Hausti lýkur í nóvember
Á Vísindavef Háskóla Íslands segir Trausti Jónsson veðurfræðingur eftirfarandi í spurningu sem upprunalega snerist um sumardaginn fyrsta: ,,Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Ef við teljum árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember. Þessi skipting hefur verið notuð á Veðurstofunni í meir en 80 ár.“ (Trausti Jónsson, 2013).
Þá vitum við það; síðasti séns fyrir ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar til að hafa kosningar er helgin 26./27. nóvember, laugardagur eða sunnudagur (betra þann 26. ef menn ætla að halda alvöru kosningapartí).
Það er sem sagt búið að gefa það út að það verði kosið í haust og það er ein niðurstaðan úr ,,brjáluðu vikunni“ sem hófst með hinum alræmda Kastljós-þætti, þar sem Sigmundur Davíð gekk út, sagði ósatt, og sagði síðan af sér embætti forsætisráðherra. Sá fyrsti á Íslandi og jafnframt sá yngsti. Ólíklegt er að þetta met verði nokkurn tímann slegið.
Samkvæmt lögum um þingrof mega líða 45 dagar frá þingrofinu þar til kosið er (24.grein Stjórnarskrár Íslands) og skal Alþingi koma saman ekki síðar er 10 vikum eftir kosningar.
Sigurður Ingi verður samkvæmt þessu fara fram á þingrof ekki síðar en 10.október í haust. Samkvæmt þessu eru því ekki nema sjö og hálfur mánuður þar til kosið verður á Íslandi á ný og kjósendur hafa tækifæri til þess að koma frá þessari stórkostlega löskuðu stjórn frá – stjórn sem misst hefur traust mikils meirihluta þjóðarinnar og sem hefur í forsæti mann sem nýtur aðeins trausts innan við 10% þjóðarinnar. Þetta er ekki boðlegt!
En það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn standi við gefin loforð. Og hætti að hegða sér í anda framsóknarmennskunnar, þ.e. að slá í og úr, hafa allt galopið og háð einhverjum óljósum túlkunum. Fólk sér í gegnum svona hegðun og hún gagnast bara á einn hátt; að auka enn vantraust og reiði fólks á Íslandi. Við þurfum ekki á slíku að halda, heldur einmitt hinu gagnstæða; auknu trausti og minni reiði.
Athugasemdir