Íslensk nómenklatúra í öðrum heimi
Íslenska nómenklatúran er til. Og hún lifir góðu lífi. Í öðrum heimi, á öðrum forsendum en þorri almennings. Afhjúpanir og umræða síðustu vikna staðfesta þetta. En að íslensk yfirstétt sé til er ekkert nýtt, hún hefur verið til lengi. Til dæmis er það rauður þráður í sögu Íslands að bændaelítan hefur alltaf fengið sitt fram. Sama hvort það er misvægi atkvæða á landsvísu eða útflutningsstyrkir á lambakjöti. Sjávarútvegsgreifar eru svo annar hópur sem nýtur hressilegrar fyrirgreiðslu, til dæmis í formi viðamikilla skuldaniðurfellinga.
Orðið nómenklatúra er ekki íslenskt, heldur útlenskt og vísar í þessu samhengi til hóps af fólki, sem á sínum tíma naut algerra forréttinda í ráðstjórnarríkjum A-Evrópu, til dæmis Sovétríkjanna sálugu. Þessir hópar lifðu í engum tengslum við líf venjulegs fólks.
Á meðan alþýða Sovétríkjanna starði hungruðum augum á tómar hillur matvörubúða og dró fram lífið á ræktuðu grænmeti af einhverjum smáskika úti í sveit, eða á bakvið hús, þá verslaði nómenklatúran allt sem hana lysti í svokölluðum ,,Dollarabúðum“ – fór til útlanda og í sumarleyfi til Svartahafs, á Krímskaga (sjá mynd).
Það er gott að hafa forréttindi, vera í öðrum ,,klassa“ en hinir. Þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur, engin ástæða til þess að kvarta, engin ástæða til þess að hafa pæla í því hvort verði til matur í síðustu viku mánaðarins og hvort það séu til peningar fyrir lyfjum eða þess háttar.
Nei, líf forréttindastétta er dans á rósum, áhyggjulaust og afslappað. Nema það sé erfitt að eiga peningana, það sé flókið að vera ríkur, eins og ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs komst svo snilldarlega að orði í samtali við Heimi Má Pétursson, fréttamann Stöðvar tvö. Af orðum hans má draga þá ályktun að það sé bara heilmikið basl og almennt vesen að vera ríkur og eiga peninga á Íslandi. En ...einhversstaðar verða peningarnir að vera,“ sagði Atvinnuvegamálaráðherrann við Heimi Má.
Og hvað gerir maður þá? Jú, maður fer með peningana til útlanda – í skjól. Í skjól fyrir erfiðleikunum og vandræðunum yfir því að eiga peninga í krónulandinu Íslandi. Þar sem eru margir gjaldmiðlar, þar sem launafólki er gert skylt að fá útborgað í óverðtryggðum krónum, en að skulda í verðtryggðum krónum (þó óverðtryggð lán séu til...fáir taka þau hinsvegar).
En íslenska nómenklatúran þarf ekkert að velta þessu fyrir sér. Hún lifir í öðrum heimi, í öðrum veruleika.
Ekkert hefur breyst, allt er við það sama. Í raun er bara eitt sem vantar inn í jöfnuna til þess að allt verði eins og það var fyrir Hrun, að nýja Ísland verði áfram Gamla Ísland: Að McDonald‘s opni aftur. Kannski verður aprílgabbið af mbl.is í gær orðið að veruleika áður en við vitum af.
Það sem er grátlegast við þetta allt saman: Hér á landi væri VEL mögulegt að skapa samfélag jöfnuðar, ef áhugi væri fyrir hendi hjá þeim sem stjórna. En í staðinn eykst ójöfnuðurinn, sem og fátækt. Í frétt á RÚV í lok október 2014 sagði: ,,Fátækt barna hefur aukist mest á Íslandi á árunum 2008 til 2012 af ríkjum OECD. Ísland er í neðsta sæti af fjörutíu og einu ríki og er næst á eftir Grikklandi. Mest fátækt er hjá börnum innflytjenda á Íslandi eða um 38 prósent.“ Síðar kom fram í fréttinni að efnisleg fátækt meðal barna hefur þrefaldast á tímabilinu og þá segir ennfremur í fréttinni: ,, Fram kemur að fátækt barna á Íslandi jókst um rúm 20 prósentustig frá árinu 2008 til 2012 eða frá 11,2 prósentum í 31,6. Þetta þýðir að 17 þúsund fleiri börn hér á landi hafa fallið undir lágtekjumörkin frá 2008.“ Er þetta velferðarríkið Ísland?
Athugasemdir