Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fóstureyðingar bjarga og bæta líf

Fóstureyðingar bjarga og bæta líf

Á Íslandi þykja það sjálfsögð mannréttindi að konur hafi öruggt aðgengi að löglegum fóstureyðingum. Það er þó ekki algjör samhugur meðal fólks á jörðinni hvort og undir hvaða kringumstæðum fóstureyðingar eru réttlætanlegar. Sé þungunin afleiðing nauðgunar og/eða ef konan er mjög ung að aldri þykir það oft vera réttmæt ástæða þess að gangast undir fóstureyðingu. Eins er fóstureyðing gjarnan álitin vera réttmæt ef fóstrið er greint með alvarlegan galla og lífsgæði og lífslíkur þess eru metin vera lítil. Slíkar ástæður eru þó ekki nauðsynlegar til þess að konur á Íslandi geti gengist undir fórstureyðingu heldur er litið svo á, réttilega, að konur ráði sínu lífi og líkama sjálfar og þær taki sjálfstæða ákvörðun um hvort fóstureyðing í líkama þeirra eigi sér stað. Þrátt fyrir þetta frelsi er engin ástæða að ætla að konur taki slíka ákvörðun af neinu sem litast af léttúð og oft tekin eftir samtal við fagaðila.

 

Í sumum löndum, aðallega í þróunarríkjum og/eða þar sem stefnur eru markaðar af trúarbrögðum, eru fóstureyðingar bannaðar með nær öllu eða þurfa sæta miklum skorðum. Í þessum löndum er jafnframt gjarnan skert aðgengi að upplýsingum og  getnaðarvörnum. Slík bönn koma, augljóslega, ekki í veg fyrir að konur gangist undir fóstureyðingar. Margar konur, sem af hvaða ástæðu sem er, hugnast ekki að ganga með fóstrið að fæðingu eru tilbúnar að taka miklar áhættur til þess að losa sig við fóstrið. Þessar áhættur eru meðal annars að vera dæmd samkvæmt lögum í fangelsi, fá sýkingar eða slasast alvarlega af aðgerðinni sem stundum getur leitt til dauða. Áætlað er að tugþúsindir kvenna deyji árlega vegna ólöglegra fóstureyðinga og milljónir kvenna slasist, oft varanlega og alvarlega, vegna ólöglegra fóstureyðinga.

Fyrir utan að setja líf kvenna í hættu þá eru lög sem banna fóstureyðingar ekki til þess fallin að fækka fóstureyðingum. Þannig eru um 30 fóstureyðingar á hverjar 1000 konur í mörgum löndum Afríku og Suður-Ameríku. Til samanburðar þá eru um 12 fóstureyðingar á hverjar 1000 konur í mörgum löndum Evrópu þar sem fóstureyðingar eru leyfðar undir flestum kringumstæðum. Þessi háa tala fóstureyðinga í ríkjum Afríku og Suður-Ameríku er að líkum mikið tilkomin vegna fjölda óviljaðra þunganna en milljónir kvenna á þessum svæðum vilja geta komið í veg fyrir þunganir en skortir upplýsingar og aðbúnað til þess.

Það vakti mikla athygli þegar bókin Freakonomics kom út 2005 að þar var sýnt fram á sterka tengingu milli lækkun í glæpatíðni og lögleiðingu fóstureyðinga í New York borg. Rökin voru meðal annars þau að með lögleiðingu fóstureyðinga þá áttu mæður sem lifðu við bágar aðstæður, svo sem fátækt og fíkniefnaneyslu, greiðara aðgengi að fóstureyðingum. Það hafði þær afleiðingar að þessar konur eignuðust færri börn, börn sem hefðu annars verið í miklum áhættuhóp að lenda öfugum megin við lögin. Þannig að í kjölfar lögleiðingar fóstureyðinga skapaði þjóðfélagið færri glæpamenn og þannig lækkaði glæpatíðnin til muna. 

Þó svo að fóstur sem kona gengur með sé af tegundinni Homo sapiens þá, sér í lagi ef meðgangan er ekki komin langt á leið, er það langt frá því að vera meðvituð lífvera eða fullmótaður einstaklingur. Sem dæmi þá er fullorðið svín með miklu meiri meðvitund um lífið og hefur miklu meiri vitsmuna- og einstaklingseinkenni heldur en nokkurra vikna mennskt fóstur. Þrátt fyrir það þá er nær enginn sem berst gegn fóstureyðingum sem sér siðferðislega vankanta á því að drepa meðvituð og lifandi svín í milljóna tali. Eins og það eitt að vera með DNA úr Homo sapiens gefi manni skilyðrislausan rétt til að fæðast en sé maður með DNA af annarri dýrategund, þótt það sé merkilega líkt manninum, þá eigi maður ekki einu sinni rétt á að lifa.

Það kann að skjótast skökku við í fyrstu að það að eyða fóstri bjargi og bæti líf, eins og titillinn segir til um, en þegar gögnin eru skoðuð þá liggur það ljóst fyrir. Það gildir þó eingöngu ef fóstureyðingarnar eru löglegar. Bann gegn fóstureyðingum leiðir til fjölda ólöglegra fóstureyðinga sem sjálf leiða til dauða þúsundra kvenna og þær milljónir kvenna sem ekki deyja af slíkri aðgerð hljóta oft varanlegan skaða af. Þar fyrir utan eru bönn gegn fóstureyðingum árás á öryggi og frelsi kvenna sem eiga á hættu að sæta skömm, fordómum og glæpavæðingu fyrir það eitt að eyða fóstri. Fóstri sem hefur lítilla eða jafnvel engra hagsmuna að gæta á meðan konan hefur verulegra hagsmuna að gæta. Það er siðferðislega augljóst að undir öllum slíkum kringumstæðum ættu hagsmunir konunnar að vera virtir. Bönn gegn fóstureyðingum er óásættanleg aðför að frelsi og sjálfsákvörðunarrétti kvenna og slíkum ákvörðunum ber að fordæma og mótmæla.

 

Mæta á Austurvöll í dag klukkan 17:30 

Það að pólska ríkisstjórnin sé að reyna að koma á fót verulega ströngum fóstureyðingarlögum, sem bannar jafnvel fóstureyðingar fórnarlamba nauðganna, er forkastanlegt. Við getum því sent skýr skilaboð að tími feðraveldis þar sem karlmenn taka ákvarðanir um hvað konur megi og eigi að gera við líkamann sinn sé að líða undir lok. Það gerum við með því að mæta á Austurvöll í dag klukkan 17:30 og sýnum þannig pólskum, sem og milljónum annarra, systrum okkar samstöðu að slík ólög séu ekki liðin.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni