Hefur þér einhvern tímann áskotnast kassi af bókum? Dó afi þinn kannski og arfleiddi þig að bókasafninu sínu? Bara einhverjum sjóháskasögum, nokkrum Arnaldarbókum, jú og reyndar einu gömlu smásagnasafni sem þú værir til í að eiga, en þú nennir varla að fara í gegnum restina? Það er best að aðrir fái að njóta innihaldsins, hugsarðu með sjálfum þér og ferð með kassann í nytjagám Góða hirðisins á Sorpu.
En þú vissir ekki að þegar afi þinn var ungur átti hann kærustu (þetta var áður en hann kynntist ömmu Aðalheiði). Kærastan hét Jakobína Sigurðardóttir og var frægur rithöfundur, en þú vissir ekkert um það, því þau voru í sambandi bara í nokkra mánuði, löngu áður en þú fæddist. Svo vildi til að Jakobína gaf afa þínum áritað eintak af fyrstu bókinni sinni, Sögunni af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði Kotungsdóttur. Áritunin er í formi ástarljóðs ásamt undirskrift. Þetta er áður óbirt ástarljóð!
Arnaldur í Sorpu
Kassinn er kominn í nytjagáminn og þú keyrir sátt út úr Sorpu. Starfsmaður gengur að kassanum og sér kunnuglegar kápur Arnaldar efst í staflanum. Góði hirðirinn er að drukkna í Arnaldi. Þangað berast 10 tonn af dóti á dag og starfsmaðurinn veit að þar á bæ er enginn áhugi á fleiri bókum sem þessum. Í pappagáminn með þetta, hugsar hann. Hann er bara góður kollegi að auðvelda samstarfsfólkinu í Góða hirðinum lífið. Og þar með er úti um áður óséð ástarljóð Jakobínu Sigurðardóttur ásamt undirskrift, í fyrstu útgáfu af fyrsta verkinu hennar.
„Gámurinn ætti að vera okkar síðasta stopp“
Hvað starfa margir bókmenntafræðingar í Sorpu?
Þegar fólk eins og ég fer með hlut í nytjagáminn á Sorpu vonast það til þess að hann komist inn í hringrásarhagkerfið. Það vonast til þess að hluturinn komist í góðar hendur og jafnvel að einhverjir peningar fáist fyrir hann, peningar sem síðan eru nýttir í þörf og góð verkefni. Góði hirðirinn sinnir þessu göfuga hlutverki og allur ágóði af starfseminni er gefinn til góðgerðarmála og líknarfélaga. En nytjagámurinn er ekki öruggur staður fyrir menningarverðmæti á borð við sjaldgæfar bækur eða jafnvel hönnunarhúsgögn.
Fjölmargar sögur hef ég heyrt um framgöngu starfsfólks Sorpu, sem virðist ekki hika við að færa hluti úr nytjagáminum yfir í aðra gáma. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Sorpu er ekki ákveðin stefna í þessum málum en hver og einn starfsmaður metur hvort hlutur eigi raunverulega heima í nytjagáminum eða ekki. En hvað starfa margir bókmenntafræðingar á Sorpu? Sjaldgæfustu ljóðabækur 20. aldar eru flestar mjög látlausar í útliti, jafnvel einblöðungar (Venjuleg húsmóðir eftir Dag Sigurðarson, svo dæmis sé tekið!). Þær eru með það sem kalla mætti „pappagámsútlit“.
Bók er ekki alltaf bara bók
Aðkoma sérfræðinga er því nauðsynleg þegar kemur að því að meta hvað skal geyma og hverju skal henda. Við Reykvíkingar búum í bókmenntaborg UNESCO. Dæmið um afann sem Jakobína Sigurðardóttir varð ástfangin af er skáldað, en ekki ótrúverðugt. Við búum í þannig samfélagi að hvaða fágæta bók sem er gæti endað í hvaða kassa af bókum sem er. Því skulum við ekki fara með bækurnar beint í nytjagáminn. Gámurinn ætti að vera okkar síðasta stopp, eða svo segir upplýsingafulltrúi sem ég sló á þráðinn til. Það er skiljanlegt að Sorpa ráði ekki við það verkefni sem fornbókasalar sinna. Þeir taka við kössum, fara í gegnum innihaldið og halda því til haga sem verðmætt er áður en restin fer á Sorpu.
Þótt Góði hirðirinn sé fullur af bókum þýðir það ekki að við ættum að búa til nýjan pappír úr þeim sem fá ekki hillupláss hjá þeim. Hringrásarhagkerfi er nefnilega ekki alltaf hringrásarhagkerfi og bók er nefnilega ekki alltaf bara bók.
Athugasemdir