Tyrkland: Myrkir tímar framundan
Sé litið á landakortið eins og staðan er núna má segja að það gangi logandi ás í gegnum Evrópu, frá Úkraínu, í gegnum Tyrkland, til Sýrlands og Íraks og þaðan niður til Jemen. Á þessum svæðum geisa stríð eða gríðarlega spenna ræður ríkjum (Tyrkland, jafnvel Sádí-Arabía).
Í vestur eru svo óróasvæðin Egyptaland (þar berjast menn við ISIS á Sinaí-skaganum) og Líbýa, sem er land klofið í herðar niður, þar berjast tvær ríkisstjórnir um völdin og landið fellur í flokk ,,misheppnaðra ríkja“(enska: failed state).
Síendurteknar hryðjuverkaárásir, Brussel, París, Nice, München, gera almenning óöruggan. Fyrirhuguð útganga Breta úr Evrópusambandinu, eykur einnig á óöryggið, einmitt kannski á þeim tíma sem Evrópa þarf að standa saman gegn þeim ógnum sem að henni steðja.
Tyrkland er upp í loft eftir misheppnaða valdaránstilraun fyrir skömmu og þar eru nú í gangi hreinsanir og aðgerðir sem minna helst á aðfarir Jósep Stalíns, eða Maó í Kína; hreinsanir, neyðarlög, þing tekið úr sambandi og landið þar með de facto undir stjórn eins manns: Erdogans forseta. Sá er nýjasta sönnun þess fornkveðna að ,,vald spillir og gerræðisvald gerspillir.“
Stóðu kennarar að byltingartilrauninni?
Hvað höfðu til dæmis þúsundir kennara og háskólamanna með þessa valdránstilraun að gera? Hversvegna að loka þúsundum einkaskóla, banna góðgerðarsamtök og annað slíkt? Í raun er búið að taka lýðræðið úr sambandi í Tyrklandi og þar ríkir nú alræði a la Erdogan. Það er mjög lýsandi fyrir ástandið að eftir að hafa átt erfið samskipti við Pútín Rússlandsforseta á undanförnum mánuðum (Tyrkir skutu niður rússneska orrustuþotu yfir Sýrlandi í desember síðastliðnum), þá er Erdogan einmitt á leiðinni að hitta Pútín (eða þorir hann að fara frá Tyrklandi?).
Í Tyrklandi búa um 80 milljónir manna og landið er sagt vera á milli austurs og vesturs. Um 97% íbúanna eru múslímar af Súnní-meiði Íslam. Erdogan forseti er einnig súnníti. Súnna er mun stærri grein innan íslam en Sjía, sem eru í miklum meirihluta í Íran (um 93%).
Tyrkland er NATO-land og umsóknarríki að ESB. Eftir síðustu atburði er líklegt að uppnám ríki um hvortveggja. Bæði NATO og ESB eru samtök lýðræðisríkja og það hugtak er Tyrkland heldur betur að fjarlægjast. Taki landið upp dauðrefsingu aftur er úti um aðildarumsókn Tyrkja. Nóg hefur ástandið í almennum mannréttindum verið slæmt, dauðarefsing gerir illt verra.
Gefið eftir gegn ISIS?
Tyrkland hefur verið mikilvægur aðili í baráttunni gegn glæpasamtökunum Íslamska ríkinu (ISIS) og meðal annars látið í té flugvelli. En hvað gerist nú? Verður landið (les Erdogan) of upptekið við að kveða byltinguna misheppnuðu í kútinn og þar með hægja á baráttunni við ISIS? Mun baráttan gegn Kúrdum verða aukin, sem tyrknesk yfirvöld hafa barist við í um þrjá áratugi? Kúrdar vilja sjálfstæði en í þessum átökum hafa á fimmta tug þúsunda manna fallið.
Gefi Tyrkland eftir í baráttunni við ISIS er allt eins víst að samtökin eflist, en hið andstæða hefur verið að gerast á undanförnum mánuðum (fall borgarinnar Fallujah í Írak og Mosul, sem er á valdi ISIS er næst á dagskrá).
Ógnarstjórn framundan?
Það sem er líklegast er sennilega sú ,,sena“ að í Tyrklandi muni ríkja herlög og hernaðarástand á komandi mánuðum, með frekari handtökum og hreinsunum. Eftir að hafa sloppið með skrekkinn er næsta víst að Erdogan mun ekki taka á málum með linkind. Hann hefur markvisst verið að taka sér meiri og meiri völd og nú vera engir silkihanskar notaðir, nú er það bara hnefinn! Ekki er ólíklegt að við munum fá að sjá hlutlæg fjöldaréttarhöld og langa fangelsisdóma á næstunni. Hreinsanir munu halda áfram. Í raun erum við að tala um ógnarástand og ógnarstjórn.
Reynt verður að takmarka aðgang vestrænna blaðamanna, sem nú þegar segja frá því að hinn almenni Tyrki sé of hræddur til þess að tala við vestræna fjölmiðla. Fjölmiðlafólki hefur líka verið ógnað. Framundan eru myrkir tímar í tyrknesku samfélagi.
Bendi svo hér að lokum á eldri grein um Erdogan og einræðistilburði hans.
Mynd: Erdogan kallaði út lýðinn í gegnum Facetime á CNN-Türk, til að verja sig og það tókst. Byltingin var brotin á bak aftur.
Athugasemdir