Minnast páfa sem var elskaður, dáður og virtur

For­seti Ís­lands, bisk­up, for­sæt­is­ráð­herra og ut­an­rík­is­ráð­herra – fyrsti og eini ís­lenski ráð­herr­ann sem er kaþ­ólskr­ar trú­ar – tóku þátt í minn­ing­ar­messu Frans páfa í Landa­kots­kirkju. Páfinn hafði orð á sér fyr­ir að vera auð­mjúk­ur mað­ur sem tók af­stöðu með jað­ar­settu fólki.

Minnast páfa sem var elskaður, dáður og virtur

Fjöldi fólks var saman kominn við sérstaka minningarmessu og bænastund fyrir sálu Frans páfa í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti á þriðjudag. Þær fregnir bárust heimsbyggðinni á annan dag páska að páfinn væri allur. 

Biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, David Tencher, sagði í predikun sinni í minningarmessunni: „Í dag syrgja hann bræður okkar og systur frá öðrum trúarbrögðum og trúarhópum líka og játa af hreinskilni að Frans páfi gerði svo mikið í þágu sameiningu allra sem trúa á Guð. Hann opnaði dyr gagnkvæms skilnings á hæsta stigi og það verður ekki einfalt að halda áfram án áhrifa hans og persónulegs eldmóðs.“

„Það verður ekki einfalt að halda áfram án áhrifa hans og persónulegs eldmóðs“
David Tencher
biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi

Biskupinn rifjaði einnig upp góð kynni af páfa, til að mynda nú í febrúar þegar fulltrúar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafi farið, ásamt öðru trúarfólki frá Norðurlöndunum, í pílagrímsferð þar sem Frans páfi hafði hitt hópinn í Vatíkaninu og farið meðal þeirra í hjólastól sínum, sem hann notaði síðustu árin vegna heilsubrests. Árið 2018, þegar fagnað var 50 ára afmæli stofnunar kaþólska Reykjavíkurbiskupsembættisins, hafi páfinn sömuleiðis tekið á móti hópi frá Íslandi „og talaði við okkur mjög persónulega,“ sagði séra David í predikuninni. 

„Ég minnist hans sem alveg einstaks páfa
Guðrún Karls Helgudóttir
biskup Íslands

Frans páfi var fæddur í Buenos Aries í Argentínu þann 17. desember 1963 og var 88 ára að aldri þegar hann lést. Hann hét Jorge Mario Bergoglio en tók sér nafnið Frans þegar hann varð páfi eftir heilögum Frans frá Assísí, sem var tákn auðmýktar, friðar og virðingar fyrir sköpuninni. Frans páfi var fyrsti páfinn í tólf aldir sem kom ekki frá Evrópu og var einnig fyrsti páfinn úr reglu Jesúíta. Á páskadag, daginn áður en hann lést, ávarpaði hann mannfjöldann af svölum Péturskirkju í Vatíkaninu og óskaði öllum gleðilegra páska. Hann var heldur veikburða, en í febrúar hafði hann þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna lungnabólgu. Hann gat ekki flutt sína hefðbundnu blessun en erkibiskup las upp skilaboð páfans þar sem hann fordæmdi til að mynda stöðu mála á Gaza-ströndinni, gyðingahatur, en einnig þá fyrirlitningu sem jaðarsettum og flóttafólki er sýnd. 

Liðsmaður lítilmagnans

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, segir minningarmessuna hafa verið afar fallega. „Það hefur alltaf þýðingu að sýna náunganum virðingu og samhug. Páfinn skiptir ekki aðeins máli fyrir kaþólsku kirkjuna því það má segja að allur hinn kristni heimur líti til páfans að einhverju leyti. Orð hans hafa vægi. Það skiptir okkur öll máli hver er páfi og að mínu mati þá stóð Frans páfi sig ákaflega vel. Það var gott að vera við þessa stund. Hún var falleg, einlæg og  gott að finna samhuginn sem var þar,“ segir hún. Guðrún minnist Frans páfa sem einstaks manns „vegna þess hvernig hann horfði á heiminn með augum okkar minnstu systkina og stóð með þeim sem minnst mega sín, flóttafólki, fólki sem bjó við fátækt, fólki í stríðshrjáðum löndum, jafnvel samkynhneigðum. Þannig að ég minnist hans sem alveg einstaks páfa að þessu leyti,“ segir hún. 

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra var einnig viðstödd minningarathöfnina: „Þetta var falleg stund í Landakotskirkju. Frans var framsýnn páfi, öflugur talsmaður friðar og stóð alltaf með þeim sem minnst mega sín. Það er mikil eftirsjá eftir honum. Missirinn er auðvitað sárastur hjá kaþólska samfélaginu, sem syrgir sterkan leiðtoga, og ég votta söfnuði kaþólskra á Íslandi sérstaka samúð mína.“

„Frans var framsýnn páfi, öflugur talsmaður friðar og stóð alltaf með þeim sem minnst mega sín
Kristrún Frostadóttir
forsætisráðherra

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er eini ráðherrann í sögu íslenska lýðveldisins sem er kaþólskrar trúar og hafði þessi stund í Landakotskirkju því sérstaka þýðingu fyrir hana: „Þetta var hátíðleg messa í minningu mæts manns. Hann var mjög merkilegur páfi; auðmjúkur, sýndi mikla samkennd, talaði fyrir friði og barst ekki mikið á. Hann var liðsmaður lítilmagnans, þeirra sem minna máttu sín.“

Hún segir að sem kaþólikki hafi henni fundist gott að sjá ákveðna tóna frá honum sem kannski höfðu ekki sést áður. „Hann gerði ótrúlega mikið fyrir stóran hóp kaþólikka víðs vegar um heiminn, hvort sem það eru konur eða aðrir. Hann var svolítið kærleikurinn uppmálaður,“ segir Þorgerður Katrín. Þá hefur hún tekið eftir því hversu mikil hlýja, virðing og væntumþykja í garð hans hefur skinið frá helstu trúarleiðtogum um allan heim: „Það segir mikið um hvernig páfi hann var. Hann var að vissu leyti frjálslyndur innan kirkjunnar.“

Forseti og utanríkisráðherra til Rómar

Frans páfi verður lagður til hinstu hvílu á laugardag í Róm, í kirkju heilagrar Maríu. Hann verður fyrsti páfinn í 120 ár til að vera jarðsettur utan Vatíkansins og þykir það sýna vel hvernig maður hann var að óska eftir látlausari útför en venja er fyrir þegar kemur að páfum. 

„Hann var mjög merkilegur páfi; auðmjúkur, sýndi mikla samkennd, talaði fyrir friði og barst ekki mikið á
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
utanríkisráðherra

Þorgerður Katrín verður viðstödd athöfnina sem utanríkisráðherra en forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, verður þar einnig. Reiknað er með miklum fjölda við útförina en þar verða fulltrúar á annað hundrað ríkja um allan heim, svo sem forseti Bandaríkjanna, forseti Frakklands, forsætisráðherra Bretlands og forseti Úkraínu. 

„Það er heiður fyrir mig sem utanríkisráðherra að fá að fylgja þessum merkilega páfa fyrir Íslands hönd en auðvitað er þetta líka tilfinningalegt fyrir mig, ég viðurkenni það alveg, sem kaþólikki. Hann var elskaður, dáður og virtur, líka af mér, af kaþólikkum um allan heim og ekki bara af kaþólikkum. Það hefur verið gott að sjá og lesa falleg orð um Frans páfa frá fólki með ólíkan bakgrunn og ólíkar trúarskoðanir,“ segir Þorgerður Katrín. 

„Mér finnst mikilvægt að við sýnum honum einmitt þessa virðingu sem verið er að gera hér heima í þessari fallegu athöfn sem var í kirkjunni minni, og síðan sem verður á laugardaginn þar sem mér skilst að verði mikið mannhaf. Í mannhafinu munu Íslendingar eiga sína fulltrúa og við viljum þakka fyrir það sem hann gerði í þágu friðar og frelsis um heim allan,“ segir hún. 

Kjósa
2
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár