Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Áfengisfrelsisfrumvarpið

Áfengisfrelsisfrumvarpið

Nú ganga enn og aftur yfir landann öldur æsifréttamennsku, múgæsings og skoðanaskipta á samskiptamiðlum vegna frumvarps þess efnis að gera sölu á vímuefninu áfengi frjálsa undan einkaresktri ríkisins. Sú breyting sem lögð er til felur meðal annars í sér að áfengi geti verið selt í matvörubúðum, sjoppum og einkareknum áfengissérverslunum. Myndi þá ríkisrekin áfengissala leggjast af og Vínbúðunum yrði lokað.

Þeir sem eru hlynntir frumvarpinu bera gjarnan fyrir sig þeim rökum að ríkið eigi ekki að vera skerða frelsi einskaklingsins og forræðishyggjunni sem felist í ríkisrekstri áfengis beri að úthýsa. Fjölyrtustu rök andmælenda frumvarpsins eru lýðheilsulegs eðlis og ganga oftast út á að breytingarnar leiði til aukinnar áfengisneyslu sem enn auki á skaðsemi áfengis gagnvart einstaklingum og samfélaginu öllu. Þó margir hafi sterkar skoðanir á þessu máli þá er einnig mikill fjöldi sem finnst það ekki mikið tiltökumál, undrast ofsafengna umræðuna og tímann sem það tekur frá öðrum og ef til vill mikilvægari málum. 

Það eru mörg rök sem mæla með því að færa sölu áfengis úr einkarekstri ríkisins yfir á frjálsan markað almennra neysluvara. Til að mynda má benda á að fjölmörg erlend ríki selja áfengi í almennum matvörubúðum og sjoppum án þess þó að hljóta sérstakan skaða af. Eins má segja að með slíkum breytingum sé verið að virða einstaklingsfrelsi sem og að slaka á óþarfa forræðistilburðum ríkisins gagnvart þegnum sínum enda sé fullorðnu fólki í sjálfvald sett hvort það neyti áfengis og því beri að treysta til að haga neyslu sinni með ábyrgum hætti.  

Í greinagerðinni sem fylgir frumvarpinu eru talin upp ýmis atriði sem er ætlað að réttlæta breytinguna. Til að mynda er því haldið fram að áfengi á almennum markaði muni bæta samkeppni, framboð og þjónustu, neytendum til góða. Svo er tínt til að þetta sé atvinnuskapandi til dæmis í formi markaðssetningar, það er bent á að þetta geti sparað neytendum ýmsan kostnað og jafnvel stuðlað að bíllausum lífsstíl. Einnig er gert ráð fyrir að breytingin muni draga úr heimabruggi, smygli og ólöglegri sölu áfengis. Samhliða þessari breytingu á svo að auka og bæta forvarnir til að sporna gegn neikvæðum áhrifum áfengisneyslu. Það eru nokkur atriði í þessari upptalningu sem vert er að staldra við og gera nokkrar athugasemdir við.

Í greinargerðinni segir að landsmenn þurfi reglulega að versla sér mat í stórmörkuðum og það sé mikill kostur fyrir þá að geta keypt sér áfengi í sömu ferð. Slíkt fyrirkomulag geti skilað sér í sparnaði til neytenda því þá minnkar sá kostnaður sem felst í því að keyra á milli staða. Á móti er reyndar nefnt að oft er nálægðin á milli vínbúða og matvöruverslanna ekki svo mikil að bifreið þurfi til ferðarinnar. Nema reyndar á hinum ýmsum stöðum á landsbyggðinni, þar sjáum við kannski einna helst þær slæmu afleiðingar sem einokunarsala ríkisins á áfengi hefur? Og með því að versla dýrara áfengi við kaupmanninn á horninu hjálpar breytingin fólki á lifa bíllausum lífsstíl. Þrátt fyrir þessa upptalningu virðist enn skorta sannfæringu á því hvers vegna það er sjálfsagt mál að versla vímuefni samhliða matarinnkaupum og hvort breytingin komi bíllausum lífstíl eitthvað við í raun og veru. Sé raunverulegur vilji til að skila sparnaði til neytenda eða bæta aðgengi að áfengi á landsbyggðinni má vel gera það með öðrum aðferðum.

Í greinargerðinni er jafnframt fjallað um að breytingin verði til þess að heimabrugg, smygl og sala á ólöglegu áfengi minnki. Óljóst er hvernig, hvort og hversu mikil slík áhrif komi til með að vera. Ennfremur stendur í greinargerðinni: 

“Ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem getur stafað af heimabruggi og fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi veikst alvarlega eftir að hafa drukkið það."

Þá vakna ýmsar spurningar. Hversu mikið lýðheilsuvandamál er til dæmis drykkja heimabruggs? Er heimabruggaður bjór að einhverju leyti skaðlegri en sá bjór sem ÁTVR selur í dag? Ef dæmin um alvarleg veikindi vegna þess eru fjölmörg þá kallar það vandamál reyndar á sérstaka umræðu. Eins er allskostar ójóst að áhugafólk um bjórbrugg missi áhugann þegar það getur loks keypt bjór í sama rými og hrísgrjón. Aftur, þá eru til markvissari aðferðir til að sporna gegn bruggi, smygli og ólöglegri áfengissölu. 

Höfundar frumvarpsins gera sér grein fyrir því að áfengi er ekki hættulaust og leggja til að fimmfalda fjárútgjöld til forvarna, en 5% í stað 1% af innheimtum áfengisgjöldum koma til með að renna í lýðheilsusjóð verði frumvarpið að lögum. Þrátt fyrir það er eins og höfundarnir geri sér ekki grein fyrir hversu mikill skaðinn  sem hlýst af misnotkun áfengis er en þar segir:

“Þó svo að hægt sé að misnota áfengi virðast eiginleikar þess nokkuð léttvægir í samanburði við eiginleika tóbaks og hvað þá eiturefna, skotvopna og skotfæra.”

Hvað gengur höfundum frumvarpsins til með að stilla misnotkun á áfengi upp sem léttvægri? Er misnotkun á eiturefnum og skotvopnum það aðkallandi lýðheilsuvandamál á Íslandi að misnotkun á áfengi til samanburðar er léttvæg?

Þeir sem tala gegn frumvarpinu beita fyrir sér lýðheilsuvandamálum sem tengjast áfengisnotkun og benda á þá augljósu staðreynd að hún er síður en svo léttvæg. Þeir benda þannig á að áfengisneysla hafi nú þegar veruleg skaðleg áhrif á einstaklinga og samfélag og breytingarnar sem frumvarpið boðar séu til þess fallnar til að auka áfengisneyslu sem þar af leiðandi mun valda ennþá meiri skaða. Mótrökin gegn því að neysla muni aukast er sú að Vínbúðum ríkisins hefur fjölgað mjög seinustu ár og eins hefur opnunartíminn verið rýmkaður. Þannig að nú þegar hefur aðgengi að áfengi aukist en engu að síður hefur drykkja meðal ungmenna stórlega dregist saman. Út frá þessu vilja margir fylgismenn frumvarpsins meina að lítil fylgni sé á milli aukins aðgengis og slæmum afleiðingum áfengisneyslu og árangri við að draga úr skaðsemi áfengis sé unnt að ná með öðrum leiðum. Það má vera að eitthvað sé til í þessari röksemdarfærslu en þetta er kannski ekki eins einfalt og það virðist. Fyrir það fyrsta þá er aukning á sölustöðum Vínbúðanna kannski frekar tilkomin á landsbyggðinni og hefur því ekki áhrif á eins margt fólk og aukningin segir til um. Svo er aukinn opnunartími Vínbúðanna ekki svo mikil breyting að aðgengi hafi beint stóraukist. Þannig má segja að aukning aðgengis að áfengi sem er tilkomið undir núverandi regluverki er lítil í samanburði við þá aðgengisaukningu sem mun skapast við breytinguna sem frumvarpið boðar. Svo er ekki endilega rétt að skoða eingöngu aðgengi útfrá fjölda verslanna og opnunartíma heldur einnig útfrá umgjörðinni sem við sköpum með sérverslunum með áfengi og sendum þar með þau réttu skilaboð að áfengi er ekki almenn neysluvara líkt og matur heldur er áfengi sérlega varasamt vímuefni.

Það er rétt að unglingadrykkja hefur dregist mikið saman en er hugsandi að slíkur árangur sé tilkominn meðal annars vegna þess að regluverk og eftirlit er með þeim hætti eins og við búum við í dag? Án efa spila önnur atriði með eins og aukning í skipulögðum forvörnum, tómstundaiðkun barna, samverustundum fjölskyldna og betra aðgengi að upplýsingum almennt. Það liggur ef til vill ekki algjörlega ljóst fyrir hvort frumvarpið komi til með að auka áfengisneyslu meðal ungmenna að einhverju ráði en líklegra er að hún aukist fremur en ekki og komi til með að hafa að minnsta kosti einhver skaðleg áhrif á lýðheilsu fólks. Harðir stuðningsmenn frumvarpsins segja að þó slík rök séu góð og gild þá verði þau að víkja fyrir einstaklingafrelsinu því það er öllu yfirsterkara.

Ef tilgangur þessa umtalaða frumvarps er eingöngu sá að færa áfengissölu úr ríkisrekstri yfir í einkarekstur þá er líklegt að margir andstæðingar þess muni vel við una að slíkur rekstur færi eingöngu fram í áfengissérverslunum en að sterkum vímuefnum yrði áfram haldið fyrir utan matvörubúðir og sjoppur.

Að öllu ofansögðu og mörgu öðru sem hefur verið fjallað um í fréttum og umræðum um frumvarpið er maður kannski ekki miklu nær hvaða afstöðu maður á að taka um frumvarpið og á endanum veltur það kannski meira á afstöðu okkar kjörinna þingmanna. Þó verður að segjast að ef frelsi einstaklingsins er eitt helsta áhersluatriðið sem drífur talsmenn og stuðningsmenn þessa frumvarps áfram af einurð þá verða þeir hinir sömu að svara því hvers vegna þeir berjast ekki með jafnmiklum krafti fyrir því að önnur vímuefni, og þá kannski sér í lagi kannabisefni, fái frjálslegra lagaumhverfi á Íslandi heldur en nú er raun. Allflest rök með rýmkun á sölu áfengis eiga einnig við–á veigameiri hátt ef eitthvað er–regluvædda sölu flestra þeirra vímuefna sem nú ganga kaupum og sölu á svörtum markaði. 

Helstu rökin fyrir frumvarpinu virðast byggjast á að virða einstaklingsfrelsið og berjast gegn forræðishyggju. Það er þó þannig að í samanburði við neytendur ólöglegra vímuefna er á engan hátt traðkað á einstaklingsfrelsi þeirra sem kjósa þess að neyta áfengis. Áfengisneytendur geta, þegar þeir hafa náð 20 ára aldri, gengið óáreittir inn í vínbúðir landsins og keypt sér úrval áfengis, fengið kvittun, poka og borgað með korti, á þriðjudegi fyrir hádegi ef þeim svo sýnist. Til móts við takmarkaðan opnunartíma áfengisverlsanna þá finnast víða fjölbreytt neyslurými áfengis, eins og veitingastaðir og barir, þar sem áfengi er selt alla daga, frameftir kvöldi, allan ársins hring. Mörg þessara neyslurýma bjóða uppá svokallaða gleðistund í nokkrar klukkustundir á dag en þá er hægt að kaupa bjór á hagstæðu verði. Neytendur annara vímuefna en áfengis fá enga slíka þjónustu og geta ekki með góðu móti fullvissað sig um uppruna, innihald og styrkleika vörunnar sem þeir kaupa sér. Það er því nær sanni að frumvarpið auki enn frekar þau miklu forréttindi sem áfengisneytendur hafa frekar en að slaka á nokkurskonar forræðishyggju.

Vissulega má rökstyðja að með því að gera áfengissölu frjálsari sé verið að auka einstaklingsfrelsi neytenda og slaka á forræðishyggju stjórnvalda en ávinningur baráttu fyrir einstkaklingsfrelsi og gegn forræðishyggju í þessu dæmi áfengis er aumkunnarverður og smár í samanburði ávinninginn sem sambærileg barátta ynni fyrir neytendur annarra vímuefna.

Í umræðunni um áfengissölu er oft litið til annarra landa og bent á að þar sé áfengissala frjáls en slík dæmi má einnig finna um sölu annarra vímuefna eins og í tilfelli kannabisefna í Hollandi, Úrugvæ og í mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Engar heimsendafréttir berast okkur frá þessum stöðum vegna löglegrar kannabisverslunnar og ætla mætti að þeir sem láta sig einstaklingsfrelsi og forræðishyggju varða ættu að styðja uppbyggingu regluverks með kannabissölu í stað þess að láta slík viðskipti grassera  á svörtum markaði. 

Eins ættu andstæðingar frumvarpsins sem tala í nafni lýðheilsu einnig að tala gegn þeirri skaðlegu bannstefnu sem nú er í gildi gagnvart hinum ýmsu ólöglegu vímuefnum og berjast fyrir bættri regluvæðingu á þeim. 

Fleiri spurningar vakna. Viljum við til dæmis bæta forvarnir og fræðslu? Vantar peninga í lýðheilsusjóð? Að hækka framlag áfengisgjalda til slíkra verkefna er velkomið en með sama hætti mætti sækja ennþá meira fé úr regluvæddri sölu annara vímuefna. Segjum sem svo að við skelltum 20% af regluvæddri kannabissölu í fræðslu og forvarnir. Splæstum svo öðrum 20% í rannsóknir og meðferðir. Fordæmi slíkra aðgerða má finna til dæmis í Coloradofylki Bandaríkjanna en síðan að kannabissala var leyfð í því fylki undir svipuðu regluverki og áfengi hefur skattainnheimta vegna þess farið fram úr öllum vonum. Þessum peningum er eytt í ýmsa innviði samfélagsins; til að mynda í fræðslu, forvarnir og menntun. Hluti fjárhæðarinnar er svo sérstaklega eyrnamerktur til að sporna gegn einelti

Við skulum hafa það alveg á kristaltæru að áfengi er án nokkurs vafa það vímuefni sem veldur hvað mestum skaða gagnvart einstaklingum og samfélaginu í heild. Hinir ýmsu sjúkdómar, veikindi og slys tengd áfengisdrykkju eru allt dæmi þess. Eins er fullt tilefni til að impra á að stórt hlutfall ofbeldisglæpa eru framdir undir áhrifum áfengis. Frumvarpinu er því ætlað að færa sölu á einu skaðlegasta vímuefni sem mannfólk neytir úr regluvæddri sölu ríkisins yfir í einkarekin rekstur á frjálsum markaði. Ef við getum rætt slíkt mál af þeirri léttúð sem raun ber vitni og ef við treystum hvort öðru til að axla þá ábyrgð sem felst í slíkum breytingum þá ættum við–og þetta er hugsanlega meira aðkallandi en þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi–að velta fyrir okkur í fullri alvöru að færa önnur vímuefni inn á regluvæddan markað. Þar er til mikils að vinna, bæði fyrir frelsi einstaklingsins og lýðheilsu samfélagsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni