Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ekki slíta þingi strax

Ef þingið er slitið strax þá höfum við 45 daga til kosninga, samkvæmt stjórnarskrá. Það þýðir 45 daga fyrir yfirkjörstjórn að undirbúa að reka kosningar. Það þýðir að það massífa ferli sem Alþingiskosningar eru þarf að fara í gang á innan við þriðjung þess tíma sem það tekur vanalega.

Það þýðir í raun líka að allir flokkar hafi c.a. 15 daga til að raða á alla framboðslista, fá allar undirskriftir, og allt heila klabbið. Flestir flokkar eru með prófkjörsferli sem tekur meira en tvær vikur að undirbúa, hvað þá framkvæma. Það myndi enginn ná því. Einhverjir flokkar myndu kannski sneiða hjá því í æsingi.

Það væri útilokað fyrir smærri framboð að bjóða sig fram. Hafandi gengið í gegnum það ferli hef ég séð hversu erfitt það er að koma fólki á lista, safna öllum undirskriftum, og ganga frá formsatriðunum. Stærri framboð gætu hugsanlega náð þessu, en þó með herkjum -- þar með talið Píratar, sem færu samt sennilega léttast með þetta í ljósi aðstæðna. Ný framboð væru sjálfgefið útilokuð.

Ég er ekki viss um að þetta sé lýðræðið sem Íslendingar vilja. Það er engum til batnaðar að hlaupa upp á sig með kröfu um þingrof. Það bitnar á skynseminni og það gæti skaðað lýðræðið. Einu sem græða á því eru stærstu flokkarnir -- og þá meina ég ekki þeir sem mælast best í skoðanakönnum, heldur þeir sem hafa mestu yfirbygginguna og mestu innanbúðarreynsluna af rekstri kosningaherferða.

Til að það sé alveg á hreinu: þeir flokkar sem eru best undirbúnir fyrir skyndilega kosningabaráttu eru þeir flokkar hvers formenn hafa verið að geyma eignir á aflandseyjum.

Oftast nær eru snöggar breytingar slæmar. Það er betra að gera hlutina hægt og yfirvegað. Auðvitað eiga forsætisráðherra, fjármálaráðherra og mögulega jafnvel innanríkisráðherra að segja af sér. Helst ætti öll ríkisstjórnin að segja af sér, í ljósi þess að tæplega helmingur hennar er rúin trausti. En það ætti að vera nóg til að byrja með.

Nú þarf minnihlutastjórn eða trúverðuga þjóðstjórn fram á haust, þannig að það sé hægt að halda kosningar í eðlilegu tómi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu