Frelsi fyrir breska ljónið?
Mun hið ,,breska ljón“ (les; Bretland) geta reikað frítt og frjálst í hinum alþjóðlega frumskógi eftir hinar, nú þegar, sögulegu kosningar um útgöngu eða áframveru Bretlands í Evrópusambandinu?
Er breska ljónið svo þvingað og svipt athafnafrelsi í sambandinu að eini möguleikinn er sá að segja bless? Það fáum við væntanlega að vita annað kvöld, en það sem er á hreinu er að þessar kosningar munu væntanlega verða mjög spennandi?
Fram að þessu hafa fylkingarnar barist eins og ljón, hvor með sínum rökum. Þeir sem vilja vera inni segja til dæmis að viðskiptalegir hagsmunir séu of mikilvægir og verði aðeins tryggðir með áframveru í sambandinu og að með því að vera áfram sé það tryggt að rödd Bretlands heyrist á alþjóðavettvangi. Bretland sé og eigi að vera áfram aðili að því alþjóðlega samstarfi sem felist í veru í ESB.
Þeir sem vilja út segja að fullveldi landsins sé svo skaddað af veru þess í ESB að eina lausnin til að endurheimta það sé að ganga út. Þeir tefla einnig fram þeim rökum að minnka verði eða hamla með ákveðnum hætti straumi innflytjenda til landsins. Þessi rök eru áhugaverð í ljósi nýlenduhefðar Bretlands, sem og þeirrar staðreyndar að það voru meðal annars flóttamenn (innflytjendur) frá Bretlandi, sem á sínum tíma stofnuðu nýlendurnar 13 í N-Ameríku, sem síðar urðu að Bandaríkjunum eins og við þekkjum þau í dag.
Gangi Bretar út, tekur það tíma. Allt að fimm til tíu ár, að mati sumra. En það sem breytist sennilega strax er staða Bretlands í alþjóðakerfinu. Við aðkallandi alþjóðleg vandamál (og þau munum ekki hverfa) þá verða Bretar á sjálfs sín vegum, en ekki hluti af ESB. Eins og staðan er í dag eru það fyrst og fremst fjórir aðilar sem „hlustað er á“ í sambandi við alþjóðlegar krísur; Bandaríkin, ESB, Kína og Rússland. Fari Bretar út verða þeir mögulega ,,nýr“ aðili í þessu samhengi. En er líklegt að hlustað verði á þá með sama hætti og hinar ,,gerendurna“ ? Líklega ekki.
Ástæður þess eru fyrst og fremst þær að Bretland er alls ekki sá stóri gerandi í dag og það var, þegar Breska heimsveldið (British Empire) var og hét. Bretland er ekki lengur það heimsveldi sem það var.
Fari Bretland út er einnig líklegt að vægi hins þýsk/franska öxuls innan ESB aukist, og þá fremur Þýskalands en Frakklands. Vilja Bretar það? Einnig er alls ekki óhugsandi að áhrif annarra ríkja, til dæmi Póllands, geti aukist innan ESB. Og stjórnmálaþróunin þar síðustu misseri, sem verður að teljast andlýðræðisleg, gerir það ekki fýsilegt. Varla vilja Bretar að ríki þar sem alræðistilburðir virðast fara vaxandi, fái aukin áhrif innan sambandsins. Því tengslum Breta við ESB mun að sjálfsögðu ekki ljúka endanlega, gangi þeir út. ESB mun halda áfram að vera til, en það mun breytast við útgöngu Breta, í fyrsta lagi mun aðildarríkjum sambandsins fækka úr 28 í 27.
Ekki hefur farið mikið fyrir hugleiðingum sem þessum í kosningabaráttunni, heldur virðist vera svo að tilfinningar spili ávallt mjög stórt hlutverk í allri umræðu um ESB, nokkuð sem við Íslendingar ættum að kannast við, enda þjóð sem getur ekki tekið almennilega afstöðu til Evrópu á neinn rökrænan hátt.
Pælingar þessar verða ekki lengri að sinni, en stóra spurningin er þessi: Fari Bretland úr ESB, hvernig ,,gerandi“ (player) verður landið á alþjóðavettvangi? Er markmiðið að endurvekja fyrri stöðu sem áhrifamikill aðili á hinu alþjóðlega sviði, nú meira en hálfri öld eftir að landið gekk í það sem heitir ESB í dag? Er það hægt í gjörsamlega umbreyttum heimi, þar sem mörg vandamál krefjast samvinnu yfir landamæri og lausnir þeirra skipta í raun alla jarðarbúa máli? Breta líka.
Athugasemdir