Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ögn um bundna viðveru

Í dag var kosinn nýr formaður Félags grunnskólakennara. Mikil spenna einkenndi kosningarnar enda voru þær í fyrsta skipti haldnar meðal allra grunnskólakennara. Yfirburðakosningu hlaut Þorgerður L. Diðriksdóttir. Hún er þrautreyndur kennari og baráttukona fyrir kjörum stéttarinnar. Tekið var við hana viðtal í Kastljósinu í kvöld sem ég sé að hefur vakið nokkra umræðu. Til umræðu var m.a. bundin viðvera grunnskólakennara í skólunum. Rúv ákvað að útleggja þetta þannig að kennarar vildu ekki vera allan vinnudaginn á vinnustaðnum. 

Ég held það sé gott að gangast bara við því að eflaust eru til einhverjir kennarar sem hreinlega líta á það sem hlunnindi að vinna stuttan vinnudag og skila litlu vinnuframlagi. Þeir eru hinsvegar mjög fáir. Ég þekki engan. Séu þeir til eru þeir til skammar.

Staðreyndin er nefnilega sú að rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að kennarar vinna að jafnaði miklu meira en vinnuskylda þeirra segir til um. Ég þekki engan kennara sem nær að fylgja þeirri reglu að skilja vinnuna alltaf eftir í vinnunni þótt ég þekki marga sem reyna það. Vinnan fylgir kennurum heim. Þeir vinna á kvöldin og um helgar. Þeir vinna raunar alltof mikið og eru sá hópur sem einna líklegastur er til að brenna út í starfi. Mörk einkalífs og vinnu eru oft mjög í móðu.

Nú er það orðið svo að kennarar starfa margir eftir stimpilklukku (líklega meirihlutinn). Hún er yfirleitt stillt þannig að gerðar eru athugasemdir ef eitthvað vantar upp á „fullan vinnudag“ en um leið fellur allur sá tími dauður sem unnið er umfram vinnuskyldu. Þú getur verið í skólanum fram á kvöld alla daga en þú færð það ekkert greitt. Fyrir suma kennara er það prinsippmál að fá það viðurkennt að þeir vinni þegar meira en þeim ber og þeir telja fráleitt að krefjast þess að vinna utan skólans sé ekki metin til jafns við vinnu í skólanum.

Ég geri mér grein fyrir því að þessi rök kunna að virka framandi fyrir marga sem ástunda venjulega níu til fimm vinnu. Hér eru nefnilega aðrar bakgrunnsbreytur sem skipta líka máli.

Í könnun sem sveitarfélögin og samtök kennara létu gera fyrir stuttu kom í ljós að í tæplega sjö af hverjum tíu skólum eru ófullnægjandi vinnuaðstæður þegar kemur að tölvum og öðrum grunnbúnaði. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Slíkt var skorið niður í hruninu og skólar misstu af a.m.k. einni tækniuppfærslu, ef ekki tveimur. Nú er hægt og rólega verið að reyna að koma þessu í lag. Staðan er samt ekki betri en þetta.

Grunnskólakennarar vinna í dag megnið af skipulagsvinnu sinni á tölvur eins og flestar aðrar stéttir. Mikill meirihluti þeirra starfar við ófullnægjandi tækniskilyrði. Þeir hafa því margir vanist þess að vinna á eigin búnað, og þá oft heima hjá sér.

Þá er kvartað yfir þrengslum og aðstöðuleysi í meira en helmingi skóla og um 60% kennara kvarta yfir virðingarleysi við tíma sinn, t.d. vegna truflunar, ómarkvissra funda og fundarstjórnar. 

Þetta síðastnefnda sprettur að einhverju leyti af ofálagi. Þegar ljóst er að vinnuvika dugar ekki til að ljúka öllum verkefnum verður til ákveðið óþol gegn tímaþjófum.  Á sama tíma hefur bundin viðvera í einhverjum tilfellum skapað gróðrastíu fyrir tímaþjófnað.

Hér er sumsé um að ræða býsna flókinn kokteil. Vinnuaðstæður eru víða ófullnægjandi og tækjabúnaður vondur. Þá er tími fólks ekki alltaf virtur. Ofan í það kemur skortur á raunverulegu stoðneti og vinna langt umfram vinnuskyldu.

Loks hefur það áhrif að til eru kennarar sem hafa ekki efni á að stunda aðeins eina vinnu. Mikill fjöldi þeirra vinnur á kvöldin og um helgar á öðrum vinnustöðum. Einhverjir flytja reglulega inn til ættingja til að drýgja tekjurnar með því að leigja heimili sitt undir ferðamenn. Þeir eru líka til sem fara í aðra vinnu um miðjan dag, eftir kennslu, og klára síðan kennsluundirbúning sinn á kvöldin eða um helgar. 

Slíkt er auðvitað óþolandi staða. Kennsla á að vera fullt starf og skila sem slík nægum tekjum. 

Ég er einn þeirra sem nýt þess best að vera í teymi fagfólks sem vinnur saman allan daginn. Þannig verður til lærdómssamfélag. Það, hve vel samstarfið gengur utan kennslu, ræðst að verulegu leyti af því hvernig samvinnan er í kennslunni sjálfri. Því miður (að mínu áliti) eru alltof margir kennarar einangraðir í störfum sínum. Þeir kenna einir í lokuðum rýmum með afmarkaðan hóp. Ef ég væri einn þeirra og byggi við lélegar aðstæður og vondan tölvubúnað (og ég hef vissulega starfað við slík skilyrði) þætti mér óþolandi að komast ekki heim til mín til að vinna þá vinnu sem auðveldast er að vinna þar.  

Nú er mikið rætt um styttingu vinnuviku og fjölskylduvæna vinnustaði. Það hefur líka stuðað suma kennara. Þeir skilja ekki tvískinnunginn í því að breyta hefðbundnum vinnustöðum í flæðandi á sama tíma og flæðandi stöðum er breytt í hefðbundnari. Þeir sjá ekki rökin fyrir því.

Það eru til fagleg rök fyrir bindingu vinnutíma. Þá þurfa samt grundvallarskilyrði að vera í lagi. Það þarf að vera til staðar búnaður og tækni auk þess sem starfshættir þurfa að vera með þeim hætti að nálægðin sé nýtt. Ekkert af þessu kemur af sjálfu sér. Allra síst með því einu að loka allt fólkið inni í sömu byggingunni allan daginn.

Skólar eru í stöðugri þróun og munu verða það áfram. Samvinna er einn grundvöllur skólaþróunar. Það er sveigjanleiki líka. Binding vinnutíma liggur þarna á ákveðnum, margbrotnum flekaskilum. Það er til marks um innilega heimsku að halda að kennarar séu upp til hópa mótfallnir henni vegna þess að þeir nenni ekki að vinna.

En það er svosem enginn tilfinnanlegur skortur á innilegri heimsku í heiminum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni