Tröllamjólk
Tröll
Fyrir stuttu var borin upp spurning inn á facebook síðunni Vegan Ísland sem hljóðaði svo:
“Nú er ég bara að spyrja þegar maður er vegan afhverju má ekki drekka mjólk?”
Þegar ég fyrst sá þessa spurningu taldi ég að hér væri komið enn eitt tröllið inn á Vegan Ísland með sín sniðugheit. Kannski ekki öfgafull viðbrögð af minni háflu því tröllin láta ótt og títt á sér kræla á Vegan Ísland síðunni þar sem þau pósta til dæmis myndum af dauðum dýrum og gorta af því hvað dýrin séu góð á bragðið eða spyrja hvort einhver viti um gott vegan smjör til þess að steikja beikon.
Tröllaskapur af þessu tagi er í flesta staði ómerkilegur en það merkilega við einstaklingana á bak við þessi tröll er að þeir eru nánast allir karlkyns og safnast fyrir á 14-20 ára aldurstímabilinu. Ef til vill er fleira sem einkennir tröllin, kannski eru þau upp til hópa með skráð lögheimili í einhverju ákveðnu úthverfi Reykjavíkur?
Dágóður tími stjórnenda Vegan Ísland fer í að eyða slíkum póstum og henda einstaklingum sem eru ábyrgir fyrir þeim út af síðunni. Ég held að það tröll sem á metið í styðstum líftíma inn á Vegan Ísland sé innan við mínúta. Hvatir slíkra trölla til að tjá sig með þessum hætti sætir furðu svo ekki sé meira sagt.
Sama hvort spurningin hér að ofan sé borin fram af trölli eða ekki gildir einu, spurningin býður upp á góða umræðu um hvað felst í að drekka mjólk.
Mjólk
Til að skoða mjólk þá er vert að byrja á að vekja athygli á að mjólk getur verið allskonar. Þó svo að við fyrstu tengi margir mjólk í daglegu tali við kúamjólk þá getur mjólk að sjálfsögðu einnig verið úr öðrum tegundum spendýra eins og geitum, hestum, kengúrum eða mönnum. Einnig getur mjólk, og mjólkurvörur, verið unnin úr plöntum eins og kókoshnetum, sojabaunum, höfrum eða hampfræjum. Við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því að fyrir nýfædd spendýr er mjög eðlislægt að drekka mjólk úr spena móður sinnar.
Fólk sem ekki er nýfætt og drekkur mjólk úr öðrum dýrum en mömmu sinni drekkur mjólk sem vart getur kallast vegan og eru því, að því marki, ekki vegan. Að sama skapi er eina leiðin til þess að drekka kúamjólk og vera vegan á sama tíma er að vera kálfur. Ekkert fólk eru kálfar, því verður ekki breytt. Margt fólk drekkur mjólk, eða neytir mjólkurvara, úr dýrum sem eru ekki mamma sín, því má breyta.
Þetta er í grunninn nokkuð ljóst. Einnig er ljóst að allir kálfar eru kálfar. Það sem er kannski ekki eins skýrt er að kálfar drekka mjólk úr dýrum sem ekki eru mamma sín og eru því, þannig séð, ekki vegan. Þetta er engu að síður staðreynd því mæður kálfanna eru mjólkaðar, ekki fyrir afkvæmi sín, heldur fyrir okkur og afkvæmi okkar. Eins eru mæður kálfanna mjólkaðar, statt og stöðugt, löngu eftir að kálfanir sjálfir eru dauðir. Í þann stutta tíma sem kálfarnir fá að lifa þá nærast þeir nær ekkert, ef eitthvað, úr spena móður sinnar. Önnur spendýr í okkar umsjá fá flest að nærast á móðurmjólk og það er einnig atferli sem við reynum eftir fremsta megni að viðhalda hjá mennskum konum og nýfæddum börnum þeirra. Kýr og kálfar eru nær einu dýrin sem ekki fá að njóta þeirra grunnhagsmuna að næra og nærast á móðurmjólk og það er forkastanlegt.
Vegan
Í grunninn, og það sem skiptir flesta máli, þá snýst vegan um að valda ekki óþarfa skaða með sinni neyslu. Með því að drekka kúamjólk eða neyta annarra kúarmjólkurafurða erum við að öllum líkindum að veita meiri skaða en þörf er á. Það er kannski ekki algjörlega óhugsanlegt að hægt sé að neyta kúarmjólkurafurða án þess að veita dýrunum sem veita mjólkina óréttlætanlega skaða en það er þó ekki raunveruleikinn sem almennir neytendur standa frammi fyrir í dag.
Almenningur veit ekki hvaðan mjólk og mjólkurafurðir sem þeir kaupa kemur. Ef að um kúamjólk er að ræða þá eru samt nánast engar líkur á að afurðinar séu upprunar án óþarfa skaða gagnvart þeim dýrum sem eiga í hlut. Mun meiri, og nánast allar, líkur eru á að með þeirri mjókurafurð fylgi nánast óhjákvæmilega óþarfa og mikill skaði. Með hverri afurð sem inniheldur mjólkurafurð frá kúm fylgir mjög líklega ein eða fleiri af etirtöldum aðgerðum gagnvart dýrunum sem þarf til að fylgja þessarri framleiðslu eftir:
*Aðskilnaður móður og afkvæmis
*Sæðissöfnun frá karldýrum
*Sæðing á kvendýrum (sem felur meðal annars í sér endaþarmshnefun)
*Dauðdagi afkvæmis
*Dauðdagi kúa, og nautgripa almennt, langt fyrir aldur fram
Er þetta atferli sem við viljum styrkja með launum okkar og sköttum?
Að mega eða mega ekki
Upprunaleg spurning felur í sér hvort að þeir sem eru vegan megi drekka mjólk. Að einhverju leiti, og sérstaklega gagnvart lögum, þá mega þeir sem eru vegan borða og drekka og gera bara allt það sama og aðrir mega gera. Vegan hefur lítið með að gera hvað má og hvað má ekki, heldur frekar hvað á og hvað ætti ekki.
Þannig má snúa upprunalegu spurningunni við og spyrja:
“Þótt maður megi drekka kúamjólk, hvers vegna í ósköpunum ætti maður að gera það ... nema að maður sé kálfur?”
Athugasemdir