Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Einræðið tekið við?

Einræðið tekið við?

Sé litið til umræðunnar um stefnu og árangur verkalýðshreyfingarinnar undanfarin misseri verður að segjast að hún hafi einkennst af vanþekkingu á starfsháttum verkalýðsfélaga. Þar má helst benda á ummæli um þróun kjaramála og þungar sakir bornar á einstaklinga eins og t.d. fráfarandi forseta ASÍ, slakir launataxtar séu hans sök.

Hlutverk forseta ASÍ er eins og formanna innan verkalýðshreyfingarinnar að kynna ákvarðanir meirihlutans eins og samþykktir miðstjórnar ASÍ og stjórna verkalýðsfélaganna. Þar skiptir skoðun viðkomandi formanns engu honum ber að kynna samþykktir miðstjórna og félagsfunda.

Í umfjöllun sem fram hefur farið í fjölmiðlum virðist hins vegar gengið út frá því að sá einstaklingur sem undirriti kjarasamning hafi einn og sér ákvörðunarvald til þess að ákvarða um hvert sé innihald kjarasamningsins og með undirskrift hans taki viðkomandi kjarasamningur gildi.

Þar er ekki vísað til þess að það eru félagsmenn sem samþykkja/fella kjarasamninga. Það er á félagsfundum sem afgreitt er hvert eigi að stefna í komandi kjarasamningum og þar eru samninganefndir kosnar.

Þessu má í mörgu líkja saman við þróun stjórnmála undanfarin misseri eins og t.d. stjórnmálahreyfingu Trumps í Bandaríkjunum og hægri sinnaðra þjóðernishreyfinga hér og víðar í Evrópu. Þar er stefnan mótuð af einni persónu. Hún mætir í spjallþætti og kynnir hvaða skoðanir hún hafi á viðkomandi málefnum og hvert eigi að stefna í einhliða tilkynningum á netinu.

„Ef ég næ kjöri mun ég ….“. „Ég ætla að breyta skattkerfinu og hækka bætur um ….“. „Ég ætla að tvöfalda fjármagn til ….“ Þarna er ekki vísað til ákvarðana flokksþinga eða ályktana flokksmanna. Þarna er slegið á tóna sem eiga vísan stuðning í þeim hópum sem telja að sér vegið.

Trump tekur einhliða ákvarðanir sem gagnast hans fylgismönnum. Hann leggur til hliðar ákvarðanir fjölþjóðasamtaka þar sem tekið var tilliti til hagsmuna fjöldans. Yfirboð reist á sársaukalausum skammtímalausnum. Lýðskrumarinn býr ávallt við þá fullvissu um að nái hann ekki að standa við yfirboð sín muni reiðin beinast til annarra. „Ég reyndi, en hinir komu í veg fyrir að ég næði mínu fram. Ef farið hefði verið að mínum tillögum hefðum við það helmingi betra.“

Lýðskrumarinn er þannig sigurvegari á meðan hinir eru dæmdir til þess að benda á galla yfirboðsins í löngu og flóknu máli í lýsingum á heildamyndinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni