Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Enginn í brúnni

Sumt er einfaldlega ekki hægt að leiða hjá sér endalaust.

„Vísindamenn eru almennt sammála um að líklegast sé að mannkynið sé að hafa áhrif á loftslag jarðarinnar með þeirri losun koltvísýrings sem á sér stað við bruna jarðefnaeldsneytis.”

„Nú er talið að mannkynið hafi um það bil fimm til tíu ára frest áður en lífsnauðsynlegt gæti orðið að taka erfiðar ákvarðanir varðandi breytingar í orkumálum.”

Áleitnar yfirlýsingar ráðamanna eftir síðustu loftslagsráðstefnu, ekki satt? Nei, bíddu... Þetta var ekki eftir Parísarráðstefnuna 2015. Og ekki Kyoto 1997. Nei, ekki heldur í Ríó árið 1992. Þetta eru ekki einu sinni tilvitnanir í ráðamenn heldur í vísindamann að nafni James Black. Og hann skrifaði þau árið 1977.

James Black var aðalvísindaráðgjafi olíufyrirtækisins Exxon. Já, sama fyrirtækis og eyddi risafjármunum áratug síðar í að véfengja niðurstöður loftslagsvísindamanna til að ekki færu af stað alþjóðlegar aðgerðir til að stemma stigu við hnatthlýnun. Slíkar aðgerðir myndu auðvitað koma niður á gróða fyrirtækja eins og Exxon. Áframhaldandi bruni jarðefnaeldsneytis myndi að vísu eyðileggja lífsskilyrði mannkynsins en.. 

...þú veist. Gróðinn.

Margir hnjóta um þetta. Hugsa sem svo að vel gefið (eða alla vega vel launað) fólk hljóti að vita betur en að láta lífvænlegt loftslag lönd og leið til að græða peninga. Er það ekki svolítið eins og að nota þúsundkall til að kaupa sér veski til að geyma hann í? Við trúum því ekki eingöngu að skynsemi sé almenn heldur að hún sé frumhvötum okkar yfirsterkari, sérstaklega í tilfelli þeirra okkar sem náðu einhvern veginn í andskotanum að komast í álnir. 

Þetta er eflaust arfur úr barnæsku. Mamma og pabbi eru handhafar valdsins. Okkur finnst þau kannski stundum ósanngjörn en það er einhver öryggistilfinning í þeirri fullvissu að þau bera ábyrgðina á hlutunum fyrir okkur. Bara eitt smá vandamál. Þeir sem fara með stjórnmálalegt og efnahagslegt vald eru enn ófullkomnari en mamma og pabbi. Þeir vita ekkert betur en við hvert mannkynið á að stefna. Þeir geta ekki einu sinni haft vit fyrir sjálfum sér, hvað þá okkur hinum.

Við sem þráum jafnara samfélag erum orðin of vön því að líta á arðræningjana í stóru skrifstofunum sem eins konar míkróútgáfur af vondu köllunum í Bond-myndum. Sú líking gengur ekki upp af því að þeir skúrkar voru alltaf með einhvers konar heildaráætlun. Hryllilega heildaráætlun en skiljanlega engu að síður, út frá lágkúrulegum hvötum þeirra. Skúrkarnir okkar líta aldrei upp nógu lengi til að verða sér út um slíkt. Skammtímahagsmunir eru eini áttavitinn þeirra.

John F. Kennedy á að hafa sagt eitt sinn: „Þegar við komumst til valda var ég mest hissa á því að hlutirnir væru alveg eins slæmir og við höfðum alltaf sagt að þeir væru.” Einhver hluti af manni heldur alltaf að hversu klikkuð sem stefnan er þá hljóti einhver að hafa sett hana vísvitandi. Að einhver hljóti að halda í stýrið. En auðræðisskipulagið sem við búum við er ekki skúta með skipstjóra í brúnni. Það er líkara Hollendingnum fljúgandi eða vélarvana fraktskipi Stefáns Mána sem berst með straumum úthafsins suður til andskotans.

Yanis Varoufakis, fyrrum fjármálaráðherra Grikklands - sem neitaði árið 2015 að láta kúga sig til að kyngja afarkostum Evrópusambandsins og grafa Grikklandi enn dýpri skuldagröf með því að koma í gagnið kyrkjandi aðhaldsaðgerðum og þiggja óendurgreiðanleg lán frá evrópskum skattgreiðendum - lýsir leiðtogum samninganefndar Evrópusambandsins sem tragískum fígúrum sem gera allt hvað þær geta til að uppfylla það hlutverk sem þeim var úthlutað af kerfi sem stefnir í algjöra sjálfstortímingu. Ekki sem illmennum með stór plön heldur sem handbendi afla sem enginn nær að stjórna.

Við erum öll hjóltennur í sama gangverkinu. Handhafi valdsins er ekki ein manneskja. Ekki einu sinni einn flokkur eða ein stétt manna. Við fljótum sofandi að feigðarósi af því að við látum ekki stýrast af meðvitund okkar um sameiginlega hagsmuni mannkynsins heldur af innri lógík heilalauss skipulags sem flokkar okkur í kúgara og kúgaða. Við sem lifum ekki á vinnuafli annarra höfum vanist því að líta á ríkið sem mömmu okkar og pabba. Þess vegna bregðast sumir við öllu sem gert er fyrir innflytjendur með hinu barnalega viðkvæði: „Af hverju fá þau svona en ekki við?”

Hér er við hæfi að vitna í vel þekktan heimspeking:

„Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.” (1.Kor. 13:11)

Kominn tími á að leggja niður barnaskapinn. Axla ábyrgð. Gera byltingu. Ekkert annað en u-beygja mun duga til að afstýra skipbroti.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni