Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Hjarta mitt er í molum þessa dagana. Saklaust barn sem hefur ekki beðið um neina athygli eða umfjöllun á nokkurn hátt er allt í einu í sviðsljósinu. Barn sem þurfti að horfa upp á gróft ofbeldi fyrir fáum árum og er eflaust enn að súpa seyðið af afleiðingum þess. Barn sem ætti að vera hamingjusamt og áhyggjulaust meðal jafninga, þarf allt í einu að sitja undir gegndarlausu ofbeldi af hálfu fullorðins fólks sem ætti að bera hag þess fyrir brjósti sér. Af hálfu fjölmiðla sem eru með gjörðum sínum að brjóta gegn grundvallarreglum Barnasáttmálans.

 

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig foreldrar geta sett barnið sitt í þá stöðu sem þetta umrædda barn er í. Að faðir og stjúpmóðir setji sjálf sig í fyrsta sæti og hafi geð í sér að ýta hagsmunum barnsins aftur fyrir sig. Hvurslags fólk gerir slíkt? Þarna er svo sannarlega ekki verið að hugsa um barnið. Það sér það hver vitiborin manneskja. Ég veit ekki hvað gerðist þar sem ég var ekki á staðnum en mitt hjarta fylgir þeirri þumalputtareglu að trúa börnum. Ef börn segja að það hafi ofbeldi átt sér stað þá er ekkert sem fær mig til að trúa öðru. Ekkert. Mér er líka alveg sama hvað gerðist þennan örlagaríka dag sumarið 2016, því það er ekkert sem ég get gert í því og ekki á mínu valdsviði. En mér er aldrei sama um börn og hvernig þau eru meðhöndluð. Ill meðferð á börnum er ávallt það sem gerir mig hvað mest reiða og hér er ég að horfa upp á foreldra fara illa með barnið sitt. Það gerir mig fjúkandi illa.

 

Það sem gerir mig ekki minna illa er að fjölmiðill tekur sér það vald að fjalla einhliða um upplifun fullorðinna einstaklinga sem eru jafnt í geðshræringu sem og sárum. Fólks sem af veikum mætti reynir að klóra yfir misgjörðir og rétta sinn hlut. Fólks sem er að reyna að hefna einhvers sem því finnst hafa verið gert á þess hlut. Þessar fullorðnu manneskjur eru veikar á þessum tímapunkti og ætti frekar að fá aðstoð við að vinna úr sínum sárum; í stað þess að fá leiksviðið og fara með leiksigur í hádramatíska leikþættinum Hand-bendi djöfulsins. Nú er Stöð 2 að fara á sama lága planið og DV hefur verið á árum saman ásamt Kvennablaðinu, sem gárungar jafnan kalla Kvenhatursblaðið. Stöð 2 hefur drullað upp á bak á örfáum klukkustundum. Gert laglega í brók og á ekki afturkvæmt meðal stórs hluta þjóðarinnar. Í ofanálag stillti þessi fjölmiðill brotaþolanum, móður barnsins, upp við vegg og reyndu að draga hana inn í þennan lélega leikþátt sinn. Sú kona, sem ég kann ekki deili á, sá sóma sinn í að baða sig ekki upp úr lágkúrunni. Það er augljóst að hún valdi að setja barnið í fyrsta sæti. Annað en faðir barnsins. 

 

Ég get ekki skilið hvernig einhver getur hugsað sér að gera barninu sínu þetta. Ég fæ stjarnfræðilegt mammviskubit ef mér tekst að gera börnin mín leið á einhvern hátt yfir litlum gjörðum. En að velja það að skaða barnið eins og Herra Hand og frú eru að gera, er mér fyrirmunað að skilja. Hvað er eiginlega að fólki? 

 

Ég hef tekið þá ákvörðun að horfa ekki aftur á Stöð 2 og er þess fullviss um að margir aðrir taki þá ákvörðun líka. #SkammStöð2

 

Tár úr augum, tár úr iðrum sálar

safnast saman í drullupolli hjartans.

Svöðusár og svikamylla,

vondir dagar,

já vondir dagar.

Meðan barn þjáist,

þjáist heimsins hjarta. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni