Siðferðisleg fátækt
Aftur er Biskup Íslands komin í fréttirnar fyrir að sýna að siðaskiptin eigi ekki endilega við um Þjóðkirkjuna undir hennar stjórn. Nú leitast hún ekki bara við að sverja af sér launahækkun sem hún bað sjálf um, á þeim forsendum að það sé embættið, en ekki hún sjálf, sem hlýtur launin, heldur réttlætir hún hana með tilvísun til leiguverðs á biskupssetrinu, tæplega 500 fermetra höll í miðborg Reykjavíkur sem kostar hana tæplega 90 þúsund krónur á mánuði. Það er smá Loðvík XIV fílingur yfir þessu öllu: “l'évêché, ce n'est pas moi.”
Breytingar á kjörum ráðamanna í samfélaginu eru aldrei óumdeildar. Það svíður enn mörgum sú hækkun sem Kjararáð fyrirskipaði á launum þingmanna og ráðherra, á skjön við þá grein laga sem segir að launin eigi að fylgja almennri launaþróun. Svona hækkanir eru ekki sjálfsagðar því þær eru sem blaut tuska í andlitið á fólki sem nær varla endum saman. Óttinn við að þessar hækkanir leiði af sér kjaradeilur er því á mjög góðum rökum reistur.
Réttlæti er vandfengið. Það efast held ég enginn um að yfirmaður ríkiskirkjunnar vinni mikið, og eflaust á hún jafn mikinn rétt á sinni persónulegu kjarabaráttu og aðrir. En vandinn er að hún er í hlutverki þar sem gerð er krafa um mun hærri siðferðislegan staðal en gengur og gerist ─ og sá staðall er alveg með ólíkindum vel skjalfestur í ritningunum sem Þjóðkirkjan boðar sem heilagan sannleika.
Ef hækkun biskups er svo skoðuð í samhengi við launakjör almennra presta Þjóðkirkjunnar er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að Þjóðkirkjan hefur almennt vikið frá kennisetningum Biblíunnar hvað kristilegt lítillæti varðar, og jafnvel helstu hugmyndum kristinna guðspekinga undanfarnar aldir hvað varðar hlutverk auðs og velmegunar á jarðríki. Í Lúkasarguðspjalli segir: “Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki”. Það segir hvergi í sömu ritningu “en ef þér fáið fimmföld lágmarkslaun þá eruð þér samt bara nett á því, rokkið þér áfram, amen!”
Viðleitnin er mjög misjöfn í ritningunum, og í gegnum aldirnar síðan þá. Jesús var til að mynda afar skýr í fordæmingu sinni á auðsöfnun, en varar jafnframt við því að auður geti hreinlega komið í veg fyrir samneyti fólks við almættið. Í Markúsi er rakin saga af auðmanni sem kemur til Jesúsar og spyr hvað hann þurfi að gera til að lifa að eilífu. Jesús rifjar upp boðorðin, og bætir svo við: “Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni.”
Nú, eða það sem Tímóteus segir: “Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.”
Og svo framvegis; það er af nógu að taka. Skilaboð Biblíunnar eru auðvitað fyrst og fremst bronsaldarmarxismi. En eins og góðum Marxisma sæmir þá er ekki nóg að vera öreigi til að öðlast alræðið, heldur er gerð krafa um þrotlausa vinnu. Það er mér ekki augljóst hvort markmið verkanna sé að skila einhverjum tilteknum árangri, eða bara að sýnast, en mér sýnist þó skipta meira máli að sýna einhverskonar gott fordæmi.
Nýja Testamentið fer þannig mjög ítarlega yfir samspil trúar og verka. Í Jesajabréfinu er fjallað sérstaklega um mikilvægi þess að sýna fram á trú með verkum sínum. “Eins er líka trúin ein og sér dauð vanti hana verkin,” segir Jesaja í bréfi sínu, að vísu rétt áður en hann dettur af siðferðislegum háa hesti sínum og byrjar að röfla um skækjur og réttlæta barnamorð. Kristni er svo skrýtin stundum.
Allir helstu siðspekingarnir sem hafa fylgt hafa komist að svipuðum niðurstöðum. Ég ætla ekki að rifja upp marga fleiri, þótt það sé alltaf gaman að vitna í hinn brjálæðislega afkastasama Martein Lúther til dæmis. En tvær pælingar í viðbót:
Tómas Aquinas synti á móti straumnum miðað við Marxisma biblíunnar, með því að segja að það er ekkert að því að eiga smávegis af peningalegum auði. Þessu er ég sammála. Það er í sjálfu sér ekkert að því að fólk sé ríkt, en það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig fólk varð ríkt, á hvaða forsendum, og á hvers kostnað. Þar sem leiðir okkar Tómasar skilja er þar sem hann segir að tignborið fólk eigi rétt á meiri auði en sótsvartur almúginn og að fólk ætti ekki að leita í auð umfram sína stöðu í lífinu. Þessi hugmynd hans leiðir mig til að halda að hann hafi kannski auðgast á kostnað annarra, eins og svo margir tignbornir í gegnum tíðina ─ Landúlfur, faðir Tómasar, var raunar einhverskonar andlegur forfaðir Sikileysku mafíunnar.
Clement frá Alexandríu kom svo með gott innlegg í umræðuna um húsnæðisvandann. Hann lagði áherslu á að eignir væru notaðar í þágu samfélagsins. Nú er það þannig að Þjóðkirkjan á ekki bara risahöll fyrir Biskupinn, heldur fullt af mjög fallegum byggingum út um allt land. Maður spyr sig hvort ekki væri í anda Kristilegrar góðmennsku að bjóða tjaldbúum í Laugardalnum upp á aðeins hlýlegri vistarverur yfir vetrarmánuðina. En kannski er það til of mikils mælst.
Að endingu skiptir engu máli hve margar ritningar eru rifjaðar upp og hve marga siðferðisspekúlanta er vitnað í. Það er gaman og gagnlegt að rifja upp gamla siðfræði, en siðferði nútímans dugar: Meðan sumir búa við nauðþurft í samfélaginu okkar er siðferðislega óverjandi að svokallaðir andlegir leiðtogar hýrist um í glæsihöllum en kvarta undan launa- og starfskjörum sem flestir munu aldrei skaga upp í. Hver sem er getur grafið upp speki í bókum og röflað um hana úr pontu, en bæði kristið fólk og ókristið þarf að muna að það eru verkin sem tala, ekki orðin. Af ávöxtunum munið þið þekkja þá.
Athugasemdir