U-beygja hjá Landsneti?

Andi liðinna jóla virðist hafa heimsótt forstjóra Landsnets núna um jólin. Allt í einu fór forstjórinn að tala um mikilvægi sáttar í samfélaginu varðandi hlutverk Landsnets og mikilvægi samfélagsábyrgðar, samkvæmt þessari frétt í Viðskiptablaðinu.
Þetta er aldeilis viðsnúningur í viðhorfum – eiginlega alveg á pari við hugljómun aðal sögupersónunnar í jólasögunni kunnu.
Í mars 2013 hélt Landsnet nefnilega opinn kynningarfund sem bar yfirskriftina „Samfélagslegt hlutverk og rekstrarumhverfi“ . Í fyrirspurnartíma var forstjóri Landsnets spurður hver ábyrgð fyrirtækisins væri varðandi ferðaþjónustu, útivist og aðra sem byggja afkomu sína á ósnortnu landi. Svar forstjórans var einfalt og skýrt - fyrirtækið þyrfti ekki að taka tillit til þeirra.
Sú hugsun læðist auðvitað að manni að Landsnet sé að reyna fegra neikvæða og slæma ímynd í gegnum friðþægingarþjónustu atvinnulífsins. En af því að það eru jól ætla ég að leyfa þeim að njóta vafans enn um sinn. Sjáum til.
Athugasemdir