Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Vísað til heimilda

Ég hélt ýmsu fram á kynningarfundi okkar frambjóðenda í gær. Hér eru heimildir fyrir því sem vísað var til sem staðreynda.

1. Það er ekkert loforð um hækkun launa kennara. Aðeins hefur verið lofað að laun hópa sem samkeppni er um á milli almenna markaðarins og hins opinbera séu jöfnuð að einhverju marki.

Hér er ég að vísa í orðalag samkomulagsins. Það er nákvæmlega þetta:

„Það er sameiginleg stefna fulltrúa opinberra launagreiðenda og bandalaga opinberra starfsmanna að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnisfær. Vinna þarf sérstaklega að því að jafna laun einstakra hópa milli almenns og opinbers vinnumarkaðar og munu aðilar beita sér fyrir því að sérstaklega verði unnið að slíkri launajöfnun.“ (leturbreytingar mínar)

Hér er samkomulagið í heild sinni. Um er að ræða 7. lið.

2. Samþykkt stjórnar KÍ á samkomulagi um lífeyrismál er ekki í samræmi við þau skilyrði sem Þing KÍ setti fyrir slíku samþykki.

Sjötta Þing KÍ gerði þessa samþykkt um lífeyrismál. Þar kemur fram:

„Sjötta þing Kennarasambands Íslands haldið í Reykjavík dagana 1.-4. apríl 2014 leggur áherslu á að skilyrði KÍ fyrir þátttöku í þessari vinnu sé að réttindi núverandi sjóðsfélaga í A og B deild LSR og sjóðsfélaga í sambærilegum deildum sjóða sveitarfélaganna verði ekki skert. Ennfremur áréttar þingið að komi til þess að sátt náist um nýtt kerfi sem byggir á framangreindum forsendum sé nauðsynlegt að mat verði lagt á launakjör starfsmanna milli markaða og þau jöfnuð samtímis breytingunni.“

Þetta er tvískipt.  Annarsvegar skuli 1) gæta allra réttinda og hinsvegar 2) að launakjör séu jöfnuð samtímis breytingunni.

Um hið fyrra snerust „svik“ Bjarna Ben sem urðu tilefni til hótana KÍ um lögsókn (sem svo varð ekkert úr). Samkomulagið náði ekki yfir alla sjóðsfélaga þegar betur var að gáð. Seinna atriði, þ.e. að laun séu jöfnuð á milli markaða, hefur ekki átt sér stað samhliða breytingunni. Lífeyrisbreytingin á sér stað strax. Jöfnunin ekki.

 

3. Þing KÍ vildi skoða lög félaganna og m.a. það hvort setja ætti kjörnum fulltrúum skorður. Hinir sömu fulltrúar tóku að sér að meta það og töldu það óþarft. Þá komu fram greinileg merki þess að völd væru að safnast saman á færri hendur í Kennarahúsi.

Hér er vísað til þess að fimmta Þing KÍ fól stjórn KÍ að skipa milliþinganefnd. Stjórnin skipaði formenn aðildarfélaga í nefndina og ákvað að ekki skyldi vera hámarksseta í embætti, kjörtímabilið skyldi lengt, að kjararáð yrði lagt niður og fært undir stjórn KÍ, að þingfulltrúum yrði fækkað, að kosning yrði afnumin um skoðunarmenn reikninga og stjórn KÍ falið að velja þá, að kosningar í allar nefndir og sjóði fari frá Kennaraþingi til stjórna félaganna, að fækkað yrði í stjórn KÍ og þar sætu aðeins formenn. Þetta má allt lesa hér.

4. Ég sagðist m.a.s. hafa séð tillögur þess efnis að valkvætt væri hvort samninganefnd yrði kosin eða hvort stjórnin sjálf færi með það hlutverk að öllu leyti.

Þar var ég að vísa til þessa skjals (10. grein).

5. Ég sagði að tilraunir til skerðingar lífeyrisréttinda væri mál sem hvorki næði aftur til 2011 né 2009 – heldur miklu lengra og ítrekað hefði verið reynt að skerða þau. Jafnvel hefði verið komið fram frumvarp um slíkt á Alþingi árið 1995 eða 1996. Slíkum árásum hefði alltaf verið hrundið fram að þessu.

Hér má lesa viðtal við fyrrum formann KÍ. Þar segir hann:

„Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það sé sem ég geti verið sáttastur við að hafa tekið þátt í að koma í gegn öll þau ár sem ég hef verið að fást við stéttarfélagsleg málefni. Þegar ég hugsa um þetta staldra ég við eitt afmarkað mál, sem ég er stoltastur af. Þetta tiltekna mál snýst ekki um hækkun launa, kennsluskyldulækkun eða neitt þessháttar. Þetta snýst um að í verkfalli grunn- og framhaldsskólakennara árið 1995 tókst okkur að koma málum þannig fyrir að við gátum í framhaldinu, í samstarfi við BSRB og BHM, hrundið árásum þáverandi stjórnvalda á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Í kjölfar þess að fjármálaráðherra lagði fram frumvarp um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna 1996, sem fól í sér afnám áunninna réttinda og skerðingu framtíðarréttinda, hófu KÍ, BSRB og BHM mikla áróðursherferð til varnar lífeyriskerfinu.“

6. Kennarafélög eru eldri en kennaraskólinn og fræðslulögin. Með slíkum félögum höfðu kennarar veruleg áhrif á mótun menntastefnu og -mála á Íslandi. Þar á meðal bæði fræðslulögin og Kennaraskólann.

Um þetta má lesa í þessari grein. Þar kemur fram Hið íslenzka kennarafélag (eldra) hafi verið stofnað 1889 og barist kröftuglega fyrir löggjöf um menntun sem skilaði sér í fræðslulögunum 1907 og Kennaraskólanum 1908.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni