Þessi grein birtist fyrir rúmlega 4 mánuðum.

Litið fram hjá tilfinningalegum tengslum við uppbyggingu í miðborginni

Breytt ásýnd mið­borg­ar­inn­ar blas­ir nú við í ná­grenni við Aust­ur­völl. Inn­an um rót­grón­ar og sögu­fræg­ar bygg­ing­ar, líkt og Al­þingi og Dóm­kirkj­una, blasa við ný­bygg­ing­ar og upp­gerð hús, svo sem skrif­stof­ur þing­flokka og hót­el. Doktor í um­hverf­is­sál­fræði seg­ir skeyt­ing­ar­leys­is gagn­vart sögu svæð­is­ins gæta í fram­kvæmd­um í mið­borg­inni.

Litið fram hjá tilfinningalegum tengslum við uppbyggingu í miðborginni
Breytt ásýnd miðborgarinnar Doktor í umhverfissálfræði segir skeytingarleysis gagnvart sögu svæðisins gæta í framkvæmdum í miðborginni. Mynd: Golli

Ljósmyndari Heimildarinnar myndaði miðborgina á sjaldséðum góðviðrisdegi í vikunni. Á myndunum má sjá nokkuð nýja ásýnd við helstu kennileiti miðborgarinnar. Innan um Dómkirkjuna og Alþingishúsið, byggingar sem reistar voru á 18. og 19. öld, má nú sjá nýbyggingar í bland við uppgerðar eldri byggingar. Smiðja, ný skrifstofubygging Alþingis, var tekin í notkun í lok síðasta árs og sitt sýnist hverjum. Smiðja hefur til dæmis ekki þótt nógu klassísk og þingmaður Flokks fólksins líkti skrifstofu sinni við Litla-Hraun. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, var hins vegar stórhrifinn af byggingunni.

Að yfirstíga stóran framkvæmdahjalla

Stærðarinnar framkvæmdir hafa einkennt miðborgina síðustu ár en nú virðist sem ákveðnum áfanga hafi verið náð í framkvæmdum í hjarta miðborgarinnar. Nýja Landsbankahúsið við hlið Hörpu er fullbúið og hótel við Lækjargötu og í gamla Landsímahúsinu við Austurvöll hafa sömuleiðis verið tekin í notkun.

Höfuðstöðvar LandsbankansLandsbankinn hefur tekið nýjar höfuðstöðvar í notkun við Austurhöfn. Kostnaður við húsið er 16,5 milljarðar króna, um 8,5 milljörðum hærri en reiknað var með í upphafi.

Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði, hefur meðal annars skoðað samspil umhverfis og fólks og tengsl umhverfis við heilsu og vellíðan. Hann segir ekki hafa verið tekið tillit til þessara þátta í stórframkvæmdum í miðborginni. „Það er kannski litið til þeirra í einhverju samhengi en það að þetta sé tekið og vegið með vísindalegum hætti og tekið alvarlega, það er ekki partur af ferlinu. Fólk veit að umhverfi hefur áhrif en við þurfum að vega þetta og meta og vinna með þetta sem vísindi en ekki innsæi og matsatriði þröngs hóps. Þetta þarf þverfaglegri og vísindalegri nálgun.“

DoktorPáll Jakob Líndal.

Gagnrýni Páls á uppbyggingu í miðborginni snýr einkum að tvennu; þéttleika byggðar og staðarvenslum, það er tilfinningalegum tengslum einstaklings við tiltekinn stað. Páll segir ákveðins skeytingarleysis gæta þegar kemur að sögu svæðisins og litið hafi verið fram hjá tilfinningalegum tengslum sem fólk hefur við miðbæinn. „Þarna hefði ég viljað að staldrað væri lengur við, bæði vegna þess að ég sé að það eru tækifæri til að byggja þennan gamla miðbæ upp á forsendum sögunnar, að byggja af virðingu við söguna. Það hefur líka sýnt sig að hvers konar umhverfi sem ber einkenni gamallar byggðar og hefur skírskotun í söguna hefur mjög góð áhrif á okkur í sálfræðilegu samhengi. Gott umhverfi er heilsufarslega gott fyrir okkur. Það þarf að taka betur upplýstar ákvarðanir með tilliti til þessara þátta.“ 

„Gott umhverfi er heilsufarslega gott fyrir okkur.“
Páll Jakob Líndal
umhverfissálfræðingur

Til eru dæmi þar sem vel hefur tekist til að láta gömlu og nýju tímana rætast og nefnir Páll byggingar í Aðalstræti og gatnamót Hafnarstrætis og Tryggvagötu sem dæmi, þar sem uppgerð eldri húsa hefur heppnast vel. Á heildina litið telur Páll að ekki hafi tekist vel til í þessum efnum.

Gamlir og nýir tímar mætast„Straujárnið“ í Hafnarstræti er vel lukkuð framkvæmd að mati umhverfissálfræðings.

„Hótelið við Landsímahúsið er að mörgu leyti ágætlega heppnað, byggingarlega séð, og skapar og styrkir rammann við Austurvöll en það voru deilur um kirkjugarðinn og við getum velt því fyrir okkur hvort honum hafi verið sýnd nægjanleg virðing. Þetta er elsti kirkjugarður Reykjavíkur. Hefði ekki mátt vinna betur með það?“

„Besta horn bæjarins“

Sömu sögu er að segja með Smiðju, sem Páll segir vera á besta horni bæjarins, beint á móti suðri, í skjóli fyrir norðanáttinni og alveg við Tjörnina. „Þetta er stórkostlegt horn sem ekki er hægt að nota með svona stóru húsi, inn í þetta umhverfi, ofan á þessum mögulegu fornminjum sem þarna voru. Passar þetta inn í? Er þetta of stórt? Mér finnst það. Þetta svæði hefði mátt nýta betur í þágu almennings og bæjarlífs.“    

SmiðjaNý skrifstofubygging Alþingis er á „besta horni bæjarins“ segir Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur, þegar litið er til ýmissa þátta, svo sem veðurskilyrða.

Páll vill sjá aukinn fjölbreytileika í borgarumhverfinu. „Við þurfum ákveðin tengsl við náttúru í umhverfi okkar og við þurfum að lifa og dvelja í því sem við getum kallað mannlegan skala. Annars fer umhverfið að vinna á móti okkur, það fer að skapast óöryggi og hræðslutilfinning sem hefur neikvæð áhrif á velferð okkar og okkar daglega líf. Áhrif umhverfis á fólk rista miklu dýpra. Þetta skiptir okkur miklu meira máli af því við erum hluti af umhverfinu. Við erum stanslaust að skynja umhverfi okkar og taka afstöðu til þess, með meðvituðum og ómeðvituðum hætti. Allt hefur þetta áhrif á velferð okkar, líðan okkar, tilfinningar og heilsu.“

Kjósa
30
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (3)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
    Sakna gamla miðbæjarins með gömlu fallegu húsunum. Þessu er öllu breytt til hins verra.
    0
  • FB
    Finnur Birgisson skrifaði
    Sakna þess að umhverfissálfræðingurinn skuli ekki tjá sig um Landsbankahúsið og Hafnartorg. En myndirnar eru fínar.
    5
    • Ásgeir Överby skrifaði
      Hann hefði líka mátt taka með Seðlabankann - eða tilheyrir hann fortíðinni?
      1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár