Kæru stjórnvöld, eruð þið til í að bjarga fórnarlambi mansals?
Í gær komu fram #metoo frásagnir kvenna sem ég hef hálft í hvoru búist við og kviðið, frásagnir kvenna af erlendum uppruna. Konur af erlendum uppruna eru oft í viðkvæmari stöðu og eiga erfiðara með að koma sér út úr aðstæðum þar sem þær eru beittar ofbeldi, meðal annars af ótta við að missa dvalarleyfi eða forræði yfir börnum sínum ef þær fara úr ofbeldissambandi eða hætta á vinnustað sínum. Meðal þessara frásagna eru sögur af mansali sem er einhver grófasta gerðin af kynferðisofbeldi sem til er. Ofbeldið sem hefur verið talað um frá því #metoo herferðin byrjaði á ýmsa þætti sameiginlega. Það er erfitt að segja frá þessum atvikum, brotaþolar þurfa oft langan tíma til að vinna úr sínum málum, þeim er gjarnan ekki trúað eða reynt að gera lítið úr upplifun þeirra.
#afhverjusagðihúnekkifrá
Nú er stödd hér á landi fjölskylda sem er að berjast gegn því að vera flutt úr landi. Konan er fórnarlamb mansals og óttast að lenda aftur í klónum á þeim sem seldu hana barnunga í vændi ef henni verður vísað úr landi. Foreldrarnir óttast líka að það sama muni henda börn þeirra verði þeim vísað úr landi því þau hafi ekki nægt bakland til að vernda þau. Þeim var hafnað endurupptöku í máli þeirra, meðal annars vegna þess að konan sagði ekki frá því strax að hún væri fórnarlamb mansals. Þar er ekki tekið inn í myndina að mansal er kynferðislegt ofbeldi sem var framið á þann hátt að það brjóti hana niður andlega. Mansal er ekkert ólíkt öðru kynferðislegu ofbeldi að því leyti að fórnarlömb þess upplifa skömm og að þau beri ábyrgð á ofbeldinu þó það sé fjarri lagi. Það sem hún vildi alls ekki var að þessi skömm myndi fréttast eða að börnin hennar myndu síðar vita af þessu. Þær sem verða fyrir versta ofbeldinu eiga oft erfiðast með að segja frá því. Þess vegna sagði hún ekki frá mansalinu í byrjun hælisumsóknarinnar.
Þetta var svo notað gegn henni sem rök til að hafna beiðni um endurupptöku. „Þú sagðir ekki frá strax“ var viðkvæðið og þar við situr. Það er ekki óalgengt að hælisleitendur segi ekki strax frá öllu ofbeldi sem þeir hafa upplifað. Það er erfitt að deila slíku með ókunnugum manneskjum, rífa upp sár, og skömmin er oft mikil. Við höfum orðið vör við þessa skömm hjá íslenskum konum þó þær hafi markvisst unnið í því að skila henni þangað sem hún á heima. Druslugöngur, #freethenipple og aðrar byltingar femínista hafa bætt þetta og nú er orðið auðveldara fyrir íslenskar konur að stíga fram. En konur og menn meðal hælisleitenda sem ég hef rætt við og hafa lent í samskonar, eða verra, ofbeldi, eiga erfitt með að tala um það. Oft finnst þeim „allt hitt“ sem þau hafa lent í vera fullkomlega gild ástæða til að þau séu á flótta, og að þau þurfi ekki að tala um sínar verstu upplifanir til að eiga rétt á vernd.
En kerfið virkar ekki alveg svona, það ætlast til þess að hælisleitendur eigi bara að vita hvað eigi að segja og hvenær. Að frásögn þeirra sé fullkomlega skýr og skorinorð, að þeir svari þeim spurningum sem á að svara í réttri röð og í stuttu máli. Kerfið vill ekki fá fólk sem er með áfallastreitu, minnistruflanir, svefnvana af áhyggjum eða sem treystir ekki yfirvöldum. Með öðrum orðum, fólk sem hefur ekki lent í áföllum og kemur frá löndum þar sem mannréttindi eru virt og lögreglan er ekki spillt.
Í tilfelli Theresu, þá er það notað gegn henni að hún hafi ekki sagt frá mansalinu strax. Það er ekki tekið inn í myndina hvað hún skammaðist sín mikið fyrir það og það er heldur ekki tekið inn í myndina að fólk í hennar stöðu ber ekki mikið traust til lögreglunnar. En það fáránlega er að hún hefur í raun fulla ástæðu til þess að efast um að það sem hún segi í viðtali um hælisumsókn séu trúnaðargögn. Fyrir ekki meira en fjórum árum nýtti aðstoðarmaður ráðherra sér aðgang sinn að trúnaðargögnum um hælisleitendur og lak þeim í fjölmiðla í pólitískum tilgangi. Þar á meðal upplýsingar og fullt nafn manneskju sem var sögð vera fórnarlamb mansals og hefði með því getað sett hana í alvarlega hættu, sér í lagi ef henni hefði verið vísað úr landi.
#húnlýgur
Hin ástæðan sem tilgreind var fyrir því að Theresu og fjölskyldu hennar var neitað um hæli var sú að hún hefði getað falsað hótanir sem henni voru sendar frá mansalshringnum í gegn um Whatsapp. Þær hótanir fékk hún eftir að frétt birtist um mál þeirra í íslenskum fjölmiðlum. Þegar hún sýndi þessar hótanir við beiðni um endurupptöku málsins var henni tjáð að það hefði verið hægt að falsa skilaboðin. Semsagt var hún ekki einungis sökuð um að ljúga, heldur að hún gengi svo langt í lyginni að hún falsaði gögn til að birta fyrir framan kærunefnd, ígildi dómstóls. Var tekið inn í myndina að hún gæti verið að segja satt? Og í hvernig stöðu hún væri sett ef hún væri að segja satt og yrði flutt úr landi?
Hver ber ábyrgðina á því ef það verður gert og illa fer? Varla verður það dómsmálaráðherrann sem axlar ekki einu sinni ábyrgð á málum sem hún hefur verið dæmd fyrir. Varla verður það Kærunefnd útlendingamála, því úps, þetta er bara henni að kenna, hún sagði ekki frá strax. Auk þess verður hún varla í neinni hættu þó henni verði brottvísað og skuldi mansalshring stórfé, getur hún ekki bara leitað til lögreglunnar eða flutt til annars bæjar? Við þetta rifjast upp orð nígerískrar konu sem ég kynntist í sumar og rannsakar vændi og mansal í heimalandi sínu. Hún sagði mér að það væri alls ekki rétt að auðvelt væri að yfirgefa slíka mansalshringi og hefja líf annars staðar, og taka yrði inn í myndina að lögreglan væri víða spillt. Það er einfaldlega ástæða fyrir því að fórnarlömb mansals þora sjaldan að leita til lögreglu, hvað þá að vitna gegn kvölurum sínum. Þær vita að það er auðvelt að ná tangarhaldi á þeim eða fjölskyldumeðlimum þeirra ef þær flýja.
#kerfisbundiðvaldamisrétti
Á nýliðnum fundi stjórnmálaflokkanna út af #metoo talaði Katrín Jakobsdóttir um að þessar frásagnir bæru vitni um kerfisbundið valdamisrétti í samfélaginu. Þetta valdamisrétti sjáum við mjög greinilega í frásögnum erlendu kvennanna.
Það stuðaði mig því þegar Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, blandaði mótmælum gegn brottvísunum inn í #metoo byltinguna, baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi. Mótmæli gegn brottvísunum, sem hún var á þeim tíma eina manneskjan sem gat stöðvað þær, voru ekki tengd því að hún væri kona, heldur voru þetta mótmæli til aðstoðar hinum valdalitlu og gegn þeim sem valdið hafði. Rétt eins og mótmælin gegn Hönnu Birnu vegna lekans úr ráðuneytinu beindust ekki að henni af því hún væri kona, heldur af því að hún bar ábyrgð sem ráðherra á því að breiða út óhróður um valdalítið fólk í viðkvæmri stöðu. Gjörðir hennar komu ekki síst niður á óléttri, einstæðri móður. Og nú situr í dómsmálaráðuneytinu Sigríður Andersen, sem hefur hingað til ekki tekið afstöðu með þolendum ofbeldis, eins og sést best á því hvernig hún tókst á við málin sem tengdust uppreist æru og #höfumhátt. Því miður hef ég litla trú á að hún reyni nokkuð til að aðstoða konu í neyð, konu sem er raunverulegt fórnarlamb ofbeldis og sem er tilbúin til að gera hvað sem er svo barnung dóttir hennar muni ekki upplifa það sama.
Við erum búin að viðurkenna það að íslenskar konur geti, og megi, upplifa áfallastreitu í kjölfar ofbeldis. Við erum búin að viðurkenna að það séu ekki þær sem eigi að skammast sín. Við erum búin að segja að þær megi hafa hátt, að þær megi koma fram nafnlausar, að það eigi að hlusta á þær á þeirra forsendum. Getum við ekki gert það sama þegar frásögnin kemur frá konu sem er að reyna að öðlast nýtt líf hérna og bjarga börnunum sínum frá sömu örlögum?
Athugasemdir