Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Yfirráð

Yfirráð

Á mánudaginn er kvikmyndin Dominion sýnd í Bíó Paradís. Dominion notast við dróna og leynilegar upptökur til þess að afhjúpa þær öfgafullu aðstæður og slæma meðferð sem dýr þurfa að þola vegna valdníðslu mannsins. Vegna þess að myndefnið kemur að megninu til frá Ástralíu þá má fastlega gera ráð fyrir að helstu gagnrýnisraddir komi til með að segja: „Já, þetta er hræðilegt hvernig komið er fram við dýrin en þetta er ekki svona á Íslandi“. Og þar er látið við sitja. Eins og ekkert drífandi tilefni sé til þess að breyta hegðun okkar á neinn hátt til þess að koma í veg fyrir óþarfa ofbeldi gegn ómennskum dýrum.


„Þetta er ekki svona á Íslandi“

Í fyrsta lagi þá er með öllu ómögulegt að vita hvernig aðstæður og meðferð dýra á Íslandi eru. Landið er víðfeðmt og dýr að miklu leiti haldin inni fyrir luktum dyrum. Jafnvel íslenskar kindur, sem eru þau eldisdýr sem fá að njóta hvað mest frelsis, eru lokaðar inn í húsum yfir vetrartímann. Það er ógjörningur fyrir eftirlitsstofnanir að sjá til þess að viðunandi stöðlum sé haldið fyrir aðstæður og meðferð dýranna. Með þessu vil ég ekki meina að fólk sem heldur dýr noti hvert tækifæri sem gefst til að gera dýrunum ljótan grikk en það er hafið yfir allan vafa að slæm atvik eiga sér stað, oftar en við viljum vera láta. Það hefur komið oft fram, aftur og aftur, í athugasemdum eftirlitsstofnananna og er þar kannski efst í minni hið alræmda Brúneggjamál. Aðstæður hænsnanna í Brúneggjamálinu voru svo hræðilegar að nánast öllum landsmönnum blöskraði og margir færðu eggjaviðskipti sín annað og aðrir, ekki nógu margir kannski, hættu eggjaviðskiptum alveg. Á endanum fóru Brúnegg í gjaldþrot. En það sem fór kannski framhjá mörgum voru ummæli fulltrúa frá MAST sem sagði eitthvað á þá leið að „víða væri pottur brotinn, en ekki í þessum mæli“. Það er því ljóst að aðstæður eru víða ekki eins og sett var upp með og ekki eins og á verður kosið.

Kvikmyndin Dominon sýnir meðal annars aðstæður svína og kjúklinga. Fyrir þessi dýr stenst einfaldlega sú fullyrðing að þetta sé ekki svona hér á Íslandi ekki nokkra skoðun því framleiðsla á þessum dýrum er nánast eins hvar sem er á jörðinni. Dýrin fæðast, vaxa og deyja í engu samræmi við hvað þekkist í náttúrunni og fá engin tækifæri til að tjá sína eðlislægu hegðun nokkurn hátt. Þau lifa í þrengslum í sínum eigin úrgangi og fá aldrei að fara út. Yfir 90% af þeim landdýrum sem maðurinn drepur ár hvert eru kjúklingar. Af þeim 6 milljón landdýrum sem drepin eru á Íslandi ár hvert eru um 5.5 milljón kjúklingar.

Í lokin má svo velta fyrir sér hvaða máli í raun og veru skiptir það hvernig aðstæður dýranna eru nákvæmlega hér á Íslandi. Baráttan fyrir dýrin er réttindabarátta, líklega sú stærsta frá upphafi. Ekki í neinni réttindabaráttu hefur verið barist fyrir jafn mörgum fórnarlömbum og aldrei hafa fórnarlömbin þurft að þola jafnmikla ánauð. Þegar Bandaríkjastjórn aðskildi nýlega börn frá foreldrum sínum þegar flóttafólk kom yfir landamærin frá Mexíkó sagði enginn „En þetta er ekki svona á Íslandi“. Þegar Rússar settu vafasöm lög sem juku ofbeldi þar í garð samkynhneigðra sagði enginn „En þetta er ekki svona á Íslandi“. Í mörgum löndum, enn þann dag í dag, eru konur undirokaðar og beittar ofbeldi en það dettur engum í hug að yppa öxlum og segja „En þetta er ekki svona á Íslandi“. Nei, okkur blöskrar. Við mótmælum og látum í okkur heyra einmitt af því að þetta er alls ekki svona á Íslandi og vegna þess að þegar það kemur að siðferði viljum við vera góðar fyrirmyndir. Það er nákvæmlega það sem við ættum að gera fyrir dýrin.

 

Frítt í bíó

Heimildarmyndin Dominion er sýnd á vegum Samtaka grænmetisæta á Íslandi og Vegan samtakanna.

Myndin er sýnd í sal 1 í Bíó Paradís, 3. september klukkan 20:00 og er aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Facebook atburður fyrir sýninguna:
Frumsýning á Dominion á Íslandi

Stikla fyrir myndina:

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni