Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fátækt heimsins

Fátækt heimsins

Fátækt fer minnkandi á heimsvísu. Á undanförnum tuttugu árum hefur þeim sem búa við örbyggð fækkað verulega, þótt enn sé langt í land með að allt mannkyn hafi í sig og á. Helstu ástæðurnar fyrir minnkandi fátækt er vaxandi iðnvæðing þróunarlanda, einkum í Asíu og sumum hlutum Afríku; mikið af þeim iðnaði miðar inn á við, þótt alþjóðavæðing viðskipta skiptir líka miklu máli í þessu samhengi. Þetta er allt að koma -- en mjög hægt.

Ef mannkyninu er skipt upp í tíu hópa, frá tekjulægstu (1. tíund) til tekjuhæstu tíundar (10. tíund), má segja að fólkið í 2.-7. tíund hafi komið best út úr undanförnum áratugum. Sjötta tíundin, sem telur einkum til millistéttarinnar á Indlandi og í Kína, hefur náð að auka tekjur sínar um 160% (sjá Global Inequality e. Branko Milanović).

Þrátt fyrir þessi jákvæðu tíðindi er ástandið engu að síður alvarlegt af þrennum sökum. Neðsta tíundin hefur aukið tekjur sínar aðeins um 20% á sama tíma, sem þýðir að meðallaun eru enn undir 120 krónum á dag. Níunda tíundin -- þar sem flestir íslendingar eru, meðal annarra -- hefur staðið alfarið í stað. Efsta tíundin, og raunar efsta prósentið, hefur bætt um 60% við tekjur sínar. (ibid)

Auður heimsins fer vaxandi, og þeir sem eru núna að komast upp úr fátækt eru að fá hlutfallslega meira af nýjum auði en sögulega, þótt efsti hópurinn sé enn að græða miklu meira en allir aðrir samanlagt.

Þótt fleiri í heiminum lifi betra lífi en áður, þá fer hinum ofurríku fjölgandi, og það er á kostnað velferðar annarra. Tímaritið Forbes fór árið 1987 að halda skrá um alla milljarðamæringa heims (í dollurum talið), og voru þeir þá 145 talsins, með samanlagðan auð upp á $450 milljarða dollara. Árið 2013 voru þeir orðnir 1426 talsins, með samanlagðan auð upp á rúmlega $4500 milljarða dollara.

Í þessari tölu er ekki meðtalinn falinn auður, né þeir auðmenn sem ekki er almennt vitað um -- en til þeirra má líklega telja ýmsa aðila tengda einræðisherrum. Til dæmis má nefna að celloleikarann Sergei Roldugin, æskuvinur Vladimirs Putin, á í það minnsta $2.5 milljarða dollara sem faldir voru á Bresku-Jómfrúareyjum, en hann hefur ekki komist á lista hjá Forbes.

Þegar nánar var að gáð reyndist auður Roldugins, og fleiri vina Putins, vera að stóru leyti til kominn vegna einnar tilfærslu. Ríkisolíufélag Rússlands, Gazprom, átti bankann Gazenergoprombank (GEP) sem sameinaðist einkabankanum Bank Rossiya. GEP var metinn 27% verðmætari en Bank Rossiya, en Gazprom -- og þar með rússneska ríkið -- fékk aðeins 16% af hinum nýsameinaða banka, meðan hluthafar í Bank Rossiya fengu hin 84%.

Falda fjarsjóði í aflandseyjum er erfitt að tína til, en samkvæmt mati Tax Justice Network voru að minnsta kosti $32 þúsundir milljarða dollara faldir á aflandseyjum árið 2012. Meðal stórra einstakra aðila þar má nefna risafyrirtæki á borð við Apple, sem tilkynnti um $206 milljarða dollara í aflandssjóðum árið 2015. Samkvæmt Forbes eru um 730 mannverur sem eiga tvo milljarða eða meira. 

Auður heimsins er metinn af heimsbankanum á um það bil $241 þúsund milljarða dollara, sem þýðir að um 14% af fjárhagslegum auði heimsins er falinn á aflandseyjum. Restin skiptist milli stórfyrirtækja, þjóðríkja, auðmanna, og svo allra annarra. Síðasti hópurinn -- um það bil sjö milljarðar manna -- eru með meðaltekjur upp á $1480 dollara, eða 177.000 krónur á mánuði. Íslendingur á örorkubótum er því aðeins betur settur í krónufjölda en meðalmannvera, en ekki mikið. Þó á eftir að taka tillit til kaupmáttar og verðlags.

Ástæðan fyrir því að meðaltalið er svona hátt er að hæstu auðtölurnar er svo rosalegar. Meðan stór hluti mannkyns skrimtar á minna en 250 krónum á dag, þá lifir ríkasta fólkið á þvílíkum sjóðum að það er erfitt að ímynda sér það. 

Meirihluti heimsbyggðarinnar á sem sagt ekki mjög mikið, en örfáir aðilar eiga rosalega stóran hluta af auði heimsins. Mikill hluti af auði heimsins er falinn á bak við ógagnsætt fjármálakerfi, og stjórnmálakerfi heimsins hefur verið sniðið að þörfum þeirra sem hafa náð að sanka að sér þessum auðæfum. 

Það er nefnilega alfarið með ráðum gert að það er dýrt að vera fátækur. Skattar eru víðast bjagaðir til að þjóna hagsmunum örfárra. Brauðmolakenningin eða "trickle down economics" er ansi lífsseig mýta, ekki síst vegna þess að þeir sem oftast fara með völdin hafa beina hagsmuni af því að trúa henni.

Árið 2012 ákvað Kalíforníuríki að hækka skatta á auðmenn, og urðu ríkisskattarnir þá 13.3%, sem er það hæsta sem þekkist í Bandaríkjunum. Á svipuðum tíma lækkuðu skattar í Kansas, bæði á auðmenn en einnig almennur tekju- og söluskattur. Íhaldsmenn lýstu því þá strax yfir að Kalífornía væri á leiðinni til andskotans, en að Kansas yrði að gjöfulli útópíu. Þremur árum síðar kom hið þveröfuga í ljós: hagvöxtur var 4.1% í Kalíforníu árið 2015, og svipaður yfir tímabilið, á meðan hagvöxtur dróst svo mikið saman í Kansas að hann var neikvæður síðustu tvo ársfjórðunga 2015. (Sjá grein Washington Post um málið.) Þótt fylgni gefi ekki til kynna orsakasamhengi, þá endurspeglar þetta sambærilega upplifun víða annarsstaðar, og ýmis önnur gögn benda til þess að orsakasamhengi sé til staðar.

Það er ekki þar með sagt að skattar séu endilega æðislegir og að þá beri að hámarka, heldur einfaldlega að sú hugmyndafræði sem varð til þess að 14% af auðæfum heimsins enduðu í skattaskjólum hefur ekki hjálpað almenningi eins og lofað var. Hún hefur, þvert á móti, stórskaðað hag almennings bæði beint og óbeint.

Þessi hugmyndafræði liggur til grundvallar skrifum Viðskiptablaðsins, sem ákvað að nota opnu í nýjasta tölublaði til að skeggræða undir dulnefni hversu mikill bölvaður kommúnisti ég væri. Því  er haldið fram í greininni að ég hafi lesið yfir mig af Piketty, en það rétta er að ég er rétt hálfnaður með hans ágætu bók, Capital in the 21st Century. Ég get þó mælt með öðrum bókum á borð við Global Inequality eftir Branko Milanović starfsmanni alþjóðabankans og Taxing the Rich eftir Kennet Scheve og David Stasavage, sem er sögulegt ágrip af skattastefnu í Evrópu og Bandaríkjunum með tilliti til skattadreifingar.

Í grein Viðskiptablaðsins segir einnig: "Smári hefur ekki misst af fréttum síðustu mánaða, því auk misskiptingar auðs eru það blessuð skattaskjólin sem hann telur undirliggjandi ástæðu alls hins slæma í heiminum." Það hefur kannski farið framhjá þeim að ég vinn við rannsóknir á spillingu, þar með talið skattaskjólum.

Mér finnst eiginlega merkilegast við Viðskiptablaðið hvað þeir segjast ákaft vera frjálshyggjumenn, en eyða svo rosalega mörgum dálksentímetrum í hverjum mánuði í að styðja við ófrjálsa markaði sem er iðulega stjórnað af þeim einræðisherrum, þjófum og plútókrötum sem þeir sverja af sér. Ef frjálshyggja snýst raunverulega um frjálsa markaði og frjálst fólk, þá ættu frjálshyggjumenn að styðja kerfisbreytingar sem miða að því að minnka efnahagslegt þrælahald og markaðseinokun, er það ekki?

Sterk rök (og haugur af sönnunargögnum, t.d. í Prosperity Economics e. Jacob Hacker and Nate Loewentheil) eru fyrir því að þegar jöfnuður eykst í samfélögum batnar um leið heildarafkoma samfélagsins. Samfélag heimsins þarf að verða töluvert réttlátara en það er í dag. En flestar stórtækar tilraunir til að skapa réttlátara samfélag hafa endað illa. Sóvétríkin voru engum góð til langs tíma litið: oftast einkennast slíkar samfélagstilraunir af alræðishyggju og mannvonsku (sjá Seeing Like a State e. James C. Scott).

Markmiðið er ekki að reisa illskilgreinda sósíalíska útópíu á grafreit kapítalismans, heldur er markmiðið að búa til samfélag sem veitir öllum einstaklingum sama frelsi og sömu tækifæri, ásamt því að þjóna hagsmunum samfélagsins. Slíkt verður ekki gert með því að trúa blint á lögmál, heldur með því að skoða staðreyndir og vinna út frá þeim án alsjálfsvirks kenningarunks, á hvorn veginn sem er.

Fátækt heimsins mun halda áfram að minnka á komandi áratugum, en það er undir okkur komið hvort það gerist hratt eða hægt. Hraða leiðin felur í sér að minnka ójöfnuð snarlega og styrkja um leið hagkerfi heimsins. Slíkt verður ekki gert undir formerkjum þess forheimskaða pilsfaldakapítalisma sem Viðskiptablaðið og margir aðrir í þeirri kreðsu hafa stundað.

(Athugasemd við mynd við grein: myndin er fengin úr glærukynningu Branko Milanović tengt fyrirlestri sem haldinn var í Stockholm School of Economics haustið 2014. Þegar gögnum er bætt við fyrir árin 2009-2014 stenst fullyrðingin um að níunda tíundin hafi staðið í stað.)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu