Það er skrítið að vakna einn daginn og vera ekki lengur í pontu, ekki með ræður tilbúnar, ekki með yfirferð fyrir ríkisstjórnarfund, ekki með þétta dagskrá og kröfuna um viðbragð. Bara með sjálfa sig. Og kaffibolla. Og kannski köttinn. Og ekkert sem þarf að ná í fréttir fyrir hádegi.
Hreyfingin að sjálfsögðu, þar þarf miklu að sinna, vaka yfir hlutum og stýra verkum, eiga samráð við fjölda fólks, bregðast við frumvörpum, mæta tíðindum eða vondu ráðslagi stjórnvalda, byggja upp starf, styðja félaga og koma góðu til leiðar. En tilveran er önnur, tíminn allur annar en hjá þingmanni og ráðherra í forystuhlutverki til fjölda ára við landsstjórnina.
Þessi tilfinning – að dagarnir séu með andrými – pláss fyrir vangaveltur, tónlist og Snúð – er sérkennileg. Kannski var þetta eitthvað sem ég þráði eða beið eftir. En líka eitthvað sem ég óttaðist. Í andrýminu kemur eintal sálarinnar. Fundur með kjarnanum.
Þögnin sem ég fann þegar ég var ekki lengur þingmaður – eftir fimmtán ár í þinginu og ellefu ár á ráðherrastóli – var ekki ærandi eða erfið. Ég fann fljótt fyrir einhvers konar hljómi, undirtóni sem hafði alltaf dunað undir. Ekki Bach, ekki Bítlunum. Frekar einhverju líku árniði sem heyrist þegar maður hlustar eftir honum – og er bara þarna. Skapar ramma. Tilverugrundvöll.
Smám saman fór ég að heyra það sem áður hafði fallið inn í hávaðann og verið hluti af honum: Hvað ég var orðin úrvinda. Hvað ég hafði saknað barnanna minna – og minnar eigin raddar. Hvað ég hafði verið upptekin í viðbragði við áreiti.
Ég komst að því að það er hægt að vera ötul og samt missa sjónar á sjálfri sér. Réttlæti og samkennd þurfa svefn og hvíld til að virka. Og með hægari og dýpri öndun lærði ég að það er í lagi að vera ekki fullkomin. Það er meira að segja frelsandi. Það er nær sannleikanum og veruleikanum.

Ég áttaði mig á því að það er ekki veikleikamerki að vera þreytt. Það er eðlilegt. Og stundum nákvæmasta mælingin á því hversu mikið manni hefur þótt vænt um verkefni sem hefur tekið tímann allan og orkuna.
Ég lærði líka að það er í lagi að vera ekki til taks allan sólarhringinn. Að missa af fundi. Að segja nei. Að svara ekki tölvupósti fyrr en eftir mat.
Ég lærði að líkaminn gleymir engu – en fyrirgefur stundum ef maður hlustar á hann. Og að kyrrðin í Hólaseli er ekki andstæða pólitíkur – hún er kjarninn. Breiðafjörðurinn með sitt fang, lifandi landslag, fjallasýn og fjölbreytileika. Þar talar náttúran ekki með stefnumálum eða aðgerðaáætlunum – heldur með því að vera.
Tjaldurinn er ekki í fastanefnd. En hann veitir leiðsögn. Spóinn er fastur punktur í tilverunni. Skarpur og vakandi. Þegar hann situr á þúfunni sinni er allt eins og það á að vera.
Hvað gerist næst?
Ég lærði þetta líka af föður mínum. Hann var maður orða og athafna – sá sem fann flöt á málum, sem vissi að pólitík er ekki bara skoðun heldur sýn. Að framfarir gerast ekki af sjálfu sér. Frumkvæði hans, trúin á að gott fólk geti skapað breytingar, og viljinn til að gera gagn lifir í mér.
Hann spurði mig oft: „Hvað gerist næst?“ Ekki til að krefjast svara, heldur til að opna samtal. Langt samtal. Spurningar til að leiða mann áfram, ekki heimta rétt svar.
Ég hef lært að stundum þarf að gefa rými. Að allt hefur sinn tíma. Að stundum líður spennan hjá og að ekki er allt á mínu valdi. Margt ræð ég við – annað síður. Og stundum felst þroskinn ekki í því að hafa stjórn, heldur í því að velta næsta skrefi fyrir sér af heiðarleika og von. Gefa því tíma.
Hláturinn og tónarnir
Mamma hélt í ljóðrænuna og tónlistina – það sem kallar fram dýpt og stóru myndina. Hún gat hlegið svo smitandi hlátri að maður gleymdi sér. Hún var einstakur húmoristi, svolítið stríðin og eldskörp. Og já, smá sérvitur – á þann hátt sem gerir fólk minnisstætt og ótrúlega lifandi.
Hún trúði á lífið og fegurðina – ekki alltaf með rökum, heldur með hjarta. Og þegar ég sakna hennar, þá heyri ég hláturinn fyrst. Svo kemur röddin. Og tónarnir.
Ég hef lært margt með Torfa – í þögninni sem getur orðið að dýpstu samræðum hjónabandsins, en líka í endalausum pælingum um tilveruna, lífið og eilífðina. Í sterkri og lifandi ást.
Ég hef líka lært margt með börnunum mínum, á svo ólíkum tímum í mínu lífi. Þau þekkja mig líka þegar ég er þreytt og húmorinn enginn – en elska mig samt. Það er meira en nóg.
Berskjöldun sem niðurstaða
Ein pæling hefur sótt sífellt meira á mig að undanförnu – ekki bara í persónulega lífinu eða pólitíkinni heldur þegar stóru spurningarnar eru á dagskrá. Hún snertir líka listina, menninguna og trúna. Niðurstaðan er þessi: Berskjöldun er svarið.
Ég lærði að berskjöldun felur ekki í sér hættu. Hún snýst um tengingu. Hún er það sem brýtur gegn einangrun og gefur manni aftur rödd – ekki til að virðast stærri, heldur til að standa með sinni tilveru, með styrkleika og veikleika.
„Það er ekki veikleikamerki að hægja á sér. Það er ekki merki um úthaldsleysi að hlusta. Það er ekki uppgjöf að opna hjartað“
Og þegar maður byrjar að hlusta með hjartanu og opnar það nær tilfinningin lengra og ristir dýpra. Hún nær líka til þeirra sem byggja fjarlægar slóðir. Eins og barnanna á Gaza.
Ég get ekki hætt að hugsa um þau. Þau sofa ekki fyrir sprengjum. Þau leita móður sinnar í rústum. Þau halda í hönd systkinis síns sem hætti að anda áður en það lærði að skrifa nafnið sitt. Stórri systur sem var skotin í leit að brauði.
Ef ég hlusta með hjartanu – þá heyri ég í þeim. Og þá veit ég um leið að þögn okkar felur í sér ábyrgð. Og kannski felur hún líka beinlínis í sér samþykki.
Þess vegna höfum við sagt og þess vegna segi ég: Þetta má ekki viðgangast. Ekki í mínu nafni. Ekki okkar. Ekki í nafni heims sem vill kalla sig siðaðan.
Ég hef lært að sorgin er ekki aðeins mín, heldur sameiginleg. Og að samkennd er aðgerð sem leiðir okkur fram á veg.
Að gráta með annarri móður, sem ég hef aldrei hitt, er ekki veikleikamerki – það er siðferðislegt svar. Það er hlustun, berskjöldun og einlægni.
Sem aftur og aftur – er rétta svarið.

Að koma heim
Þegar ég lít yfir þetta ferðalag – frá sviðinu í pontunni að kyrrðinni í Hólaseli, frá pólitískum vígvelli yfir í stórar spurningar – þá veit ég þetta:
Það er ekki veikleikamerki að hægja á sér. Það er ekki merki um úthaldsleysi að hlusta. Það er ekki uppgjöf að opna hjartað.
Það er leið. Leið til að vera manneskja í samfélagi við annað fólk. Leið til að halda áfram að lifa og gefa – ekki í gegnum yfirburði eða völd, heldur í gegnum nærveru og hlustun.
Ég hef ekki öll svörin. En ég ætla að halda áfram að hlusta. Á fólkið mitt. Á landið mitt. Á lífið sjálft.
Og ég ætla að mæta því sem gerist næst – með opnum hug og hjarta. Því þannig verða nýir kaflar til.
Svandís Svavarsdóttir,
formaður í hreyfingu með innviði, reynslu og sýn, ferðalangur í nýjum kafla, námsmaður og hlustandi.
Athugasemdir