Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Forsetinn má ekki halda velli

Ég hef áður sagt að það sé bráðnauðsynlegt að einhver annar setjist í forsetastól. Ekki vegna þess að Ólafur hefur staðið sig illa, heldur vegna þess að hann hefur setið svo lengi að heil kynslóð er upp komin sem hefur aldrei þekkt neitt annað. Það er augljóst að þegar Ólafur Ragnar segist vilja ekki víkja af velli, þá skilur hann vel að þeim fer fækkandi sem vita hvernig völlurinn leit út áður en hann mætti.

Ég hef einnig skrifað um mikilvægi þess að fyrirkomulagi forsetakosninga sé breytt, til að tryggja að forseti sé valinn af meirihluta þjóðarinnar, en ekki bara þannig að hann fái flest atkvæði. Það er hrikalegt fyrirkomulag, sem er notað í dag. Það er augljóst að þegar Ólafur Ragnar segir að það sé þjóðarinnar að ákveða hvort annar frambjóðandi sé betri, þá skilur hann vel hversu ólíklegt það er að það gerist -- það er miklu auðveldara að velja að halda vellinum eins en að gróðursetja eitthvað nýtt.

Í dag ætla ég bara að minna á eitt: Frambjóðendur til forseta eru ansi margir. Flestir þeirra eru, satt að segja, ekki mjög sterkir kandídatar. Einkum tveir standa upp úr. Annar hefur talað um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár. Hinn hefur staðið fyrir ótal stórum breytingum á stjórnkerfi landsins á 20 ára starfstíð sinni með túlkun sinni á stjórnarskránni, en hefur alltaf virst standa í vegi fyrir formlegum breytingum á stjórnarskránni.

Komandi forsetakosningar snúast ekki lengur um hver skuli verða næsti forseti Íslands, heldur um hvort það muni nást að nútímavæða stjórnkerfi landsins. Völlurinn verður að taka breytingum. Forsetinn má ekki halda velli.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu