Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þurfum við aðra öld af mannvonsku?

Þurfum við aðra öld af mannvonsku?

Nauðungaflutningar eru ekki ný hugmynd. Í gegnum aldirnar hafa tugir milljóna verið flutt nauðug milli landa eða landshluta. Oftast er fólk flutt nauðugt sem hluti af áætlun valdhafa um fullkomnun samfélagsgerðar, eða þjóðernishreinsunar.
 
Þótt hægt sé að fara langt aftur í aldir, þá er kannski nóg að taka tuttugastu öldina fyrir, enda einkenndist hún af einstakri grimmd gagnvart minnihlutahópum. 
 
Tyrkir stóðu fyrir þjóðarmorði á Armenum í kringum 1909, þar sem þeir drápu á halfa aðra milljon Armena, en Armenar voru jafnframt fluttir nauðugir til þess lands sem nú heitir Armenía, sem er töluvert austar en hin sögulega Armenía. Í balkanstríðunum 1912-1913 voru tugþúsundir múslima gerðir brottrækir úr Evrópu, aðallega til Tyrklands. Eftir stríð Grikklands og Tyrklands 1921-1922 voru um tvær milljónir manns flutt nauðug milli landshluta til að samræmast nýju landamærunum.
 
Nauðungaflutningar í Þýskalandi í aðdraganda seinni heimstyrjaldar, og meðan á styrjöldinni stóð, voru umtalsverðar: hundruðir þúsunda fluttir í vinnubúðir eða til aftöku, meðan ýmsir minnihlutahópar voru neyddir til að flytjast búferlum -- ekki bara gyðingar, heldur einnig Sinti og Roma fólk, og aðrir sögulegir ættbálkar Evrópu sem eru meira eða minna útdauðir nú. Allt var þetta réttlætt sem hluti af stórri áætlun um hreinræktað ríki.
 
Sóvétríkin voru engu skárri: minnihlutahópar í Sóvétunum, meðal annars Pólverjar, Kákasusbúar, Þjóðverjar og Baltar, voru neyddir til að flytja frá sínum sögulegu héröðum um alla Evrópu til ýmissa staða í mið-Asíu. Enginn þessarra hópa kom þó jafn illa út úr nauðungarflutningunum og Tatararnir, sem voru neyddir burt af Krímsskaga á valdatíð Leníns, sem vildi tryggja rússnesk áhrif á skaganum. Tatarar finnast í dag aðallega í Kazakstan.
 
Seinni hluti 20. aldar var ekki mikið skárri: Ungverjar, Tékkar, Slóvakar og aðrir gengu í gegnum nauðungaflutninga á ýmsum tímum fyrir fall járntjaldsins. Stríðin í fyrrum Júgóslavíu enduðu með því að þjóðernislega blönduðu löndin Serbía og Króatía urðu mestmegnis "hreinræktuð", meðan suðupotturinn Bosnía og Hertzegovína varð eftir með eitt ruglingslegasta stjórnkerfi sem fyrirfinnst, til að reyna að koma í veg fyrir frekari þjóðarmorð og nauðungarflutninga. Þjóðarmorðin á Kósóvó-Albönum í kringum lok 20. aldar, og nauðungaflutningar Albana, Rómafólks, og Múslima á svæðinu, var eins og til að setja punkt við heila öld af óviðjafnanlegri mannvonnsku.
 
--
 
Rafn Einarsson, fulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts, er nasisti. Hann lagði til, af fullri alvöru, að um hálft prósent Íslendinga sé flutt nauðungarflutningum, og sé látið mæta örlögum sínum í landi sem er þekkt fyrir óbilgjarnt harðræði.
 
Ég kalla fólk ekki nasista af léttúð, en það er ekki hlaupið að því að finna meira viðeigandi stimpil til að setja á mann sem telur þjóðerni sitt svo mikilvægt, að hægt sé að réttlæta táraslóð þeirra sem falla ekki að hugmyndum sínum um samfélagsgerð, þvert yfir gjörvalla Evrópu. Nasismi er auðvitað ónýtt hugtak, sem er notað af svo mikilli léttúð í ofsafengnum upphrópunum að það virkar varla lengur. En merkingin er einföld, í þessu samhengi: alræðiskennd þjóðernishyggja sem lýsist af mannfyrirlitningu, valdhroka, og boðhyggju.
 
Eins og Evrópa hafi ekki séð nógu andskoti mikið af villimennsku nú þegar.
 
Það er full ástæða til að íhuga hvað drífur áfram mann sem hugsar á þennan hátt. Svarið kann að leynast í rannsóknum Alberts Bandura um það sem hefur verið kallað "Social Learning Theory". Bandura fullyrðir að það sé tvennt sem gerir fólk aggressíft gagnvart öðrum hópum. Annars vegar er einhverskonar reiði eða öfund, sem blossar jafnvel upp af góðri ástæðu. En það dugar ekki eitt og sér. Hinn þátturinn er að manneskjan nær að vinna bug á þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir aggressífri hegðun, svo sem siðferði eða ótta við afleiðingar.
 
Ég veit ekki hvað gerðist í lífi þeirra sem þjást af þessari svakalegu hræðslu gagnvart múslimum og öðrum útlendingum á Íslandi, sem olli því að það sé svona grimmilegt, en ég tel mig vita hvað það var sem ruddi hindrununum úr vegi.
 
Á undanförnum árum hefur það gerst um gjörvalla Evrópu, að sterkir, sannfærandi einstaklingar hafa stigið fram á sjónarsviðið og reifað hugmyndir sínar um eðli þeirra vandamála sem hin ýmsu Evrópsku samfélög standa frammi fyrir. Þessir einstaklingar hafa skapað umhverfi þar sem það þykir orðið sjálfsagt að viðra reiði gagnvart minnihlutahópum.
 
Stjórnmálagreiningin er nokkuð einföld: eitthvað er að hagkerfinu, eitthvað er að samfélaginu, lífið er erfiðara en einhverntíman áður. Hvað hefur breyst? Jú, það eru fleiri innflytjendur núna en áður. Auðvitað hlýtur þetta allt að vera þeim að kenna.
 
Þessi greining er ekki bara einföld, hún er einfeldingsleg. Það er auðvelt fyrir fólk sem hugsar ekki lengra að láta glepjast af svona röksemdafærslu. Þessi skýring leiðir fólk burt frá því að spyrja sig hver sé meiri byrði á samfélaginu, auðmenn sem borga sér himinhá laun og enn hærri arð meðan þeir halda launum verkafólks og annarra niðri, nota völd sín til að gelda velferðarkerfið, og hóta öllu illu ef þeirra alræði er ógnað -- eða þá innflytjandinn sem vinnur hörðum höndum á lágmarkslaunum við að bæta lífsgæði allra?
 
Þeir sem samþykkja rök valdhyggjumanna, og reiðast svo mjög þeim sem eru ólíkir sér, hafa sterka tilhneygingu til að hlusta á þessa sterku, sannfærandi stjórnmálaleiðtoga á borð við Nigel Farage, Marine Le Pen, Viktor Orban, Geert Wilders og Jimmie Åkesson. Þeir eru líklegari en aðrir til að styðja harðar refsingar fyrir glæpi, vera hlynnt stórfelldum inngripum í borgararéttindi, og takmörkunum á mannréttindum. Þau sætta sig miklu frekar við valdbeitingu, svo lengi sem þeir sjá hana sem lögmæta.
 
--
 
Múslimar eru ekki vandamál, á Íslandi. Múslimar eru hvergi vandamál. Hvergi.
 
Rafn Einarsson er vandamálið, á Íslandi. Rafn Einarsson er allsstaðar vandamálið. Ekki hann persónulega auðvitað, heldur fólk sem hefur nákvæmlega sömu skoðun og hann, nema kannski gagnvart einhverjum öðrum. Múslimar sem hafa sömu skoðanir og Rafn eru eitt stærsta vandamál samtímans. Þeir eru fáir, en það er mikilvægt að við skiljum öll að ISIS eru samtök skoðanabræðra Rafns, nema með önnur fórnarlömb í sigtinu. 
 
Fleiri skoðanabræður er hægt að finna í Jobbik, og í Front National, og í Sverigedemokraterna. Einnig í Obraz, í Falange, í Freiheitliche Partei Österreichs og í Partij voor Vrijheit. Svo auðvitað Framsóknarflokknum.
 
Vegna þess hvað svona hugsun hefur fengið mikinn byr undir vængina hafa sífellt fleiri ákveðið að fara í þá vegferð, að gefa þjóðernishyggjuna undir fótinn. Í bresku þingkosningunum 7. maí næstkomandi eru báðir stærstu flokkarnir, Ihaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, búnir að tala gegn minnihlutahópum af furðulegri heift í von um að vinna fylgi hatursfullra öfgamanna.
 
Allt of oft hefur þessi litli hópur öfgakenndra þjóðernissinna komist upp með að eyðileggja heiminn fyrir okkur öllum. Umræðan um alla Evrópu í dag er á nákvæmlega sama stað og hún var árið 1938, og satt að segja er ég ekkert rosalega spenntur fyrir því að sjá hvað næsta ár ber í skauti sér.
 
Stóra spurningin er hvort 21. öld þurfi líka að vera öld nauðungaflutninga, eða hvort við séum tilbúin, sem samfélag, til að hætta þessu rugli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu