til þess að senda einnig út á lægri tíðni.
Sjónvarpsstjórinn, Sigmundur Ernir, hefur áratugareynslu af sjónvarpi. Hann hefir unnið fyrir allar stóru stöðvarnar, Ríkisútvarpið. Stöð 2 og Skjáeinn og jafnan vakið athygli fyrir þætti sína.
Það þykir nokkuð djarft að stofna sjónvarpsstöð í dag. Sporin ættu að hræða. Menn hafa misst fótanna í slíkum rekstri á örskömmum tíma. Þar er nærtækt að minnast sjónvarpsstöðvarinnar Miklagarðs sem hélt út í örfáa mánuði og sigldi í strand. Sama gerðist með ÍSTV sem lognaðist út af eftir stuttan líftíma. Sigmundur segist ekkert óttast í þeim efnum á meðan fyrirtækinu sé stjórnað af skynsemi. Hann segir stofnkostnað við Hringbraut einungis vera brot af því sem gerðist þegar Stöð 2 var stofnuð.
„Útsendingartækin, sem við leigjum af tæknistjóranum okkar, kosta aðeins 15 milljónir króna. Til samanburðar þá kostuðu slík tæki hundruð milljóna þegar Stöð 2 var að hefja göngu sína. Við erum í litlu húsnæði þar sem hver fermetri er nýttur. Það er þröngt um okkur en við erum sátt og fólki líður vel. Við erum þegar komin upp í að vera með tvo tíma af nýju efni á dag, sem er umfram áætlun,“ segir hann.
Athugasemdir