Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stærsta verðmætatilfærsla allra tíma

Ein stærsta lygi síðustu fjörtíu ára er sú að skattar hafi lækkað undir stjórn hægri íhaldsflokka, hvort sem það er í Evrópu eða annarsstaðar í heiminum. Þeirri lygi hefur verið haldið svo ákaft á lofti, af fylgismönnum Reagans, fylgismönnum Thatchers, áhangendum Davíðs Oddssonar, og fólks hvaðanæfa úr nýfrjálshyggjuskólanum, að jafnvel skynsamt fólk er farið að trúa þessu eins og hverri annarri biblíusögu.

Það flóknasta við að hnekkja þessu er að það er gríðarlega auðvelt að breyta skynsamri umræðu í samhengislausa talnaleikfimi. Fyrir mánuði síðan fengu tillögur Pírata yfir sig mikla drullu frá Brynjari Níelssyni, sem líkti hugmyndunum við aðgerðir Hugo Chavez heitins í Venezuela. Þekkt er aðferð pólitíkusa að gagnrýna án þess að hafa kynnt sér eða lesið efnið og líklega er það svoleiðis í þessu tilfelli. Þó er vert að athuga að sumar hverjar eru tillögurnnar fengnar frá frjálslynda armi Sjálfstæðisflokksins, en náðu ekki fram að ganga þar. Umræddar hugmyndir snúast mestmegnis um markaðsvæðingu ákveðinna kerfa og lýðræðisvæðingu annarra, með það fyrir augum að draga úr spillingu, auka samkeppni, og gera skattbyrðina réttlátari.

En skoðum þetta í alþjóðlegu samhengi.

Frægt er orðið að auðmaðurinn Warren Buffett hafi kannað skatthlutfallið meðal starfsfólksins síns, og komist að því að hann borgaði hlutfallslega minni skatt en allir á skrifstofunni sinni. Jafnvel ritarinn hans borgaði hærri skattprósentu.

Það væri rangt að álykta að þetta sé slys. Frá 1950 hafa skattar á ríkasta fólkinu í heiminum minnkað um nærri helming. Í Bandaríkjunum borgaði auðugasta 0.1% landsmanna 60% af tekjum sínum árið 1960, en aðeins um 33% árið 2007 að jafnaði. En skatttekjur hafa ekki minnkað í Bandaríkjunum frá þessum tíma, þegar leiðrétt er fyrir verðbólgu. Í staðinn hafa breið bök millistéttarinnar og verkamanna tekið á sig þetta aukalega skattafargan, sem hljóðaði upp á $281 milljarð dollara árið 2007, sem nemur um 9% hærri skatta á lægst launuðu einstaklinganna yfir sama tímabil.

Svipaða sögu er að segja annarsstaðar í heiminum. Fjármagnstekjuskattur hefur einkum lækkað á vesturlöndum, meðan virðisaukaskattur hefur hækkað. Skattþrepum hefur verið breytt, oft er þeim fækkað, og þá tala menn eins og Bjarni Benediktsson gerði í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga um "einföldun" á skattakerfinu, eins og það sé á einhvern hátt flókið fyrir tölvur Ríkisskattstjóra að finna út úr einfaldri samlagningu og margföldun. "Einföldunin" er þessi: ríkt fólk borgar hlutfallslega minna. Svo einfalt er það.

En raunar eru lækkaðir skattar auðmanna ekki nema brot af ástæðunni fyrir auknum ójöfnuði í heiminum. Stærsta ástæðan er skattaskjól, en þangað hverfa gríðarleg verðmæti án skattlagningar. Stuðningsmenn skattaskjóla vilja meina að þau séu jákvæð á ýmsa vegu, og tala þá ýmist um að skattar séu þjófnaður eða að skattaskjól geri efnahagskerfi heimsins skilvirkari.

Hvort skattar séu þjófnaður er heimspekileg spurning sem ekki á við að ræða hér, en ef skattar eru þjófnaður, þá er það líka þjófnaður að nota vegakerfið, heilbrigðiskerfið, og öll önnur kerfi sem borgað er fyrir með skatttekjum. Þannig að ef skattheimta er þjófnaður þá geta flestir landsmenn talist meðsekir. 

Fullyrðingar um skilvirkni eru einfaldlega rangar. Þegar bananar eru framleiddir í mið-Ameríku og seldir í verslunum hér, þá eru þeir ekki fleiri, ódýrari, eða bragðbetri þótt hagnaðurinn hafi horfið ofan í skattaskjól. Sömuleiðis er ekki nein efnahagsleg skilvirkni fólgin í því að Bjarni Benediktsson hafi átt fyrirtæki á Seychelles eyjum sem hafði það hlutverk að braska með fasteignir í Dubai. Í því felst skattaleg skilvirkni í því formi að Bjarni og félagar hans hafi ekki þurft að borga skatta, en ekkert annað.

Skattaskjólum má skipta upp í nokkra flokka. Fyrst eru hin eiginlegu skattaskjól, þar sem skattar eru lágir eða engir. Cayman eyjar og Bresku Jómfrúareyjar eru þar frægastar, en ýmis önnur lönd gegna svipuðu hlutverki. Svo eru leyndarskjólin, á borð við Belize, Sviss og Lúxemborg: staðir sem losa fólk ekki undan sköttum, en fela raunverulegt eignarhald. Svo eru gegnumflæðisskjól eins og Bahama eyjar, Liechtenstein, Holland og Mauritius. Öll veita þau mismunandi tegundir af þjónustu, fyrir mismunandi verð, til ólíka aðila sem sitthvað hafa að fela.

Í dag er áætlað að um 420 þúsund milljarðar króna séu falin í skattaskjólum víða um heim, eða um 60 þúsund krónur fyrir hvern jarðarbúa. 60 þúsund krónur eru tvöföld árslaun hjá tæplega þriðjungi mannkyns.

Það sem er sláandi er hversu hratt þessi tala hefur hækkað. Árið 2012 var áætlað að upphæðin væri um $32 þúsund milljarðar dollarar; árið 2008 var hún áætluð $27 þúsund milljarðar; $11.5 þúsund milljarðar 2005. Eitt íhaldsamasta matið kemur frá Gabriel Zucman, sem segir að það séu um $7.6 þúsundir milljarða dollara í skattaskjólum, sem er um 8% af vergri ársframleiðslu heimsins. Eitt hæsta matið er að um 14% af heildarauði heimsins sé í skattaskjólum í augnablikinu. En þar sem gagnsæi skattaskjóla er ekkert er flest bara gisk út í loftið.

Misskiptingin fer líka eftir því hvert er litið. Heildarmagn auðs sem er í skattaskjólum er metið á 22% í suður- og mið-Ameríku, 30% í Afríku, og rúmlega 50% í Rússlandi. Það er að segja: af hverjum tveim skildingum í rússneskri eigu er einn í skattaskjóli.

Meðan peningarnir eru að flæða út úr þróunarlöndum og ofan í vasa alþjóðlegra auðmanna, skattfrjálst, er þróunaraðstoð að flæða inn í þróunarlöndin. Vesturlönd senda milljarða króna á ári til þróunarlanda til að byggja upp innviði, en hundruð milljarða flæða frá þróunarlöndunum til vesturlanda á móti, en stoppa í skattaskjólunum.

Við erum að horfa upp á stærstu verðmætatilfærslu allra tíma. Í það minnsta, þá stærstu frá því þegar spænsku Conquistadores blóðmjólkuðu Suður-Ameríku meðan Evrópulönd byggðu upp nýlendur og þríhyrningsverslun stóð sem hæst. En nútíma skuldaþrælahald er engu mannúðlegara: skattaundanskot breskra auðmanna nær þrefaldri þróunaraðstoð Bretlands á hverju ári, samkvæmt bandaríska skattatímaritinu TaxAnalysis, og svipaðar tölur má sjá víða um heim.

Stærsta vandamál samtímans er efnahagslegur ójöfnuður. Ekkert einstakt vandamál er stærra að umfangi og ekkert vandamál er rót jafn margra annarra vandamála.

Tugir milljóna deyja árlega úr fátæktartengdum sjúkdómum: Öndunarfærasjúkdómar sem koma til af því að fólk brennir rusl sem eldsneyti til húshitunar og matseldar, læknanlegir sjúkdómar á borð við lömunarveiki, malaríu og krónískan niðurgang, ofþornun, kuldi, hiti, og hreinlega matarskortur -- svo ekki sé talað um þann heila kapítula út af fyrir sig sem stríð og pólitískur óstöðugleiki eru.

Það er erfitt fyrir okkur að ímynda sér hvernig það er að deyja úr niðurgangi, hugsanlega vitandi að ef þú hefðir 20% hærri tekjur gætirðu hafa keypt nóg eldsneyti til að geta soðið vatnið þitt og vitandi að í næsta héraði eða handan við nálæg landamæri fær fólk þessi sjálfsögðu mannréttindi til lífsviðurværis.

Þegar upp er staðið er heimsmyndin nákvæmlega þessi: Tiltölulega fáir í heiminum eru viðbjóðslega ríkir, og flestir aðrir eru fátækir á einn eða annan hátt. Fátækt á Íslandi er sjaldan beinlínis lífshættuleg, en hún er engu að síður alvarleg og hefur ýmsar óbeinar neikvæðar afleiðingar sem birtast í ýmsum samfélagslegum vandamálum. Það er ótrúlegt að það skuli yfir höfuð vera fátækt á Íslandi, í einu alríkasta landi heims, er til marks um að verulega mikið sé að hagkerfinu okkar. Fátækt á heimsvísu er stórkostlegt vandamál.

Hér eru góðu fréttirnar: það eru til lausnir við þessum vandamálum.

Það þarf ekki neina töfrahagfræði til að takast á við mismunandi þætti alþjóðlegrar fátæktar. Þvert á móti þarf að segja skilið við vúdúhagfræðina sem kennd er við Reagan, Thatcher, og hér á landi við Davíð. Það er löngu orðið öllum ljóst sem ekki eru blindaðir af falsrökum nýfrjálshyggjunnar að það bætir ekki samfélagið að hola út ríkið, færa skattbyrðina fyrst og fremst yfir á þá lægst launuðu, og einkavæða allt ofan í vasa örfárra auðmanna. Til að segja skilið við þá vúdúhagfræði þarf að breyta lögum, koma upp nýjum kerfum, breyta áherslum ríkisstofnana eða jafnvel fækka þeim. 

Ljúkum þessu í bili með einni athugasemd: Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að kenna Sjálfstæðisflokknum um alla fátækt heims, en ég ætla að fullyrða hér og nú að sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið, í það minnsta frá Davíðstímanum, hefur verið stærsti drifkraftur ójöfnuðar á Íslandi, og endurspeglar fullkomnlega sambærilegar stefnur erlendis sem hafa með beinum eða óbeinum hætti orðið tugum eða hundruðum milljóna manna að bana. Það er rétt að Ísland hafi orðið umtalsvert ríkara land á þessum tíma, en það er algjörlega óljóst hvort að það sé eitthvað sem hefði ekki gerst hvort eð er með aukinni alþjóðavæðingu og aukinni menntun. Einnig er alfarið óljóst hvort meðal-Íslendingur hafi komið vel út úr því, umfram þá almennu lífsgæðaaukningu sem varð í heiminum yfir sama tímabil. Það sem er ljóst er að í mörgum miklu fátækari löndum er lágmarks framfærslukostnaður lægra hlutfall af meðaltekjum en á Íslandi.

Óháð öllu öðru er algjört grundvallaratriði fyrir Ísland að fólk fari að líta á allt sem menn eins og Bjarni Benediktsson og Brynjar Níelsson segja sem uppskrift að því hvað eigi alls ekki að gera undir neinum kringumstæðum. Gagnrýni Brynjars á þær stefnur sem Píratar hafa lagt fram er góður byrjunarreitur. Hann gagnrýnir án nokkurra raka, fullkomnlega ómálefnalega, og hugsanlega án þess að skilja hvað hann er að tala um. Hans von er að fólk láti glepjast af sömu fölsku hugmyndum og eru á góðri leið með að setja almenning á hausinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu