Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Íslendingar flytja úr landi til að geta lifað af framfærslu sinni

Um 200 Ís­lend­ing­ar hafa keypt hús­næði á Spán­ar­strönd­um það sem af er ári. Þús­und­ir búa allt ár­ið eða að hluta á Costa Blanca, Hvítu strönd­inni. Ör­yrkj­ar og eldri borg­ar­ar geta lif­að mann­sæm­andi lífi í stað þess að berj­ast við fá­tækt. Helm­ingi ódýr­ara að lifa en á Ís­landi.

Fjöldi Íslendinga hafa undanfarið lagt leið sína til Spánar til að setjast þar að tímabundið eða varanlega. Staðfestar tölur eru ekki til en víst er að það hefur orðið sprenging í búferlaflutningum Íslendinga og hefur annað eins ekki sést síðan fyrir hrun. Flestir sækja á Hvítu ströndina eða Costa Blanca þar sem eru „aldrei mánudagar“ eins og einn viðmælandi Stundarinnar orðaði það. Í mörgum tilvikum er fólk að flýja okur, kulda og kröpp kjör á Íslandi. Eftirlaunafólk og öryrkjar er fjölmennt í þeim hópi. Sumir hafa ekki efni á að snúa aftur heim. Það er of dýrt að lifa á Íslandi.

Boðsferðir til Spánar

Sannkallað góðæri hefur verið hjá fasteignasölum á Spáni þar sem Íslendingar eru annars vegar. Að minnsta kosti ein íslensk fasteignasala býður upp á niðurgreiddar skoðunarferðir til Spánar til að kynna væntanlegum kaupendum íbúðir og hús á hlægilegu verði, ef miðað er við Ísland. Farmiðinn kostar ekki mikið en til viðbótar lofar fasteignasalan að endurgreiða annan kostnað svo sem gistingu ef af fasteignakaupum verður.

Spænsk kennitala

Fyrsta skrefið við að kaupa fasteign er að koma sér upp spænskri kennitölu. Það kostar gjarnan á milli 70 og 80 evrur. Varlega áætlað eru það á þriðja þúsund manns sem þegar eiga húsnæði eða hluta í húsnæði á Costa Blanca-svæðinu. Flestum ber saman um að fasteignaverð á svæðinu sé enn á uppleið. Algengt verð á húsnæði er á bilinu 10 til 20 milljónir íslenskra króna, en vel er hægt að finna smærri íbúðir á um 8 milljónir króna. Ofan á það leggst söluþóknun og virðisaukaskattur, eða um 10 prósent. Vextir eru lágir eða gjarnan um 3 prósent. Bankinn lánar allt að 80 prósentum af íbúðarverði. Það ræðst þó af mati bankans en ekki kaupverði. Francisko Delgado fasteignasali, sem Stundin ræddi við í La Marina,  segir að tímalengd lánsins ráðist af aldri kaupanda. Hann segir að sextugur einstaklingur geti vænst þess að fá aðeins 10 ára lán þar sem uppgreiðslu á að vera lokið þegar lántakinn er sjötugur. Þetta setur eftirlaunafólki þröngar skorður.  

SprengingÍslendingar fjölmenna sem aldrei fyrr til Spánar. Gummi Guðmundsson ráðleggur fólki að leigja í fyrstu og vanda sig við fasteignakaup

200 Íslendingar á árinu

Talið er að hátt í 200 Íslendingar hafi fjárfest í húsnæði á Costa Blanca það sem af er þessu ári. Gummi Guðmundsson, sjálfstætt starfandi, heldur úti vinsælli Facebook-síðu, Íslendingar á Spáni, Costa Blanca-svæðinu. Hann hefur búið á Spáni í 12 ár og er í sambandi við fjölmarga. Hann staðfestir að gríðarlegur áhugi sé meðal Íslendinga á því að flytja til Spánar.

„Auðvitað hefur enginn tölu á fjöldanum hér þar sem sumir eru óskráðir í landið. En það hafa örugglega hátt í 200 Íslendingar keypt íbúð hér bara á þessu ári,“ segir Gummi.

Hann segir áríðandi fyrir fólk að fara varlega þegar fasteignaviðskipti á Spáni eru annars vegar.

„Alls staðar leynast einhverjir drullusokkar. Maður hefur heyrt ansi margar sögur frá fólki sem hefur lent í hinum og þessum. Fólk þarf að fara varlega og skoða allar hliðar vandlega. Stundum leggja Íslendingarnir mikið á eignirnar en auðvitað ræður fólk hvað það gerir,“ segir hann.

Hús á 50 þúsund á mánuði

Gummi ráðleggur fólki að leigja til að byrja með og finna út hvort og þá hvar það vilji setja sig niður. Hann efast ekki um kosti þess að búa á Spáni.

„Hér búa Íslendingar, allt árið um kring, allt frá öryrkjum til vinnandi fólks. Auðvitað er mun ódýrara fyrir bæði ellilífeyrisþega og öryrkja að flytja út, hvort sem það er í sambúð eða ekki, þar sem þú getur leigt flotta íbúð hér í langtímaleigu á sem nemur 350–400 evrur á mánuði, eða sem nemur 50 þúsund krónum á mánuði,” segir hann. 

Fjölnir Baldursson kvikmyndagerðarmaður frá Ísafirði, er einn þeirra sem keypt hafa íbúð á Spáni nýlega.  Hann skipti ekki við íslenska fasteignasölu.

„Menn tala almennt illa um Íslendinga sem selja eignir þarna og svo marga útlendinga sem eru að selja þarna. Ég verslaði við innfædda og fékk 100 prósent þjónustu.“ Hann segist ekki alhæfa um íslenskar fasteignasölur en ráðleggur fólki að fara eigin leiðir og byrja á að velja sér svæði til búsetu. 

„Þegar þú ert búinn að finna bæinn sem þú vilt flytja í þá skaltu finna fasteignasölur þar í bænum og spænskan lögfræðing,“ segir Fjölnir sem fór einmitt þá leið.

Hann stefnir á að búa þriðjung ársins á Spáni en flytja síðan alfarið út eftir eitt ár þegar sonur hans lýkur menntaskólanámi. Hann áréttar að fólk þurfi að vanda sig við kaup fasteignar.

„Það skiptir miklu máli að kaupa rétta eign, þar sem um 10 prósent gjöld leggjast ofan á þegar þú kaupir eign,” segir hann og vísar til þess að raunverð eignar sem auglýst er á 20 milljónir króna verður 22 milljónir þegar allt er tekið með. Fleiri tóku í sama streng og segjast alfarið skipta við innfædda í stað þess að greiða íslenskum milliliðum.

 

„Hér búa Íslendingar allt árið um kring, allt frá öryrkjum til vinnandi fólks.“

FasteignaeigandiFjölnir Baldursson keypti nýverið eign á Spáni. Hann stefnir að því að flytja út á næsta ári.

Hreinar strendur

Costa Blanca er alþjóðlegt svæði. Hermt er að fólk af um það bil 150 þjóðernum búi á svæðinu. Helsti styrkur svæðisins er veðrátta og hreinar strendur. 

Stundin fór á svæðið og ræddi við fólk í Torrevieja, Alicante og Benidorm.  

Flestir þeirra sem flytja eru öryrkjar og fólk á eftirlaunum. Kona um sextugt sem Stundin ræddi við sagði að öllu skipti að heilbrigðisþjónusta væri góð og kostaði sáralítið sem ekkert. Hún er öryrki og fær bætur frá Íslandi. Í stað þess að lepja dauðann úr skel þá er afgangur af peningum í hverjum mánuði. Hún leigir íbúð í miðborg Torrevieja fyrir aðeins 50 þúsund krónur á mánuði. Innifalið er rafmagn og vatn sem er stór kostnaðarliður á þessum slóðum. Hún segist eyða litlu í daglegt uppihald.

„Ég lifi góðu lífi á 50 evrum á viku og legg fyrir og safna peningum,“ segir konan. Hún segist glíma við erfið veikindi og þurfa á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda. Gagnstætt við Ísland þá fylgi því ekki fjárhagsáhyggjur.

„Ég hef engin áform um að flytja heim, enda gæti ég ekki lifað af örorkulaununum þar. Hér verð ég um ókomna tíma,“ segir hún.

Örorkan dugar

Jóhanna Elínborg Harðardóttir tekur í sama streng. Hún og eiginmaður hennar voru allslaus þegar þau fluttu frá Íslandi til Spánar.

„Við hjónin fluttum hingað til Spánar, nánar tiltekið á Mar Menor-svæðið í júlí 2015. Við vorum búin að missa allt heima.  Eina sem við gátum gert var að búa í tjaldi eða koma hingað,“ segir hún.
Jóhanna Elínborg segir að eiginmaður hennar sé frá Murcia á Spáni en hafði búið á Íslandi i tæp 40 ár. Allslaus héldu þau utan. Það var gæfuspor. Hún er öryrki og glímir við veikindi en hann er í dag atvinnulaus. Þau komast samt vel af, enda greiða þau aðeins um 62 þúsund krónur í leigu.

„Í dag leigjum við yndislegt raðhús, þrjú herbergi og tvö baðherbergi, fyrir 500 evrur á mánuði.  Við getum lifað á minni örorku. Maðurinn minn er tekjulaus í augnablikinu. Það að geta lifað hér á tæpum 200 þúsund krónum á mánuði og leyfa sér að fara á kaffihús einu sinni til tvisvar í viku er yndislegt. Ég er mikill sjúklingur og hef þurft mikla aðstoð og rannsóknir án þess að borga krónu. Lyfjakostnaðurinn minn er um 10 evrur eða 1.250 krónur á mánuði sem er mikið því eitt lyfið er dýrt. Sú ákvörðun okkar að flytja út er ein af þeim fáu sem við sjáum engan veginn eftir,“ segir Jóhanna Elínborg.

Skammarlegt á Íslandi

Lárus Kjartansson og eiginkona hans eru með íbúð í Torrevieja. Hann segir afkomuna þar vera gjörólíka því sem gerist á Íslandi.

„Við höfum kynnst ýmsu á svæðinu undanfarin ár. Okkur finnst skammarlegt að Íslendingar, sem hafa unnið alla sína ævi og greitt sína skatta, eigi ekki önnur úrræði en að vera flóttafólk á Spáni. Þetta er skammarlegt. Við þekkjum ýmsa sem eru með 170.000 krónur á mánuði. Fyrir þá upphæð nær fólk ekki að borga leigu eða lifa á Íslandi,“ segir Lárus.

Nokkuð er um að fjölskyldufólk flytji með börn sín á svæðið. Þeir Íslendingar sem Stundin ræddi við eru sammála um kosti skólakerfisins og þess að vel er haldið utan um börnin. Einn fjölskyldufaðir sem flutti fyrir nokkrum mánuðum rekur fyrirtæki á Íslandi og stjórnar því frá Spáni. Hann flýgur heim til Íslands einu sinni í mánuði og stoppar þá í viku. Það er í senn auðvelt og ódýrt því fjöldi flugfélaga flýgur reglulega á þessar slóðir. Þá er einfalt að fljúga til London og þaðan til Íslands. „Ég næ ágætlega að sinna starfi mínu með þessum hætti. Og fjölskyldan, ekki síst börnin, er alsæl með að búa á þessum slóðum,“ segir hann.

Almennt er Íslendingum ráðlagt að prófa að búa á svæðinu áður en það kaupir. Langflestir ílengjast og una hag sínum vel. Aðir kunna ekki við hitann og sólskinið til lengdar. Þá kunna þeir ekki að lifa í þeim rólega takti sem einkennir Spán. Á morgun, manana, er viðkvæðið. Ekki gera það í dag sem fresta má til næsta dags. Ekkert liggur á, manana. 

Harmleikir

Þá er vandlifað fyrir þá sem eru veikir fyrir víni og kunna ekki fótum sínum forráð. Ódýrt áfengi er á hverju strái og af því geta hlotist mannlegir harmleikir. Sælan breytist stundum í martröð. Í Íslendingasamfélaginu á Hvítu ströndinni er mikill samgangur. Í flestum byggðarlögum er hittingur í hverri viku. Svo eru það árshátíðirnar og þjóðhátíðirnar þar sem fólk hittist og spjallar um gamla landið. En svo eru það hinir sem aðlagast samfélaginu að fullu og lifa með Spánverjum án þess að viðhalda tengslum við landa sína. 

Margir sakna stöðugt heimalandsins og ná ekki að festa rætur. En svo eru það allir hinir sem finna hamingju, sjálfsvirðingu og lífsfyllingu á Hvítu ströndinni þar sem aldrei eru mánudagar. 

 


Hjónin í TorreviejaSigurður Þ. Ragnarsson og Hólmfríður Þórisdóttir búa skammt suður af borginni Torrevieja.

„Það er sprengja í gangi núna“

Sigurður Þ. Ragnarsson og Hólmfríður Þórisdóttir hafa átt hús á Spáni í rúman áratug.

„Við höfum verið á Spáni síðan 2006 og unum hag okkar vel. Þegar pabbi flutti út árið 2000 komum við hérna fyrst og féllum strax fyrir landinu,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfræðingurinn og fjölmiðlamaðurinn góðkunni. Hann og Hólmfríður Þórisdóttir, eiginkona hans, búa í Las Villas, um fjóra kílómetra suður af miðborg Torrivieja á Spáni þar sem þau eiga hús. Þetta er á Costa Blanca.

„Við erum með allt til alls hérna. Nálægt okkur er stór matvörubúð og það eru margir veitingastaðir í grenndinni. Ströndin er í göngufæri frá okkur. Við deilum sundlaug með þeim sem búa í sama kjarna.“

„Það er áríðandi að fólk leigi fyrst og prófi að búa hérna áður en það kaupir. Það er ekki sniðugt að hoppa upp í flugvél hjá þeim sem býður best til að skoða fasteignir og kaupa síðan án þess að vita hvernig er að búa hérna. Reynslan sýnir að það kunna ekki allir við sig hér. Breytingin frá því að búa á Íslandi er gríðarleg. Þetta er gjörbreyting frá því umhverfi sem maður er vanur. Fólk þarf að geta svarað því hvort þetta hentar áður en tekin er ákvörðun um að kaupa,“ segir Sigurður.

Það er ýmislegt að varast þegar lagt er í fasteignakaup í fjarlægu landi.

 

„Sumir eru að þenja sig mikið í fjárfestingum og láta ævintýraljómann stjórna sér.“

„Ég þekki dæmi um að fólk hefur keypt óséð eftir teikningum. Þá hefur það gerst að húsið þeirra hefur ekki verið tilbúið á tilsettum tíma. Þá hefur það gerst að húsið hefur ekki snúið rétt með tilliti til sólar. Flestir eru komnir til að fá sól og hita og þá er ekki gott ef svalirnar snúa í norður. Þá hafa komið upp alls konar mál sem snúa að því að íbúðirnar eru ekki eins og lagt var upp með. Það er ekki sniðugt að kaupa óséð. Það er ráðlegt að prófa að leigja í nokkra mánuði og taka síðan ákvörðun. Fólk þarf að sníða sér stakk eftir vexti og kaupa eign sem það ræður vel við fjárhagslega og einfalt er að halda við. Þá getur þetta hentað vel fólki sem hefur gaman af því að fara til sólarlanda. Þá er þetta ódýrasta sólarlandaferð sem hægt er að fara í. En það má ekki vera klafi á fólki að borga af þessu.“

Sigurður segir að fólk verði að huga vel að málum áður en það kaupir sér eign á þessum slóðum.

„Fólk áttar sig ekkert á hlutunum með því að bruna á milli staða til að skoða hverfi og eignir. Það þarf að huga að atriðum eins og hve langt er í næstu matvörubúð eða veitingastaði. Er fólk háð því að hafa bíl til umráða og er þá bílastæði til staðar?“

Íslendingum á Spáni hefur snarfjölgað á síðustu misserum. Fjöldi manns hefur lagt leið sína til Spánar til að skoða eignir. Fasteignasölur hafa efnt til hópferða gegn gylliboðum um að kostnaður verði endurgreiddur ef af kaupum verði. Siggi segist hafa orðið var við þetta.

„Það er sprengja í gangi núna. Íslendingum fækkaði eftir hrunið þegar einhverjir misstu eignir sínar hér. En nú er fólki aftur tekið að fjölga. Sumir eru að þenja sig mikið í fjárfestingum og láta ævintýraljómann stjórna sér. Það er ekki gæfuleg byrjun. En svo er líka þekkt að fólk hefur keypt hérna og verið mjög ánægt og stækkað við sig eða breytt til.“

Siggi segir að það henti ekki öllum að dvelja langtímum saman í sólinni á Spáni. Sumir finni til þess að hafa ekkert að gera og þeim leiðist aðgerðarleysið.

„Hins vegar er félagsstarf hér alveg nóg og þeir sem vilja finna eitthvað við sitt hæfi. Hér er eitthvað að gerast alla daga vikunnar, allt frá því að sauma, spila félagsvist og spila mini-golf.

Sigurður og Hólmfríður, kona hans, dvelja gjarnan í 4–6 vikur í senn í húsi sínu á Spáni. Stundin ræddi við þau á strandbar í Torrivieja. En þau fara nokkrum sinnum á ári á milli landa og njóta þess besta sem Ísland og Spánn hafa upp á að bjóða.

„Hingað er mjög mikið framboð af flugi. Hingað til Alicante fljúga þrjú flugfélög yfir sumarið og sum þeirra allt árið. Það er bæði einfalt og ódýrt að ferðast á milli staða. Þetta er þriðja ferðin okkar á þessu ári. Við erum ekki á eftirlaunum og þurfum því að afla okkur lifibrauðs heima á Íslandi. En svo hef ég getað unnið talsvert á Spáni þar sem við erum með frábæra aðstöðu.“

Spurt er hvernig hefðbundinn dagur á Spáni sé í lífi hjónanna.

„Í fyrsta lagi þá er allt í meira hægagangi hér en gerist og gengur á Íslandi. Dæmigerður dagur er þannig að við tökum góðan tíma í morgunverð, jafnvel á veitingastað. Svo er farið í góðan göngutúr. Um miðjan daginn er síðan „siesta“ og menn halla sér aðeins. Yfir heitasta tímann er þetta sérstaklega mikilvægt. Þótt maður sofi ekki alltaf þá er kannski horft á bíómynd eða maður les blöðin. Aðalatriðið er að vera í skugganum á heitasta tímanum. Eftir siestuna er tilvalið að fara á ströndina eða í sundlaugina okkar, sem er sannkölluð heilsulind. Eftir það er komið að því að fara út að borða eða snæða heima eftir atvikum. Það er mjög gaman að elda heima af því að hráefnið er á allt öðru og betra verði en á Íslandi. Það má alveg gera mistök. Erfiðast er að venjast fisknum hérna, Hann stenst ekki samanburð við hráefnið á Íslandi. Ég get ekki vanist honum, enda allur gikkur með fisk. Ég vil helst gömlu góðu ýsuna en hún fæst auðvitað ekki hér.“

Sigurður og Hólmfríður eiga langt í land með að ná eftirlaunaaldri, enda aðeisn fimmtug að aldri. Þau stefna á að dvelja meira á Spáni þegar sá tími kemur.

„En við munum alltaf eiga eitthvert hreiður á Íslandi til þess að geta skroppið heim þegar okkur langar. Það er auðvitað þannig að við erum stundum með heimþrá rétt eins og okkur langar út til Spánar. Það er gaman að fara en það er líka gott að koma. Stóra málið er að á Spáni hefur maður það fjárhagslega miklu betra. Það er ekki aðeins 50 prósenta munur heldur allt að 80 prósenta munur í einhverjum tilvikum. Það skiptir ekki máli hvort horft er til húsnæðis, húsaleigu, matar eða hvað sem þetta heitir. Heilt yfir er helmingi ódýrara að lifa hér en á Íslandi þar sem fólk á venjulegum launum er í stöðugum barningi við að ná endum saman.“

Sigurður er ekki mjög virkur í félagsstarfi Íslendinga á Spáni. Þau hjónin hafa fyrir löngu aðlagast sænsku samfélagi og kunna vel við sig þar. Sigurður er landsþekktur á Íslandi sem veðurfréttamaðurinn Siggi Stormur og dagskrárgerðarmaður. Á Spáni kann hann því vel að falla í fjöldann.

„Hér hverf ég í fjöldann og það er frábært. Við erum stöðugt að reyna að teygja á dvöl okkar hér. Nútímatækni gerir manni kleift að vinna fjölbreytt verkefni hér á Spáni.“


Sæl á SpániAlma Jenný Guðmundsdóttir er með bllandaða búsetu á Spáni og á Íslandi.

Spánverjar blóðmjólka ekki hina veiku

Alma Jenný Guðmundsdóttir leigir á Spáni og lifir góðu lífi.

„Það er tvennt sem spilar inn í hjá mér. Það er í fyrsta lagi afkoman og í öðru lagi veðrið. Ég er öryrki og nota örorkuna mína til að lifa af hér. Það dugir til framfærslu og vel það. Ég næ alveg endum saman og geri það sem mig langar að gera,“ segir Alma Jenný Guðmundsdóttir, sem mörg undanfarin ár hefur dvalið langdvölum á Spáni á milli þess sem hún býr heima á Íslandi. Alma er öryrki en starfaði sem ferðamálafræðingur og fararstjóri auk þess að vinna árum saman sem áfengisráðgjafi.

Alma Jenný kom upphaflega á Costa Blanca, Hvítu ströndina, sem fararstjóri og féll strax fyrir svæðinu. Hún kýs að vera með blandaða búsetu og njóta þess besta sem löndin hafa upp á að bjóða í stað þess að slíta tengslin við Ísland eins og margir gera. Stundin ræddi við Ölmu í Cabo Roig, á Alicante-svæðinu.

„Sem öryrki má ég vera erlendis í sex mánuði á ári án þess að sæta skerðingum. Ég hef nýtt mér það síðustu árin og skipti árinu upp í þrjú tímabil. Þegar ég dvel erlendis leigi ég út íbúðina mína á Íslandi og get þannig staðið undir kostnaðinum ytra.“

Alma vill alls ekki fjárfesta í íbúð á Spáni. Hún gæti aðveldlega selt íbúð sína á Íslandi og keypt mun ódýrara ytra.

„Það hvarflar ekki að mér að kaupa hér. Ég vil heldur leigja og vera frjáls að því að flandra á milli. Þá finnst mér ekki vera mikið vit í að fjárfesta í fasteign hér. Það er verið að segja okkur að þetta sé góð fjárfesting en mér finnst eins og verið sé að búa til bólu. Samkvæmt minni hagfræði er þetta þannig.“

Hún segist verða þess vör að margir flytji til Spánar vegna þreytu á baslinu heima á Íslandi.

„Hér er enginn mánudagur.Það eru allir dagar svipaðir.  Ég er ekki með neina rútínu.“

„Hér kemst ég vel af með 260 þúsund krónur á mánuði og get veitt mér það sem mér sýnist. Ég á íbúð heima á Íslandi. Fasteignagjöld, sími, rafmagn og bankalán kosta mig samanlagt um 180 þúsund á mánuði. Þá standa eftir 80 þúsund krónur til að lifa af. Þetta er vonlaust. Það má ekkert koma upp á. Ár eftir ár er þetta lamandi ástand og í rauninni sálarmorð. Það gengur auðvitað ekki upp og ég hef skömm á þeim sem viðhalda þessu ástandi á Íslandi. Það er vont að vera í landi sem hugsar svona illa um fólkið sitt. Á Spáni er hægt að leigja fyrir 400 til 500 evrur á mánuði og allt annað helmingi lægra í verði en á Íslandi. Það munar um minna. Hér fer maður út að borða góðan mat fyrir 10 evrur, eða sem nemur 125 krónum. Það er í raun engin ástæða til að elda fremur en maður vill. Og ég fer á kaffihús þegar mig langar, stundum nokkrum sinnum á dag.“

Eitt það fyrsta sem fólk gerir við búsetuflutning til Spánar er að sækja um spænska kennitölu eða svokallað annað ríkisfang.

„Alþjóðaheilbrigðissstofnunin hefur vottað þetta svæði sem eitt af heilnæmum stöðum jarðar til að búa. Þar er lagt til grundvallar blíð veðrátta, hlýr sjór og strandirnar hreinar og bláfánavottaðar. Þá er stórt atriði að allir hafa góðan aðgang að heilbrigðissþjónustu og þeir sem búa hér greiða sáralítið fyrir þjónustuna. Þá er verðlagið afar hagstætt. Síðast en ekki síst þá hef ég fundið til öryggis hérna. Það er lítið um glæpi hérna. Lögreglan er vel á varðbergi. Það á við um heimilisofbeldi sem tekið er föstum tökum. Samfélagið er löghlýðið og í föstum skorðum. Ég bý ein en er aldrei hrædd,“ segir Alma Jenný.

Ölmu er tíðrætt um heilbrigðiskerfið á Spáni. Meira að segja Íslendingur sem leitar sér læknisþjónustu á bráðamóttöku á Spáni framvísar skilríkjum og greiðir ekkert.

„Heima á Íslandi þarf að greiða komugjald og síðan að borga fyrir það sem gert er. Myndatökur og allt sem gert er er verðlagt og er þeim sjúku erfitt. Sama er upp á teningnum þegar maður leitar til heilsugæslu á Spáni. Það kostar ekkert fyrir sjúklinginn en ríkið greiðir allt. Heima þarftu að greiða fyrir allt. Það skrýtna er að Íslendingurinn á Spáni borgar ekki en íslenska ríkið þarf að greiða það sem ekki er borgað í heimalandinu. Það borgar sig sem sagt að veikjast á Spáni frekar en heima. Spánverjar blóðmjólka ekki hina veiku. Að þessu leyti er þetta frábært svæði.“

Á Íslandi er tannlæknakostnaður sligandi og margir þurfa að láta tannheilsuna sitja á hakanum. Spánverjar hafa allt annan hátt á.

„Heima er kostnaður við tannlækningar ekkert niðurgreiddur og skiptir þá engu í hvaða stöðu fólk er. Á Spáni er mikil samkeppni milli tannlækna. Hér er allt sem snýr að tannviðgerðum helmingi ódýrara. Það er enda algengt að Íslendingar fari til útlanda til tannlækninga.“

Hún segir að sumt sem gerist á Spáni sé af hinu verra. Þar tilgreinir hún sérstaklega vændi.

„Mér finnst ömurlegt að horfa á konur falbjóða sig á götum úti og jafnvel á hringtorgum. En í þessum bæ var tekið á þessum málum og bæjaryfirvöld bönnuðu vændi á götum úti. Þess í stað eru konurnar nú í sérstöku vændishúsi. Hér er öflug mafía sem gerir þessar konur út ásamt öðrum glæpaverkum.“

Alma Jenný er gjarnan virk á Facebook þegar hún er á Íslandi. Þar hefur hún marga snerruna háð og verið óvægin. En þetta er aðeins þegar hún er á Íslandi.

„Þegar ég er á Spáni fer ég sjaldan á Facebook en nýt lífsins í rólegheitum. Þá forðast ég markvisst það sem er vont. En svo togar Ísland í mig og þá sérstaklega menningin þar. Ég elska bókaupplestra fyrir jólin og sæki í þá. En ég hef varla efni á því heima að sækja leikhús eða bíó. Það er of stór biti.“

Alma segist ekki vera í neinum vandræðum með að hafa ofan af fyrir sér. Hún leggur stund á myndlist og finnur gleðina í að fást við listina.

„Hér er enginn mánudagur. Það eru allir dagar svipaðir. Ég er ekki með neina rútínu. Stundum er ég að mála. Ég get dundað við það heilu dagana. En svo koma dagar þar sem ég nýt þess að gera ekki neitt. Þá horfi ég á sjónvarpið frameftir öllu og sef út og nýt lífsins. Mér þykir yndislegt að fara á ströndina en það geri ég yfirleitt ekki nema tvisvar í viku. Þá tek ég með stólinn minn og kem mér fyrir í flæðarmálinu og hlusta gjarnan á góða hljóðbók. Þá hlusta ég mikið á Rás 2 þar sem menningin blómstrar. En annars snýst þetta um að vera og vera glaður. Á hverjum degi hér hitti ég gott fólk og spjalla.“

Alma Jenný hefur eignast fjölda vina á Spáni. Hún hefur lagt áherslu á að blanda geði við heimamenn. Í því skyni lærði hún spænsku.

„Ég get bjargað mér ágætlega á tungumálinu. Það skiptir miklu máli að læra málið. Ég hef aðlagast samfélaginu vel. Ég er einhleyp og afskaplega sjálfri mér nóg.“

Costa Blanca-svæðið er alþjóðlegt. Alma segist hafa heyrt því fleygt að þar væri búsett fólk af 147 þjóðernum. Og Íslendingarnir sem ýmist búa á svæðinu eða koma og fara reglulega teljast í þúsundum.

„Strandsvæðin hér á Spáni eru í raun ekki byggð af Spánverjum Því Norður-Evrópubúar hafa hreinlega tekið þau yfir. Spánverjar hafa því miður ekki efni á að búa hérna við ströndina og halda sig inni í landi. Mér finnst þetta mjög áhugavert. Ég er ferðamálafræðingur. Eitt sinn ræddi ég við spænskan prófessor sem varaði við því að Ísland gæti lent í því sama og er á Mallorca þar sem ferðamenn ýta heimamönnum út af strandsvæðum. Þar búa 700 þúsund manns en þangað koma 12 milljónir túrista árlega. Hann taldi Ísland vera uppskrift að slíku ástandi þar sem heimamenn komast ekki lengur að ákveðnum svæðum í eigin landi. Spánverjar eru þrátt fyrir þetta ótrúlega umburðarlynt og gott fólk. Hér á svæðinu er til dæmis margt fólk frá Afríku. Það sýnir þessu fólki enginn fyrirlitningu nema Skandínavar sem kvarta yfir múslímum í sínum heimalöndum og segja að þeir taki vinnu frá sér heima og greiði enga skatta. Þá er viðkvæðið að múslímar læri ekki tungumálið. En svo kemur þetta sama fólk á Spán, greiðir ekki skatta og lærir ekki tungumálið. Ég hef lagt mig eftir því að læra spænsku og umgangast alla jafnt. Einn af mínum uppáhaldsmönnum gær er sígauninn Maríó sem gengur um með harmónikkuna sína og spilar fyrir fólk. Hann kann örfáar setningar á ensku og notar þær óspart. Hann syngur gjarnan lagið Sex bomb sem Tom Jones gerði vinsælt. Þetta syngur hann fyrir konurnar sem bráðna þegar hann segir I love you baby og svo kemur Sex bomb. Þær bráðna flestar og aðrar verða vandræðalegar og gefa honum peninga. Mér hefur stundum dottið í hug að skrifa stuttar sögur um það yndislega fólk sem maður kynnist hér.“

Við sitjum í forsælu á kaffihúsi utan við heimili Ölmu. Hin rússneska Olga afgreiðir okkur. Henni og Ölmu er greinilega vel til vina. Olga segist eiga sér þann draum að flytja til Íslands með fjölskyldu sína. „En ég verð að fá vinnu þar,“ segir hún. Alma segir að allir sem vilja vinna fái vinnu á Íslandi. Hún sleppir því að segja henni frá brauðstritinu. Olga segist vera tilbúin að fara norður til kalda landsins. Við höldum áfram spjallinu. „Stundum verð ég leið hérna. Þá undirbý ég heimför og hlakka til að hitta stórfjölskylduna og komast í menninguna heima. Ég þarf alltaf að fara heim. Sumarið á Íslandi er dásamlegt og ég vil ekki missa af því. Spænsk menning er frábær en ég vil ekki skipta alveg. Þetta fyrirkomulag verða því svona áfram.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár