Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Búum til gömul dýr

Búum til gömul dýr

Það er staðreynd að þau dýr sem við ölum til manneldis eiga hlutfallslega mjög stutta ævi miðað við hvað mætti ætla ef dýrin lifðu við viðunandi og frjálslegri aðstæður og væri ekki slátrað í massavís langt fyrir aldur fram. Meðal nautgripa lifa mjólkurkýr í um 4 ár en nautgripum sem aldir eru fyrir hold sitt er haldið á lífi í sirka 18 mánuði, nema ef um kálfakjöt er að ræða en þá fá dýrin aðeins að lifa í nokkrar vikur. Náttúruleg lífsævi nautgripa er metin vera um eða yfir 15 ár. Hænur aldar til átu lifa aðeins nokkrar vikur af ævi sem getur varað vel yfir fimm ár. Svínaafkvæmi lifa í hálft ár en svínamömmur lifa í 4 ár af ævi sem gæti hæglega verið 10 ár. Kindur lifa í um hálft ár af 14 mögulegum.

Þessar tölur sýna að ekki er allt með felldu hjá þessum dýrategundum. Það er nú kannski heldur of vægt til orða tekið því í raun sýna þessar tölur, svo ekki verður um villst, að það er eitthvað verulega mikið að hjá þessum dýrum.

Skoðum aðeins meðallífslíkur mannsins í gegnum tímann og berum síðan saman við meðallífslíkur þeirra dýra sem við ölum til manneldis.
 

Meðallífslíkur manna

Meðfylgjandi mynd sýnir meðallífslíkur áætlaðar við fæðingu hjá sex þjóðum víðsvegar um jörðina. Þetta eru Japan, Holland, Kambódía, Namibía, Malí og Afganistan. Í tilvikum allra þessara þjóða hækka lífslíkur að jafnaði þegar tíminn líður. Það eru þó nokkur áhugaverð tilvik þegar lífslíkur þjóða lækka tímabundið í mislangan tíma. Lífslíkur Japana sýna mestan mun frá fyrstu mælingu á myndinni og þar til þeirrar síðustu. Lífslíkur Japana hafa aukist mest á þessu tímabili og í dag eru Japanar sú þjóð sem lifir hvað lengst. Þegar lífslíkur Japana eru skoðaðar er augljóst að í kringum 1945 gekk eitthvað á hjá Japönum. Sama ár má sjá mikla niðursveiflu hjá Hollendingum sem eiga svo svipaða niðursveiflu um 1918. Á tímabilinu í heild auka Hollendingar lífslíkur sínar að svipuðu marki og Japanar og eru meðal þeirra þjóða sem lifa lengst á jörðinni í dag. Við sjáum líka allsvakalega niðursveiflu hjá Kambódum en um 1976 ná lífslíkur þeirra lágmarki. Ólíkt niðursveiflunum hjá Hollendingum og Japönum þá er niðursveiflan hjá Kambódum ekki eins skörp en nær yfir talsvert lengra tímabil. Lífslíkur Kambóda eru líka töluvert lægri en lífslíkur Hollendinga og Japana almennt. Línan sem lýsir lífslíkum fólks í Namibíu er ekki allskostar ólík þeirri sem lýsir lífslíkum fólks í Kambódíu. Línan fyrir Namibíu heldur sig aðeins fyrir ofan Kambódíu fyrir utan stutt tímabil í kringum 2003 þegar Namibía tekur niðursveiflu. Seinustu tvær línunar, sem lýsa lífslíkum í Afganistan og Malí, eru lægstar með verulegum mun. Munurinn á milli þeirra og línanna fyrir Japan og Holland eru í raun sláandi.

En hvað segja þessar línur okkur? Fyrir það fyrsta þá sýna áberandi niðursveiflur að tímabundnar hamfarir eiga sér stað; skarpar niður- og uppsveiflur í tilfellum stríða en spanna svo lengri tímabil í tilfellum þjóðarmorða. Línurnar sína einnig áberandi almenna stefnu upp á við enda lífslíkur flestra þjóða að aukast. Þessi aukning í lífslíkum er ekki eingöngu vegna þess að við erum sem einstaklingar alltaf að ná að lifa lengur og lengur heldur ekki síður vegna þess að við erum hætt að deyja langt fyrir aldur fram, til að mynda hefur ungbarnadauði á mörgum stöðum minnkað mikið og eins erum við betur í stakk búin að tækla ýmsa sjúkdóma sem áður voru banvænir. Einnig hefur mannfall vegna stríða minnkað mikið, þó meira hjá sumum þjóðum en öðrum. Þó að línurnar sýni almennt jákvæð teikn þá gefa þær til kynna að eitthað verulegt bjátar á í ríkjum á borð við Afganistan og Mali. Þar eru lífslíkur í dag á við það sem var um aldamótin 1900 í mörgum ríkjum Evrópu og mætti ætla að á þessum slóðum sé ungbarnadauði algengur, fólk sé að deyja úr sjúkdómum sem í okkar nágrenni eru löngu hættir að vera banvænir eða að aðrar hörmungar séu að dynja á fólkinu sem þarna býr.

Meðallífslíkur dýra

Meðfylgjandi mynd sýnir gróflega áætlaðar lífslíkur við fæðingu þeirra helstu dýrategunda sem við ölum til manneldis. Myndin er mikið einfölduð og sýnir í raun bara muninn fyrir landbúnaðarbyltinguna og hvernig staðan er í dag. Þrátt fyrir einfaldleikann og þótt myndin sé ekki hárnákvæm þá blundar í henni raunveruleikinn sem við búum þessum dýrum: ungdýradauði og fjöldadráp (eða réttara: ungdýrafjöldadráp) á svo gígantískum skala að engar hörmungar mannsins frá upphafi eru sambærilegar. 

Því er ósjaldan haldið fram að ef maðurinn myndi ekki ala dýr til manneldis þá væru þessi dýr ekki á lífi og hefðu aldrei orðið til. Þetta er síðan notað sem rök til stuðnings dýrabúskapar, að með honum geti maðurinn gefið dýrunum líf. Þessar myndir hér að ofan sýna nákvæmlega hið gagnstæða; mikinn dauða og fullt af lífi sem dýrin aldrei fá.

Að búa til gömul dýr

Í dag er það svo að það heyrir til algerrar undantekningar að einhver þessara dýra ná að flýja þessi örlög sín og lifa fram á gamals aldur. Ein leið til þess að reyna að breyta þessu er að búa til gömul dýr. Þannig má hýsa dýr sem hafa náð að forðast nær óumflýjanleg örlög matvælaiðnaðarins, á einn eða annan hátt, í sérútbúnum dýraathvörfum. Í slíkum dýraathvörfum þá má hæglega búa þannig um dýrin að þau hafi umtalsvert pláss til að athæfa sig þar sem þau ná að lifa lífinu svo lengi sem að þeim líði vel. Fordæmi fyrir þess háttar dýraathvörfum má finna víða erlendis. Á slíkum stöðum hafa dýrin möguleika að lifa í frið og verða gömul.

Að fá dýr til að dvelja í dýraathvarfi á Íslandi ætti ekki að vera vandamál. Við Íslendingar drepum um sex milljón landdýr á hverju ári. Við hljótum að geta bjargað fáeinum dýrum frá ótímabærum dauðdaga. Líklegra er að raunveruleikinn verði sá að dýraathvarf á Íslandi þurfi að kljást við að takmarka fjölda þeirra dýra sem þar gætu annars fengið að fá að dvelja. 

Það eru fullt af dýrum á Íslandi. Gerum eitthvað annað við dýrin í stað þess að drepa þau öll og borða.

Búum til eitthvað gott - búum til gömul dýr.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni