Okurvextir á Íslandi
Virðing gaf nýverið út heftið „Okurmálin í Austurstræti,“ þar sem Dr. Ásgeir Jónsson fjallar á afskaplega greinargóðan hátt um þá okurvexti sem hafa þjakað íslendinga allt frá því að við öðluðumst fullveldi árið 1918 og gerðum íslensku krónuna að sjálfstæðri mynt. Ég ætla að stikla á nokkrum þáttum um þetta mál.
Ef verðbólga hækkar og lyftir nafnvöxtum á markaði þannig að lögleyfðir nafnvextir fela í sér neikvæða raunvexti verður lánveitingin að gjöf þar sem verðbólgan étur upp höfuðstólinn á kostnað lánardrottins en skuldunautur þarf aðeins að greiða hluta lánsins til baka. Þá skapast ójafnvægi á fjármagnsmarkaði sem birtist í umframeftirspurn eftir lánum. Þá verður að bregðast við skorti með því að grípa til skömmtunar af einhverjum toga.
Við slíkar aðstæður á fjármagnsmarkaði verður að velja úr lántakendum. Það hefur ávalt leitt til þess að þeir hópar sem hafa versta lánshæfið og hæsta áhættumatið detta út af sakramentinu í hinu formlega lánakerfi. Hér getur verið um að ræða tekjulága eða eignalitla einstaklinga, ellegar fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi eða hafa bága veðstöðu.
Það voru ákvæði um 10% hámarksvexti í Grágás, hinni fornu lögbók Þjóðveldisins. Síðar voru tekin upp dönsk ákvæði um hámarksvexti. Á nítjándu öld beindist slík löggjöf nær eingöngu að lánum með veði í fasteignum sem máttu aðeins vera 4-6% að hámarki, en vextir af óveðtengdum lánum voru frjálsir. Þessi munur á leyfilegri vaxtasetningu eftir því hvort um fasteignaveð var að ræða eða persónuveð hafa ráðið miklu um hversu víxlar og ábyrgðarmenn voru fyrirferðarmiklir í bankaviðskiptum á Íslandi á tuttugustu öld, eða allt frá því að Íslandsbanki hóf starfsemi árið 1904.
Veðdeild Landsbankans hóf starfsemi árið 1900 og gaf þá út skuldabréfaflokka sem danskir fjárfestar keyptu. Á þeim tíma virðast hámarksvextirnir ekki hafa verið bindandi og landsmenn gátu fjármagnað húsbyggingar á löglegum vöxtum. Þetta breyttist með fullveldi landsins 1918. Hvert myntsvæði hefur sína eigin jafnvægisvexti sem ráðast af peningamálastefnu viðkomandi stjórnvalds hverju sinni með tilheyrandi verðbólgu, stöðugleika og ýmsum öðrum þáttum.
Með fullveldinu árið 1918 varð íslenska krónan að sjálfstæðri mynt. Hún féll verulega í verði árið 1920 eftir mikla verðbólgu árin á undan. Allar götur frá því að íslenska myntsvæðið var skilið frá því danska hefur verðbólga verið mun hærri hérlendis en í Danmörku. Það sést best á því að íslenska krónan var jafngild þeirri dönsku árið 1918 en nú þarf rúmlega 1900 íslenskar krónur til þess að kaupa eina danska (ef tekið er mið af myntbreytingunni 1980). Það felur í sér að íslenska krónan hefur misst 99,95% af virði sínu gagnvart þeirri dönsku á fullveldistímanum.
Eftir fullveldið árið 1918 urðu íslensk fasteignaskuldabréf óseljanleg í útlöndum og gengu með miklum afföllum innanlands. Þessi miklu afföll sýna að raunverulegir vextir bréfanna voru langt umfram lögboðið hámark. Ákvæði dönsku laganna um 6% hámarksvexti á veðtengdum lánum reistu vaxtaþak sem lá töluvert neðar en nam raunverulegum markaðskjörum íslenskra fasteignaskuldabréfa. Þessari staðreynd höfnuðu íslensk stjórnvöld með Okurlögum sem sett voru árið 1933. Þar sem hið gamla danska vaxtaþak áréttað og vaxtaákvæðin einnig látin ná til óveðtengdra lána, líkt og víxla með persónulegri ábyrgð.
Landsmenn gerðu sér greinilega ekki grein fyrir efnahagslegum afleiðingum að þess að skiljast frá Danmörku árið 1918 og landið yrði að sjálfstæðu myntsvæði. Íslenska krónan hafði frá upphafi verið bæði gulltryggð og tengd danskri krónu og það virðist hafa verið almennt viðhorf að þessar tengingar myndu ekki haggast við aðskilnað. Þetta andvaraleysi má meðal annars sjá af því að strax árið 1920 var landið komið í mjög alvarlega gjaldeyris- og bankakreppu og raunar hefur fullveldistíminn verið nær samfelld saga ójafnvægis og erfiðleika með greiðslujöfnuð landsins. Sérstaklega reyndist kreppan mikla landinu þung í skauti en hún varð tilefni til bæði yfirtöku ríkisins á bankakerfinu og setningu fjármagnshafta. Síðan fylgdu innflutningshöft og svo verðlagshöft sem reyrðust þéttar og þéttar að íslensku efnahagslífi með hverju árinu sem leið, í því augnamiði að spara gjaldeyri.
Húsnæðislánakerfið, sem komið var á fót með stofnun Veðdeildar Landsbankans árið 1900, hrundi við fullveldið 1918 þegar danskir fjárfestar hættu að kaupa skuldabréfaútgáfur deildarinnar. Þetta kerfi var í raun ekki endurreist fyrr en eftir upptöku verðtryggingar með Ólafslögum árið 1979 sem gerðu íslenskum lánastofnunum kleift að lána til lengri tíma með föstum vöxtum og viðráðanlegri greiðslubyrði.
Það hlýtur að vera mörgum umhugsunarefni að í hinni áköfu umræðu hér á landi um vaxtaokur og okurlán hefur sjónum almennings ávalt verið beint með upphrópunum um illt innræti okraranna er lánuðu á ólöglegum vöxtum. Þannig hefur verið markvist verið komið í veg fyrir málefnalega umræðu um rót vandans. Þessi umræða ómar enn á okkar tímum þegar því er hástöfum haldið fram að afnám verðtryggingar ein út af fyrir sig muni bæta hag lánþega og okrararnir (lífeyrissjóðirnir) berjist gegn réttlætinu. Verðtryggingin á, eins og okurlánin fyrrum, tilvist sína að þakka handarbakarvinnubrögðum í hagstjórn sem gera sambærileg lánaform og þekkjast erlendis, líkt og fasta nafnvexti, ómöguleg í framkvæmd hérlendis. Þar til landsmenn bæta ráð sitt í þessum efnum mun verðtryggingin, líkt og okurlánarar eftirstríðsáranna, verða virk með einum eða öðrum hætti.
Ráðamenn þjóðarinnar viku sér undan því að taka á þeim þverbrestum í grunnstoðunum sem voru til staðar 1918. Ísland lenti í sinni fyrstu gjaldeyriskrísu árið 1920 og bjargaðist rétt með naumindum. Næsta gjaldeyriskrísa árið 1931 sem sigldi í kjölfar gjaldþrots Íslandsbanka varð til þess að landinu var lokað með gjaldeyrishöftum. Þar varð vendipunktur fyrir íslenska þjóð sem aðeins rúmum áratug áður hafði fengið fullveldi og reynt að fóta sig að á opnum og frjálsum alþjóðamörkuðum.
Þessu fylgdi uppgjöf, höft og einangrunarhyggja en nýr grundvöllur fyrir peningamálastjórn í sjálfstæðu myntkerfi var ekki byggður enda er árangur landsmanna eftir því. Gengisfellingar urðu þarna að föstum lið í kjölfar kjarasamninga launamanna, þar sem umsamdar launahækkanir voru jafnharða gerðar ómarktækar og þær fengu viðurnefnið meðal launamanna „Skæðasta svikamylla auðvaldsins“. eða "Allsherjararáras auðvaldsins á verkalýðinn. Krónan fallin um 22%."
Höftin vörðu í 62 ár. Þannig skildist íslensk fjármálasaga frá öðrum löndum og nær alger stöðnun ríkti í bankaþjónustu allt fram að lokum tuttugustu aldar. Ísland varð þróað land með vanþróaða fjármálastarfsemi.
Athugasemdir